London inngangur

Ferðir

LEIÐSÖGURIT

FJÖLVA

JÓNAS KRISTJÁNSSON

ritstjóri

HEIMSBORGIN

LONDON

Leiðsögurit fyrir

íslenzka ferðamenn

Ljósmyndir:

KRISTÍN HALLDÓRSDÓTTIR

Fjölvaútgáfa

Bókarstefna

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og okkur fundizt þær að ýmsu leyti takmarkaðar.

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíoteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Heimsborgin London, samsafn þorpa

Ljúfa London er ein örfárra miðpunkta mannkyns, heimsmiðstöð kaupsýslu og stjórnmála, — og sú þeirra, sem hefur einna mestan alþjóðabrag. Gangstéttir miðborgarinnar eru iðandi af allra þjóða fólki, mörgu frá fjarlægum heimshornum. Enda fjallar einmitt einn kafli þessarar bókar um ferðalag kringum jörðina á 30 veitingahúsum í London.

Fólk fer samt ekki bara í viðskiptaerindum til heimsborgarinnar. London er nefnilega engin venjuleg stórborg með ys og amstri. Hún er einnig róleg borg, þar sem gott er að hvílast. Hún er heimur ótal garða, stórra og smárra. Hún er þorp lágreistra húsa við mjóar og sveigðar götur.

Um leið er hún íhaldssöm borg gamalla hefða. Indælust er hún vegna íbúanna, sem kunna að umgangast náungann á siðmenntaðan hátt. Engir heimsborgarbúar eru jafn lausir við taugaveiklun og æðibunugang og heimamenn þessarar borgar. Þeir hafa t.d. nógan tíma til að leiðbeina ókunnugum.

London er sérkennilegt safn nokkurra smábæja, sem hver hefur sína persónu, sitt aðdráttarafl. Alveg eins og Westminster er annar heimur en City, er Covent Garden annar heimur en Soho. Í stað þess að kalla London alþjóðaborg, mætti alveg eins kalla hana safn alþjóðaþorpa.

Frístundalífið í London sogar einnig að sér fólk. Hún er heimsins mesta knattspyrnuborg og heimsins mesta leikhúsborg. Ölstofur hennar eru frægar. Kvikmyndahúsin bjóða allt hið nýjasta. Hún er höfuðborg popptónlistar og ein magnaðasta tízkuborg heims.

Frægar kirkjur og enn frægari söfn eru einn segull borgarinnar, sem annars státar ekki af eins merkilegri byggingalist og margar aðrar stórborgir. London er ekki falleg borg, en hún er notaleg borg, ágætur hvíldarstaður og skemmtistaður. En fyrst og fremst er hún ferðamanninum endalaus röð uppgötvana nýrra yndisefna.

Almennar upplýsingar

Bankar

Bankar eru opnir 9:30-15:30 mánudaga-föstudaga. Á flugvellinum eru þeir opnir allan sólarhringinn.

Barnagæzla

Childminders, 67 Marylebone High Street W1, sími 935 9763, Universal Aunts, 36 Walpole Street SW3, sími 730 9834, og Baby-Sitter Unlimited, 313 Old Brompton Road SW3.

Ferðir

Miðstöð upplýsingaþjónustu enska ferðamálaráðsins er við 4 Grosvenor Gardens SW1, sími 730 3400.

Fíkniefni

Ólöglegt er að bera fíkniefni á sér og getur varðað sektum.

Flug

Til Íslands er flogið frá Terminal 2 á Heathrow-flugvelli. Piccadilly-leið neðanjarðarlestarinnar er 45 mínútur úr miðborginni út á völl. Dæmi eru um klukkustundar biðröð við farþegaskráningu þar. Í síma 759 2477 eru gefnar upplýsingar um komu- og brottfarartíma flugvéla.

Flugleiðir

Skrifstofa Flugleiða er við 73 Grosvenor Street í Mayfair, opin 9-17:30 mánudaga-föstudaga, sími 499 9971. Á komu- og brottfarartímum flugvéla hafa Flugleiðir mannaða afgreiðslu á efri hæð flugstöðvar á Heathrow, sími 759 7051.

Framköllun

Fotomagic, 110 Charing Cross Road WC2 og 130 Baker Street W1, svo og Foto Inn, 35 South Molton Street W1, framkalla og kópera á klukkustund.

Gisting

Tourist Information Centre upplýsingastofur í Heathrow Central Station og við brautarpall 15 á Victoria járnbrautarstöðinni útvega húsnæðislausu ferðafólki gistingu.

Götunúmer

Engin rökhyggja er í götunúmerum. Stundum er númerað eins og á Íslandi. En stundum er númeruð önnur götuhliðin fyrst og síðan hin til baka.

Hjálp

International Travellers´ Aid, Victoria Station, pallur 8, sími 834 3925, aðstoðar erlenda ferðamenn, sem hafa glatað peningum, vegabréfi, farangri eða lent í öðrum vandamálum.

Hótel

Pantaðu frekar “twin” herbergi með tveim rúmum en “double” með einu hjónarúmi af brezkri breidd, ef herbergin eru á sama verði, því að “twin” eru oft stærri.

Leigubíll

Venjulega er kallað af gangstéttarbrún í hina frægu og rúmgóðu leigubíla í London. Bílstjórarnir eru yfirleitt þaulkunnugir í borginni. Fargjald er lágt.

Lyfjabúð

Boots við Piccadilly Circus W1, sími 734 6126, er opin allan sólarhringinn, svo og Bliss, 54 Willesden Lane NW6, sími 624 8000.

Löggæzla

Hringdu í neyðarsímann 999.

Peningar

Brezki gjaldmiðillinn er sterlingspund, £ eða GBP, sem skiptist í 100 pence, p. Krítarkort eru mikið notuð í ferðamannaþjónustu.

Póstur

Pósthúsið í 24-28 William IV Street við Trafalgar Square er opið allan sólarhringinn.

Samgöngur

Álagið á samgöngutækjum er mest 8-9:30 og 17-19 mánudaga-föstudaga. Í lestir og strætisvagna er hægt að kaupa eins dags, fjögurra daga og sjö daga kort með ótakmörkuðum aðgangi að kerfinu. Strætisvagnar ganga 6-23/23:30 og sumir alla nóttina. Neðanjarðarlestir ganga 6-24.

Sendiráð

Sendiráð Íslands er við 1 Eaton Terrace SW1, opið 9:30-16 mánudaga-föstudaga, símar 730 5131 og 730 5132.

Sími

Mun ódýrara er að hringja heim úr almenningssímum en frá herbergjum hótela. Ef þú hringir milli landa, þarftu annað hvort að hafa nóg af 5p og 10p mynt eða vera búinn að kaupa sérstök segulspjöld, sem duga í mörg símtöl úr vissum sjálfsölum á brautarstöðvum. Símtöl eru ódýrust kl.18-20 og um helgar. Til Íslands er síminn 010 354.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 999.

Sjúkrahús

Sjúkrahús með slysadeildum í miðborginni eru Middlesex Hospital, Mortimer Street W1, sími 636 8833, St Mary´s Hospital, Praed Street W2, sími 262 1280, og St Thomas´s Hospital, Lambeth Palace Road SE1, sími 928 9292.

Skemmtun

Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í vikuritunum Time Out og What´s On og í síðdegisblaðinu Standard. Miðasölur eru víða, þar á meðal í anddyrum stórra hótela.

Slökkvilið

Hringdu í neyðarsímann 999.

Tannlæknir

Á daginn er neyðarþjónusta tannlækna á Royal Dental Hospital, 32 Leicester Square WC2, sími 930 8831. Eftir kl. 17 er hún á St George´s Hospital, Tooting Grove, Tooting SW17, sími 672 1255.

Vatn

Kranavatn er drykkjarhæft, en margir nota vatn af flöskum til öryggis.

Veður

Hringdu í 246 8091 til að fá veðurfregnir.

Verðlag

Verðlag hér í bókinni er frá ofanverðum vetri 1987. Þeir, sem síðar nota bókina, ættu að reikna með um 5% verðbólgu í Bretlandi.

Verzlun

Flestar verzlanir eru opnar mánudaga-laugardaga 9-17:30 og sumar lengur, í Chelsea á miðvikudögum og í Oxford Street á fimmtudögum. Í mörgum verzlunum geta útlendingar fyllt út eyðublað til að sýna í tolli við brottför og fá síðar endurgreiddan 15% virðisaukaskatt.

Þjórfé

Þjórfé er yfirleitt innifalið í reikningum hótela og veitingahúsa. Ef svo er ekki, er venja að greiða 15% ofan á reikninginn. Leigubílstjórnar búast við 15% þjórfé. Smápeningar eru gefnir burðarmönnum, hársnyrtifólki og fatagæzlum.

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson