Ekkert er auðveldara en að drepa tímann í London. Sumum finnst fátt skemmtilegra en að láta aka sér um í heimsins beztu leigubílum. Veitingahúsin eru heill heimur, svo sem fram hefur komið í kaflanum hér að framan.
En svo er fjölbreytt skemmtanalífið með eitthvað fyrir alla. Sumir sækja leikhúsin fast og aðrir bíóin. Enn eru þeir, sem láta sig dreyma um að dveljast löngum stundum á ölstofum. Svo eru það diskó-klúbbarnir og jazzstaðirnir. Ekki má heldur gleyma knattspyrnunni á laugardögum. Loks er ýmiss konar vel auglýst skemmtun handa ferðamönnum, sem er svo ómerkileg, að hennar verður ekki frekar getið í þessari bók. En víkjum að þeirri skemmtun, sem er sönn í London.
Covent Garden
Kraftaverkið hefur gerzt. London hefur, eins og aðrar borgir, eignazt sitt Lækjartorg, sína þungamiðju heimamanna og ferðamanna, Covent Garden (F2).
Fyrir áratug var fluttur á brott hinn frægi ávaxta- og grænmetismarkaður og eyðimörk varð eftir. En nú hefur markaðssvæðið verið gætt lífi á nýjan leik með skipulögðu átaki. Það er iðandi af lífi með útikaffihúsum, ölsvölum, hljóðfæraslætti og húllumhæi.
Sjálft markaðshúsið er frá 1832, en járn- og glerhvolfin eru nokkru yngri. Nú hafa hér verið innréttuð kaffihús, ölstofur og vínbarir, smáverzlanir, tízkubúðir og útimarkaður.
Fyrir framan er hin næstum 350 ára kirkja heilags Páls, eftir hinn kunna arkitekt Inigo Jones, fegursta og fyrsta gnæfræna hverfiskirkjan í London. Nú er hún útfararkirkja leikarastéttarinnar.
Á opna svæðinu milli markaðs og kirkju eru jafnan uppákomur í hádeginu, þegar fjörugast er á svæðinu, og oft einnig á öðrum tímum. Við fylgdumst í einu og sama hádeginu, fyrst með manni, sem stjórnaði strengbrúðu, síðan hlustuðum við á rokkhljómsveit og loks sáum við látbragðsleikara.
Bezt er að fylgjast með af svölum ölstofunnar Punch & Judy, því að þaðan sést yfir áhorfendaskarann. Útikaffihúsið Bar Creperie á gangstéttinni fyrir neðan er kjörinn staður til að fylgjast með lífinu á svæðinu, en þar skyggir mannfjöldinn á uppákomurnar.
Inni í miðjum markaði er útikaffihúsið Cafe Delicatessen og í hinum endanum ágætis vínbarinn Crusting Pipe. Allt eru þetta einkar vel heppnaðir hvíldarstaðir á rápi manna um markaðinn og fjörugar nágrannagöturnar.
Covent Garden hefur hrakið þá firru, að London sé svo mikið rigningarbæli, að þar sé ekki hægt að hafa gangstéttarkaffihús og útilíf. Hugmyndin um endurreisnina hefur tekizt vonum framar.
Þetta er langþráður arftaki Soho, sem var um tíma og er að nokkru leyti enn eyðilagt af klámbúlum og ljósaskiltum. Það er einnig langþráður arftaki markaðsins í Petticoat Lane, sem orðinn er að ómerkilegustu skransölu.
Covent Garden markaðurinn er orðinn að allra skemmtilegasta staðnum í London, eins konar “Strøget”.
Krár
“Pöbbarnir” eru heimskunn miðstöð mannlegs lífs í London sem annars staðar á Bretlandseyjum. Hver þeirra hefur sitt andrúmsloft, sem dregur bæði dám af innréttingum og fastagestum.
Því miður hafa sumar ölstofur orðið griðland iðjulausra drykkjusvola og dregizt niður í svaðið. Í aðrar hafa leiktæki haldið innreið sína.
Enn eru þó til krár, sem halda sæmilegri reisn og eru notalegar til heimsóknar milli dagskrárliða í ferð til London. Í miðborginni eru þær yfirleitt opnar 11-15 og 17:30-23 og sunnudaga 12-14 og 19-20:30. Hér verður sagt frá nokkrum beztu kránna.
Watling
Rétt að baki dómkirkju heilags Páls, St Paul´s, í City er gamla eikarbitakráin Watling, frá árunum eftir brunann mikla árið 1666. Hún er teiknuð af hinum fræga Christopher Wren, svo að kirkjusmiðir hans gætu fengið sér snarl og kollu milli vinnulota. Á þessum stað hafa ölstofur verið frá ómunatíð, því að hér lá hinn forni rómverski vegur Via Vitellina til Dover og Frakklands. Nú eru það bankamenn, sem einkenna krána. Matur er mun betri en gengur og gerist á ölstofum.
(Watling, 29 Watling Street, H1/2)
Black Friar
Hin sérkennilega Black Friar krá, andspænis samnefndri járnbrautarstöð í City, skartar lágmyndum af drukknum munkum innan um marmara, brons og alabastur. Þar sem hún er í nágrenni Fleet Street, er hún vin blaðamanna og rithöfunda, sem kunna vel við sig í ungstíls-innréttingunni. Takið eftir litla skotinu að baki aðalbarsins.
(Black Friar, 174 Queen Victoria Street, H2)
Cheshire Cheese
Cheshire Cheese er vingjarnleg ölstofa við norðurhlið Fleet Street, ein frægasta krá í heimi. Hér drukku áður rithöfundarnir Johnson og Boswell. Enn þann dag í dag er ölstofan ein helzta kjaftamiðstöð borgarinnar. Einn af börunum er frátekinn fyrir innvígða blaðamenn. Byggingin er frá 1667, árinu eftir brunann mikla. Andrúmsloftið er þrungið brezkri sögu, þótt ferðamenn séu orðnir í meirihluta meðal gestanna.
(Cheshire Cheese, Wine Office Court/Fleet Street, G1)
Globe
Þægilega í sveit sett rétt hjá Covent Garden er hin fjörlega krá Globe í Viktoríustíl, einkum fræg fyrir atriði úr kvikmyndinni Frenzy eftir Alfred Hitchcock.
(Globe, 37 Bow Street, F2)
Lamb & Flag
Vestast í Covent Garden hverfinu og þægilega nálægt Soho er hin eldgamla Lamb & Flag í húsasundi, sem ókunnugir geta átt erfitt með að finna. Ölstofan er frá 1623, ein hin elzta í borginni og er nú einkum griðland leikara úr nálægum leikhúsum. Hún er lítil og vinsæl, enda maturinn í betra lagi, svo að oft standa viðskiptavinir úti á götu vegna þrengsla.
(Lamb & Flag, Rose Street, E2)
Salisbury
Ein fegursta krá í London er Salisbury á hverfamótum Soho og Covent Garden, mikið sótt af leikhúsfólki, hommum og öðru “skrítnu” fólki. Gler, speglar og messing eru meginatriði innréttingar frá játvörzkum tíma. Hér má sjá ýmsa gesti sérkennilega klædda. Og auk þess er sennilega hvergi betri ölstofumat hægt að fá í allri miðborginni.
(Salisbury, Cecil Court/St Martin´s Lane, E2)
Red Lion
Red Lion er krá St James´s hverfisins, lítil og falleg, frá viktoríönskum tíma, með nettum glerskilrúmum. Raunar er þetta sú fyrirmyndar ölstofuinnrétting, sem menn hafa reynt að stæla á krám um allan heim.
(Red Lion, 2 Duke of York Street, D2/3)
Guinea
Mayfair hverfi hefur líka sína höfuðkrá. Guinea er lítil og ákaflega látlaust innréttuð ölstofa í öngstræti í rólegum hluta borgarinnar. Hún er jafnan sneisafull af fólki, á sumrin langt út á götu. Nautasteikurnar koma úr eldhúsi Guinea Grill Room, eins bezta steikhúss miðborgarinnar.
(Guinea, 30 Bruton Place, C2)
Grenadier
Grenadier er sögð ein ósviknasta krá í London, í torfundnu öngstræti í nágrenni Hyde Park Corner, aftan við Berkeley hótel. Í kjallaranum er upprunalega kráin, einkadraugur staðarins og gangur fyrir pílukast. Drukkið er í þremur litlum sölum, hlöðnum tilviljanakenndum skreytingum. Þetta er vinsæl stammbúla fína fólksins í Belgravia hverfi.
(Grenadier, 18 Wilton Row, C3)
Bunch of Grapes
Mitt á milli Harrods stórverzlunarinnar og safnanna í South Kensington er hin fagra Bunch of Grapes frá Viktoríutíma með frábærlega skornum speglum og blýgleri.
(Bunch of Grapes, 207 Brompton Road, A/B4)
Knattspyrna
Í London eru heimahagar nokkurra frægra knattspyrnufélaga með Arsenal og Tottenham í broddi fylkingar. Á vertíðinni má reikna með a.m.k. einum stórleik í London á hverjum laugardegi.
Leikirnir byrja oftast um kl. 14, en áhugamenn eru komnir á vettvang löngu fyrr. Varasamt getur verið að ætla sér nauman tíma, því að umferðaröngþveiti myndast, þegar líður að leikbyrjun. Þeir, sem gefa sér góðan tíma, geta skemmt sér við að fylgjast með aðdragandanum utan vallar og innan.
Leikhús og bíó
Bezta skemmtun margra, sem gista hér um lengri eða skemmri tíma, er að fara í leikhús. Í þessari háborg leiklistarinnar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem þeir kjósa ballett, óperur, létta söngleiki, sakamálaleikrit, gamanleiki, hreina farsa eða leikrit af alvarlegra tagi. Og ekki spillir, að í mörgum þeirra leika gamlir kunningjar okkar úr leikritum og framhaldsþáttum sjónvarps.
Flest helztu leikhúsin eru í Covent Garden hverfi og sum í Soho, en þeir, sem vilja kynnast hinu allra nýjasta, finna tilraunaleikhúsin í úthverfunum. Upplýsingar um leikhús er að fá í dagblöðum og vikublöðum og kynningarritum af ýmsu tagi.
Á flestum góðum hótelum er hægt að fá aðstoð umsjónarmanna (hall porters) við útvegun leikhúsmiða og raunar líka fótboltamiða, ef ekki eru sérstakar miðasölur í anddyrinu. Á Leicester Square er söluturn, þar sem hægt er að kaupa miða á niðursettu verði á leiksýningar samdægurs. Er þá ágætt að hafa fleiri en eina sýningu í huga, áður en farið er í biðröðina, og vera viðbúin að velja það, sem bezt gefst.
Síðast var algengt miðaverð GBP 10-13, en hærra á söngleiki. T.d. átti að kosta GBP 18,50 að sjá hinn fræga söngleik Chess, en okkur voru útvegaðir miðar fyrir GBP 21 og má það teljast lítill milliliðakostnaður.
Margir kjósa eflaust líka að bregða sér í bíó í heimsborginni, þótt miðaverð sé talsvert hærra þar en á Íslandi. Bezti kosturinn er að fara til Leicester Square, þar sem kvikmyndahúsin standa allt um kring og bjóða það allra nýjasta og forvitnilegasta.
Barbican
Árið 1956 var ákveðið að reisa í Barbican, eyðimörk sprengjuárása síðari heimsstyrjaldar, nýtízku hverfi íbúða, skrifstofa, búða, skóla og fagurra lista. Framkvæmdum lauk loksins 1982 með opnun stærstu félags- og listamiðstöðvar Evrópu. Þar eru haldnar merkar listsýningar og þar hafa m.a. aðsetur London Symphony Orchestra og Royal Shakespeare Theatre.
Götulíf er dapurlegt og byggingarlistin misheppnuð, en mannmergðin lyftir stundum drunganum, þegar merkir listviðburðir eru á dagskrá. Hér sökkva menn sér í menninguna og stökkva úr henni aftur, án þess að gera hlé til að hanga á kaffihúsi.
Næturlíf
Glansinn á næturlífinu í London er mestur á diskótekum og hliðstæðum dansstöðum, sem stundum eru kallaðir næturklúbbar. En diskóin rísa og hníga örar en svo, að gott sé að henda reiður á því í leiðsögubók.
Hér eru nokkur diskó eða klúbbar, sem voru efst á baugi í miðborginni, þegar bókin var samin og voru jafnframt líkleg til úthalds allra næstu árin. Einnig fljóta með tveir gamlir og traustir jazzstaðir.
Annabel´s
Í aldarfjórðung hefur Annabel´s verið fínasti næturklúbburinn í London, staðurinn þar sem prinsarnir í konungsfjölskyldunni og aðallinn skemmta sér. Um tíma stóð hér yfir innrás olíu-araba, en þeir hafa nú verið hraktir á brott að verulegu leyti. Á veggjum eru skrípamyndir af frægu fólki. Í kjallaranum er dansað.
Mjög erfitt er að komast inn í Annabel´s. Félagsgjaldið er GBP 300. Bezt er að þekkja einhvern, sem getur boðið okkur með. Ágætan kvöldverð var hægt að fá á GBP 70 á manninn. Þetta er aðlaðandi og siðmenningarlegur skemmtistaður, ekkert auðkenndur að utanverðu.
(Annabel´s, 44 Berkeley Square, sími 629 5974, C2)
Stringfellows
Dansgólfið er voldugt í skemmtilegasta diskói heimsborgarinnar, Stringfellows. Gestir eru fjörugir og tónlist er góð. Maturinn er frambærilegur. Tímabundin félagsaðild kostaði GBP 6 mánudaga-miðvikudaga, GBP 7 fimmtudaga og GBP 10 föstudaga og laugardaga. Lokað sunnudaga.
(Stringfellows, 16 Upper St Martin´s Lane, sími 240 5534, E2)
Embassy
Síðustu fimm árin hefur Embassy verið eitt fremsta diskó í London. Lætin eru að vísu minni en voru, þegar hálfberir þjónarnir á satín-stuttbuxum fóru á rúlluskautum milli gesta. Sunnudaga er hommakvöld. Aðra daga er opið fyrir alla. Aðgangseyrir var GBP 7 og glas af víni eða áfengi kostaði GBP 2, bjórinn GBP 1,50. Ekkert skilti að utanverðu segir frá tilvist staðarins, svo að fólk verður að þekkja hann eða muna heimilisfangið.
(Embassy, 7 Old Bond Street, sími 499 5974, D2)
Valbonne
Mest er lagt upp úr innréttingunum á Valbonne. Þar er meira að segja sundlaug og pálmatré, eins konar blanda af Costa del Sol og Suðurhafseyjum. Einn barinn er bátur, annar strákofi og hinn þriðji er hellir undir fossi. Á einum stað er eins konar tívolí. Úr veitingasalnum er yfirsýn yfir mestöll herlegheitin. Aðgangseyrir var GBP 5 mánudaga-miðvikudaga, GBP 7 fimmtudaga, GBP 8 föstudaga-laugardaga.
(Valbonne, 62 Kingly Street, sími 439 7242, D2)
Legends
Tveggja hæða diskóið Legends hóf göngu sína fyrir átta árum. Hljóðburður er góður. Miðvikudagskvöld er jazz. Lokað sunnudaga. Aðgangur kostaði GBP 3 mánudaga-fimmtudaga, GBP 5 föstudaga-laugardaga.
(Legends, 29 Old Burlington Street, sími 437 9933, D2)
Xenon
Xenon er fremur uppáþrengjandi nýliði í diskólífinu, með töframönnum og látbragðsleikurum á sviði, tígrisdýrum og pardusdýrum. Bjórinn kostaði GBP 1 og flaska af víni hússins GBP 8. Aðgangur kostaði GBP 5 mánudaga til miðvikudaga, GBP 6 fimmtudaga og GBP 7 föstudaga og laugardaga. Lokað sunnudaga. Diskóið er ekki auðkennt að utanverðu.
(Xenon, 196 Piccadilly, sími 734 9344, D2)
Hippodrome
Nýjasta sköpunarverk Peter Stringfellows er Hippodrome á horni Charing Cross Road og Cranbourn Street, þar sem áður var Talk of the Town. Þetta er sagt vera stærsta diskó í heimi, útbúið gífurlega flóknum ljósa- og hljóðbúnaði, reykframleiðsluvélum og leysigeislum. Mánudaga eru hommakvöld.
Aðgangur kostaði GBP 4 mánudaga-fimmtudaga og GBP 7,50 föstudaga-laugardaga.
(Hippodrome, Charing Cross Road/Cranbourn Street, sími 437 4311, E2)
Ronnie Scott´s
Í rúma tvo áratugi hefur Ronnie Scott´s verið ein af tíu helztu jazzbúlum veraldar. Næstum því hver einasti þekktur jazzleikari hefur komið hér fram. Yfirleitt er sneisafullt hjá Ronnie og andrúmsloftið er einkar viðkunnanlegt. Á hæðinni fyrir ofan er Upstairs at Ronnie, en það er kunnasti rokkstaður miðborgarinnar.
(Ronnie Scott´s, 47 Frith Street, sími 439 0747, E1/2)
100 Club
Hinn kunni jazzstaðurinn í London er 100 Club, einfaldari í sniðum. Nútímajazz er fluttur mánudaga og föstudaga, en hefðbundinn jazz aðra daga vikunnar. Andrúmsloftið er í réttum stíl.
(100 Club, 100 Oxford Street, sími 636 0933, D1)
1983 og 1988
© Jónas Kristjánsson
