Náttúruverndarráð hefur gefið út tímamótayfirlýsingu um málmblendiverksmiðjuna fyrir huguðu í Hvalfirði. Ætti þessi yfirlýsing að geta bundið enda á móðursýkisskrif um mengunarmál þessa þjóðþrifafyrirtækis.
Náttúruverndarráð segir: “Varðandi fyrirhugaða kísiljárnverksmiðju í Hvalfirði er það mat Náttúruverndarráðs, að hættan á skaðlegum áhrifum á lífríki vegna mengunar af hennar völdum sé ekki veruleg, ef allar tilteknar varúðarráðstafanir eru gerðar, og minni en af öðrum málmblendiiðnaði, svo sem af framleiðslu mangan- og krómjárnblendis.”
Ráðið segir einnig: “Þrátt fyrir áratuga reynslu af mikilli og hvimleiðri rykmengun frá kísiljárnbræðslum í Noregi, hafa að sögn umhverfisyfirvalda þar ekki komið fram neinar upplýsingar, sem benda til þess, að slík mengun hafi haft skaðleg áhríf á gróður eða dýralíf.”
Ráðið bendir á, að nýjasta tækni í rykhreinsun geri einnig kleift að losna næstum alveg við hina meinlausu rykmengun.
Náttúruverndarráð leggur í yfirlýsingu sinni áherzlu á, að við verksmiðjuna verði beitt fullkomnustu mengunarvörnum, sem völ er á, og að vistfræðilegar rannsóknir hefjist þegar, áður en rekstur verksmiðjunnar hefst.
Ekkert ætti því að vera til fyrirstöðu, að byrjað verði að reisa málmblendiverksmiðjuna.
Jónas Kristjánsson
Vísir