London söfn

Ferðir

Eins og hæfir höfuðborg fyrrverandi heimsveldis er London mikil safnaborg, sennilega hin mesta í heimi. Á einstökum sviðum kunna söfn á borð við Smithsonian í Washington, Louvre í París, Uffizi í Flórens og MoMA í New York að rísa hærra, en hvergi er breiddin meiri en í London. Sum þeirra eru hreinlega rosaleg að vöxtum, til dæmis Victoria & Albert Museum, sem er yfir ellefu kílómetra gönguleið.

British Museum

Frægasta safnið í London er fornminjasafnið British Museum. Það er móðir ýmissa safna, er síðan hafa orðið sjálfstæðar, risastórar stofnanir. Nú síðast er þjóðarbókhlaðan að flytja þaðan upp í sveit, svo að fornminjasafnið eitt er eftir hér í menntahverfinu Bloomsbury.

Hvergi í heiminum er í einu safni jafnmikið af fornminjum, einkum frá Egyptalandi, Austurlöndum, Grikklandi, Rómarveldi og miðöldum. Bókhlaðan taldi, þegar hún flutti, um átta milljón bindi, frægust fyrir risastóran lestrarsal með 45 kílómetrum af bókahillum og lestraraðstöðu fyrir 400 manns.

Safnhúsið lítur út eins og risastórt, grískt hof með forngrísku súlnariði og gaflaðsþríhyrningi að framan, reist 1823-47. Álmurnar eru fjórar umhverfis hinn mikla lestrarsal, sem hefur hvolfþak úr járni og gleri, breiðara en hvelfing Péturskirkju í Róm.

Bezt er að fara til vinstri, þegar inn er komið. Þar verður fyrst fyrir gríska og rómverska deildin í fimmtán sölum, ákaflega vel skipulögð. Hástigið er Duveen-salurinn með marmaralágmyndum, sem villimaðurinn Elgin lávarður rændi af Parþenon hofinu í Aþenu, endalaus röð þrígla, miðtæpa og gaflaðsþríhyrninga.

Í næstu sölum eru fornminjar frá Mesópótamíu, einkum Assyríu. Í Nimrud-salnum eru risastórar lágmyndir frá höll Assúrnasirpals og í sal 26 er svarti einsteinungurinn. Þá kemur röðin að Egyptalandi, þar sem þungamiðjan er salur 25. Í suðurenda hans er Rosetta-steinninn, sem var lykillinn að ráðningu myndleturs Egypta.

Í norðurendanum er salur Játvarðs 7. með ómetanlegum dýrgripum austrænnar listar, þar á meðal heimsins bezta safni fornkínverskra leirmuna. Þaðan liggur leiðin í austurálmuna með breytilegum sýningum miðalda-handrita og annarra bóka, til dæmis Lindisfarne-guðspjalla frá árinu 698. Að lokum er nauðsynlegt að líta inn í lestrarsalinn mikla. Á efri hæð eru svo fleiri fornminjar, einkum frá Bretlandseyjum. Þar eru líka múmíurnar.

(British Museum, Great Russell Street, opið 10-17, sunnudaga 14:30-18, E1)

National Gallery

Eitt mesta listaverkasafn heims er þjóðlistasafnið National Gallery við Trafalgartorg, vel skipulagt, greinilega merkt og vel lýst. Málverkin eru yfir 2000 talsins og ná yfir alla listasöguna, nema nútímalist og brezka list, sem eru í Tate Gallery.

National Gallery er heimsins mesta forustusafn í vísindalegu viðhaldi, hreinsun og endurnýjun málverka. Það er líka frægt fyrir breytilegar sýningar um ákveðin stef í listasögunni.

Vinstra megin eru ítölsk málverk í rúmlega tuttugu sölum, allt frá endurreisnartíma til síðari alda. Þar má m.a. sjá verk Botticelli, Leonardo da Vinci, Mantegna, Michelangelo, Rafael, Titian og Tintoretto.

Nyrst í sömu álmu eru Hollendingar og Flæmingjar, þar á meðal Rembrandt, Vermeer, van Dyck, Rubens, van Eyck, Hieronymus Bosch og Brügel, ennfremur Dürer hinn þýzki.

Austan til í safninu eru Frakkarnir, þar á meðal Delacroix og blæstílsmálararnir Manet, Monet, Renoir og Pisarro, svo og nútímamálarar á borð við Degas, Cézanne og van Gogh, Spánverjarnir Velasques, el Greco (grískur) og Goya, svo og Englendingarnir Hogarth, Gainsborough, Constable og Turner.

Sambyggt National Gallery að aftanverðu er National Portrait Gallery með yfir 5000 málverkum af frægu fólki úr sögu Bretlands, nú síðast einnig með ljósmyndum og skopmyndum.

(National Gallery, Trafalgar Square, opið 10-17, sunnudaga 14-18. National Portrait Gallery, 2 St Martin´s Place, sami opnunartími, E2)

Tate Gallery

Síðan Tate Gallery var stækkað, getur það haft til sýnis um þriðjung hinna 10.000 málverka í eigu safnsins. Og enn stendur til að stækka það. Þarna eru sýnd brezk málverk og alþjóðleg nútímalist. Tate er frægt fyrir innkaupastefnu sína, því að þangað eru oft keypt málverk, áður en þau eru þornuð á striganum. Þá má ekki gleyma, að í Tate er fyrsta flokks veitingahús með frábærum vínlista (bls. 44).

