Lokinhamrar

Frá Hrafnseyri í Arnarfirði út með ströndinni og inn Dýrafjörð að Þingeyri.

Hrikalegur jeppavegur í lóðréttum sjávarhömrum, berggöngum fjörubrimi og skriðum. Veldur oft skelfingu vegfarenda, en er í rauninni auðfarinn. Í Hrafnholunum má sjá í surtarbrandslögum leifar 14 milljón ára gamalla rauðviðartrjáa, sem uxu á heittempruðum tertier-tíma. Þar eru 85 cm breið tré, sem hafa verið 200 ára gömul, þegar hraun rann yfir þau. Á Hrafnseyri bjó Hrafn Sveinbjarnarson, einn af höfðingjum Sturlungaaldar og mestur læknir þess tíma, átti í deilum við Vatnsfirðinga og féll í bardaga á Hrafnseyri, sem þá hét Eyri. Jón Sigurðsson forseti fæddist á Hrafnseyri og ólst þar upp. Þar er nú safn til minningar um hann.

Förum frá Hrafnseyri vestur með strönd Arnarfjarðar, um Bauluhúsaskriður að Álftamýri. Síðan undir Veturlandafjalli um fjöru við Stapa og Skútabjörg undir hrikalegum Skeggja og um skriður að Lokinhömrum. Því næst vestur fyrir Tóarfjall að Dýrafirði um vitann í Svalvogum. Um Ófæruvík og fyrir Eyrarfjall, sumpart í þræðingi í Hrafnholunum á mjóum klettasillum með standbergi fyrir ofan og neðan. Síðan að Haukadal og með ströndinni að Búðardal.

40,9 km
Vestfirðir

Skálar:
Svalvogar: N65 54.396 W23 50.693.

Nálægar leiðir: Lokinhamraheiði, Álftamýrarheiði, Glámuheiði, Göngudalsskarð, Kvennaskarð, Hauksdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort