Ljón Norðursins í felum

Veitingar

Til skamms tíma fór ég um Blönduós eins hratt og lög leyfa. Gamla þorpið hengir haus, trekkir ekki. Þar þarf forkur að taka til hendi. Ein týra er í eymdinni; felu-kaffihúsið Ljón Norðursins, án tilvísunar frá þjóðvegi 1. Eitt af þessum skrítnu kaffihúsum, ólíkt öllum öðrum: Safn um smiðinn Leó Árnason, sem lagði niður hamarinn að lokinni starfsævi. Tók upp nafnið Ljón Norðursins og málaði naívisma-listaverk. Þar fíla túristar sig með spilverki og mála list á veggi. Hér fæ ég mér kaffi og kleinu á norðurleið.

Í bænum úir og grúir af marklausum söfnum, sem hlegið er að. Hér vantar þó flott safn um alla sauðaþjófana. Um hestakallana sem létu presta jarðsyngja horfnu góðhestana. Um forfeður mína Kristján ríka og Jónas lækni. Um Björn á Löngumýri og Ísberg sýslumann, sem sigaði löggunni á túrista, skilaði ekki hraðasektunum, heldur notaði heima í héraði og komst upp með það. Löggan liggur nú í koju og er að mestu hætt að sekta. Er ekki hægt að dubba hana upp til rána sem Fjalla-Eyvind? Ekki dugar að liggja í koju og veina á álver, þegar sjálfbær auðlind ferðaþjónustu er ónotuð. Þessi ráðgjöf er ókeypis.