Í þremur stórum sölum beint inn frá anddyrinu eru yfirleitt tímabundnar sýningar til að sýna ákveðin stef, svo sem þróun ýmissa stíla myndlistar.
Vinstra megin við þessa miðju er brezka safnið með Hogarth, Gainsborough og Turner. Hægra megin er nútímasafnið, fremst Monet, Pisarro, van Gogh, Gauguin, Cézanne, Degas, Picasso, Braque og Rouault, síðan Mondrian, Kandinski, Munch, Moore, Arp, svo Chagall, Klee, Dali, Miro, Pollock og loks innst hin yngstu málverk frá því eftir 1960.

(Tate Gallery, Millbank, opið 10-17:50, sunnudaga 14-17:50, E5)

Natural History Museum

Náttúrufræðisafnið í London er hluti stórrar safnamiðstöðvar í South Kensington, þar sem á einum og sama stað eru einnig jarðfræðisafnið, vísindasafnið og nytjalistasafnið. Safnhöll náttúrufræðisafnsins er orðin glæsileg að utanverðu, síðan hún var hreinsuð, svo að enn á ný sjást hinir fögru, ljósbrúnu og bláu litir. Hún er í rómönskum stíl og minnir á dómkirkju.

Í anddyri trónir beinagrind risaeðlu. Í sölunum til beggja handa eru samtals nokkrar milljónir sýningargripa af um það bil 40 milljónum í eigu safnsins. Árlega bætast við um 350.000 safnmunir. Mesta athygli vekur nútímaleg sýning á mannslíkamanum og svo hvalasalurinn með risavöxnum beinagrindum.

(Natural History Museum, Cromwell Road, opið 10-18, sunnudaga 14:30-18, A4)

Geological Museum

Að baki náttúrufræðisafnsins er Geological Museum, frábært jarðfræðisafn með kristöllum, gimsteinum og venjulegu grjóti. Skemmtilegust er jarðhæðin með óslípuðum og slípuðum eðalsteinum, svo sem demöntum, roðasteinum, safírum og smarögðum.

(Geological Museum, Exhibition Road, opið 10-18, sunnudaga 14:30-18, A4)

Science Museum

Við sömu götu er Science Museum, hrikalega stórt safn um vísindi og uppgötvanir mannsandans. Börn hafa gaman af tölvudeildinni, sem hefur margvísleg leiktæki, svo og barnadeildinni, er einnig hefur ótal hnappa, sem styðja má á. Til vinstri í anddyrinu er frægur pendúllinn, sem sýnir með fráviki sínu frá lóðréttu, að jörðin snýst.

(Science Museum, Exhibition Road, opið 10-18, sunnudaga 14:30-18, A4)

Victoria & Albert Museum

Þessi hrærigrautur er sennilega eitt stærsta safn í heimi. Gönguleiðin um það er rúmir ellefu kílómetrar og sýningarsalirnir eru 155. Safnið er líflegt og óformlegt og sýnir einkum nytjahluti eins og byggðasöfnin heima á Fróni, þótt stærðin sé önnur.

Engin leið er að skipuleggja ferð um völundarhúsið, en góð kort fást við aðalinnganginn. Í öðrum hluta safnsins er sýningargripum raðað eftir viðfangsefnum, svo sem leir, gleri, járni og vefnaði. Í hinum er raðað eftir tímabilum menningarsögunnar. Alltaf má uppgötva hér eitthvað nýtt. Í rauninni er skoðun safnsins mánaðarvinna fyrir áhugafólk um þjóðfræði og nytjalist.

(Victoria & Albert Museum, Cromwell Road, opið mánudaga-fimmtudaga og laugardaga 10-17:30, sunnudaga 14:30-17:30, lokað föstudaga, A4)

Wallace Collection

Wallace Collection er eitt bezta safn franskrar listar, sem til er utan Frakklands. Upphaflega var það einkasafn og er enn til sýnis í höll hins upprunalega eiganda, fjórða markgreifans af Hertford. Beztu verkin eru á annarri hæð.

(Wallace Collection, Manchester Square, opið 10-17, sunnudaga 14-17, C1)

Zoo

Dýragarðurinn í London er nyrst í Regent Park, hinn elzti í heimi og einn hinn mikilvægasti. Þar eru yfir 5.000 dýr af yfir 1.100 tegundum á 14 hektörum lands.

Gömlu járnbúrin hafa að verulegu leyti verið lögð til hliðar og í staðinn er reynt að hafa dýrin á rúmgóðum og eðlilegum svæðum, sem endurspegla heimahaga þeirra. Enda eru dýrin hér ekki eins þreytuleg og tómleg og víða má sjá í dýragörðum. Mestur hluti þeirra tímgast, þótt hinum vinsælu pandabjörnum hafi ekki tekizt það.

Börn gátu fengið að fara á bak kameldýrum og hestum og að aka í vagni, dregnum af lamadýrum, þegar við vorum þar síðast.

(London Zoo, Regent´s Park, opið mánudaga-laugardaga 9-18, sunnudaga 9-19, aðgangseyrir, norðan við B/C1)

Madame Tussaud´s

Þetta er frægasta vaxmyndasafn í heimi. Madame Tussaud´s sameinar sögulega frægt fólk, nútímastjörnur og hryllingsdeild í kjallara. Við hliðina er Planetarium með stjörnufræðilegum sýningum.

(Madame Tussaud´s, Marylebone Road, opið 10-17:30, aðgangseyrir, norðan við B/C1)

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson