Ef innflutningur landbúnaðarafurða væri frjáls, mundu neytendur spara um 2800 milljón krónur á ári. Þar á ofan mundu ríkið og skattgreiðendur spara sér 6531 milljón krónur í niðurgreiðslum á ári, svo sem lesa má út úr nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Dagblaðið lét í sumar reikna út kostnað innfluttra landbúnaðarafurða. Byggt var á verði danska landbúnaðarráðsins. Við það var bætt öllum innflutningskostnaði, eins og hann er hjá íslenzkum heildsölum. Þar var talinn með erlendur kostnaður, flutningsgjöld og vátrygging, uppskipun og akstur, vörugjald og leyfisgjald, geymslukostnaður, vextir og bankakostnaður, svo og álagning í heildsölu og smásölu.
Ekki var bætt við tollum, þótt hugsanlegt sé, að ríkið vildi sjálft hagnast á slíkum innflutningi umfram hagnaðinn, sem það hefði af brottfalli niðurgreiðslna. Í því tilviki mundi hagnaður neytenda minnka, en þjóðhagslegur sparnaður yrði hinn sami.
Í ljós kom, að neytendur mundu spara 250 milljón krónur á dönsku nautakjöti, 270 milljón krónur á dönsku svínakjöti, 337 milljón krónur á dönskum kjúklingum, 1475 milljón krónur á dönsku smjöri, 300 milljón krónur á dönskum eggjum og 197 milljón krónur á dönskum kartöflum. Samtals er þetta 2829 milljón króna sparnaður á ári.
Í öllum tilvikum var miðað við það magn, sem nú er notað af þessum vörum hér á landi. Til viðbótar verður að gera ráð fyrir tvennu. Í fyrsta lagi mundu neyzluvenjur breytast og færast frá dýru lambakjöti yfir í ódýra kjúklinga. Þetta mundi spara neytendum nokkurt fé umfram þær tölur, sem nefndar eru hér að framan.
Í öðru lagi er Danmörk ekki hagkvæmasta landbúnaðarland í heimi. Ýmsar vörur, t.d. nautakjöt og kjúklingar, eru ódýrari í Bandaríkjunum. Ef innflutningurinn væri frjáls, mundu vörurnar að sjálfsögðu koma frá þeim löndum, sem ódýrasta hafa framleiðsluna.
Sumir munu segja, að ofangreindar tölur séu ekki sanngjarnar gagnvart íslenzkum landbúnaði, því að margar vörurnar séu niðurgreiddar af Efnahagsbandalagi Evrópu. En óneitanlega væri hugnanlegra, að Efnahagsbandalagið greiddi niður í okkur matinn en að við séum að greiða niður matinn ofan í auðþjóðir bandalagsins, svo sem við gerum nú með útflutningsuppbótunum.
2829 milljónir eru um 70.000 krónur á ári á hverja fimm manna fjölskyldu. Ef tekið er tillit til möguleika á breyttum neyzluvenjum og Bandaríkjaviðskiptum, fer sparnaður þessarar fjölskyldu að nálgast 100.000 krónur á ári – eða lægstu mánaðarlaun.
Þetta fræðilega dæmi hefur þann galla, að innflutningsfrelsi er ekki framkvæmanlegt á þessu sviði án margvíslegra aðgerða á öðrum sviðum. En það sýnir ljóslega, að kostnaður þjóðfélagsins af innlendum landbúnaði nemur ekki aðeins þeim 11600 milljónum í niðurgreiðslur, útflutningsuppbætur og aðra beina styrki til landbúnaðarins, sem eru í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið