Lítill fingur réttur fram

Greinar

Svartamarkaðsbrask með gjaldeyri hefur að sögn Ólafs Jóhannessonar viðskiptaráðherra stuðlað að þeirri ákvörðun stjórnvalda að heimila mönnum að ávaxta erlendan gjaldeyri í íslenzkum bönkum. Gaf ráðherrann til kynna, að ekki yrði spurt, hvaðan gjaldeyririnn sé fenginn.

Nú á að reyna að ná gjaldeyrinum inn í bankana með því að bjóða eigendum hans vexti, sem líka verða í erlendum gjaldeyri. Ennfremur með því að gefa eigendunum kost á nokkuð frjálsu vali um not gjaldeyrisins, þegar þeir þurfa á honum að halda, til dæmis til ferðalaga. Slík notkun á samkvæmt nýju reglunum ekki að dragast frá venjulegum skammti ferðagjaldeyris.

Þetta er skynsamlegt skref í átt til viðurkenningar á staðreyndum. Ekki er þó trúlegt, að skrefið hirði upp mikið af lausagjaldeyri í landinu, því að eigendur hans munu eftir sem áður telja sig hagnast betur á því að selja hann á svörtum.

Öðru máli kann að gegna um umboðslaun, sem innflytjendur hafa falið erlendis og ýmist notað til að bæta sér upp lága álagningu eða geymt þar áfram til að efla viðskiptatraust sitt. Fyrir þessa aðila kann að reynast ódýrara að ávaxta hér heima þann gjaldeyri, sem þeir verða hvort sem er að nota í rekstri sínum eða bankaviðskiptum.

Í stórum dráttum er óhætt að segja, að yfirlýsing Ólafs Jóhannessonar um nýjar gjaldeyrisreglur eftir áramótin sé virðingarverð tilraun. Hún hefur að minnsta kosti þau áhrif að sýna fram á, að tilslakanir á gjaldeyrishöftum hafa ekki heimsenda í för með sér.

Úr því að litli fingurinn hefur verið réttur fram, er upplagt tækifæri að minna á, að gaman væri að sjá alla höndina. Vafalaust er það vilji mikils meirihluta kjósenda, að afnumdir verði átthagafjötrar í ferðagjaldeyri og eignayfirfærslum.

Venjulegt og heiðarlegt fólk er á hlaupum út um allt til að skrapa gjaldeyri á svörtum til að bæta sér upp skömmtun yfirvalda. Afnám skömmtunarinnar mundi aðeins lítillega rýra gjaldeyrisstöðuna. Sú er skýringin, að svartur markaður í ferðagjaldeyri mundi að verulegu leyti leggjast af og gjaldeyririnn mundi leita í þess stað í bankana, sem bjóða upp á vexti.

Slík aðgerð mundi bæta viðskiptasiðferði þjóðarinnar og stórlega minnka svartamarkaðsgróða, án þess að kosta neinn gjaldeyri að ráði. Jafnframt væri hún mikilvægt skref í þá átt að gera íslenzku krónuna að gjaldgengri mynt og síðar jafnvel að hörðum gjaldeyri.

Þróun í slíka átt gæti verið eitt virkasta vopn þjóðarinnar í baráttunni gegn verðbólgu, gegn hinu gífurlega misrétti og hinni gífurlegu spillingu, sem dafna í skjóli hennar. Skref Ólafs í vikunni var lítið skref, en mikilvægt, því að það er í rétta átt. Þessu skrefi fagna menn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið