Endurskoðendur bera mikla ábyrgð á hruninu, einkum endurskoðendur í stórum fyrirtækjum með löngum nöfnum erlendum. Þeir þjónustuðu útrásarvíkinga og aðra krosseignarvíkinga. Endurskoðendur hjálpuðu þeim að selja sjálfum sér ímynduð verðmæti fram og aftur. Endurskoðendur hjálpuðu líka útrásarbönkum í sama skyni, bjuggu til bókhaldsfalsanir út og suður. Fyrir tilstilli endurskoðenda varð til bákn af fyrirtækjum með ímyndað innihald af eignum. Þegar sakir verða gerðar upp við þá, sem komu þjóðinni á hausinn, má ekki gleyma endurskoðendunum í fyrirtækjunum með löngu nöfnunum erlendu.