Við fáum að kjósa beint til alþingis og sveitarstjórna og njótum á ýmsan annan hátt sérstakra borgararéttinda samkvæmt stjórnarskrá og lögum. Sem félagar í fyrirtækjum og samtökum njótum við sumpart ekki sömu réttinda.
Öflug samtök fyrirtækja og vinnumarkaðar eru orðin mikilvægir aðilar að stjórn þjóðfélagsins. Ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn leita ráða hjá stjórnendum þessara aðila og taka verulegt tillit til þeirra við mikilvægustu ákvarðanir.
Þessi samtök eru drýgstu þrýstihóparnir í þjóðfélaginu. Smátt og smátt hafa völd þeirra aukizt svo, að setja þarf um starfshætti þeirra lög, sem tryggi, að lýð- ræði sé í heiðri haft, ekki bara formlegt lýðræði, heldur innihaldsríkt lýðræði.
Ekki alls fyrir löngu voru sett tiltölulega fullkomin lög um starfshætti hlutafélaga. Í þessum lögum eru meðal annars merk ákvæði til að tryggja rétt minnihluta. Hins vegar vantar lög um starfshætti samtaka þeirra, sem fyrirtækin mynda.
Hið sama er að segja um samvinnufélögin. Um þau gilda lög frá gömlum tíma, sem áttu þá að tryggja lýðræði innan þeirra. Það var áður en Samband íslenzkra samvinnufélaga óx kaupfélögunum yfir höfuð. Þessi lög eru orðin úrelt.
Hinar óbeinu kosningar til stjórnar SÍS minna á kosningar austantjalds. Í staðinn þurfa að koma beinar kosningar, sem allir samvinnumenn í aðildarfélögum SÍS geti tekið þátt í. Þar með mundu þeir aftur ná sambandi við forustu sína í SÍS.
Með þessu er ekki verið að segja, að núverandi skipan mála í samvinnuhreyfingunni sé ólýðræðisleg. Hún er bara ekki nógu lýðræðisleg, miðað við breyttar aðstæður í þjóðfélaginu. Finnur Torfi Stefánsson hefur flutt á alþingi frumvarp, sem á að geta bætt úr skák.
Mun alvarlegra er ástandið í samtökum aðila vinnumarkaðarins. Um þau gilda aðeins almenn lög um starfshætti félaga. Þau eru gersamlega úrelt og geta engan veginn tryggt lýðræði í þessum einna mikilvægustu valdastofnunum þjóðfélagsins.
Nauðsynlegt er að setja lög um samtök vinnumarkaðarins. Slík lög eiga að fela í sér ákveðinn rétt minnihluta, leynilegar atkvæðagreiðslur og beint kjör til stjórnar heildarsamtaka, svo að nokkur mikilvægustu dæmin séu nefnd.
Frumvarp þessa efnis hefur enn ekki verið flutt á alþingi. Stafar það sennilega af því, að þingmenn eru dauðhræddir við svonefnda “verkalýðsrekendur”, sem mundu telja völdum sínum stefnt í voða, ef lýðræði kæmist að.
Þar fyrir utan ættu raunar að vera til mun áhrifameiri lög um starfshætti félaga almennt. Aðalfundur Náttúrulækningafélags Reykjavíkur er dæmi um, hvernig er hægt að þverbrjóta nærri hverja einustu siðferðisreglu í félagslegum samskiptum.
Dagblaðið leggur til, að forsætisráðherra feli lagadeild háskólans að semja uppkast að lögum um framangreind atriði. Miði tillögurnar að því að endurreisa lýðræði í kerfum, sem hafa sprengt af sér eldri ramma.
Um venjuleg félög ættu að nægja almenn, en ströng lög, sem meðal annars fælu í sér fljótvirkt dómskerfi til verndar minnihlutum, sem beittir eru ofbeldi í skjóli falsaðs eða raunverulegs meirihluta.
Um mikilvæga þrýstihópa í þjóðfélaginu ætti um leið að setja sérstök lög, sem gengju mun lengra en hin almennu lög og væru sniðin eftir aðstæðum í hverju tilviki. Enginn getur verið á móti slíku, nema af annarlegum ástæðum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið