Lifi stöku áratugirnir.

Greinar

Kannski er það marklaus iðja að leita sagnfræðilegra hliðstæðna. Menn hafa í því efni oft á tíðum fundið meira samhengi en efni stóðu til. Og sumar hugdettur um sveiflur, hringrásir, spírala og aðrar endurtekningar í mannkynssögunni eru að mestu byggðar á ímyndunarafli.

Samanburður af þessu tagi freistar þó oft, enda getur hann verið lærdómsríkur, ef menn þekkja takmörk hans. Hann hentar ekki vel til smíða á sagnfræðilegum lögmálum, en getur leitt til forvitnilegra spurninga.

Í fljótu bragði væri skemmtilegt að slá því fram, að oddatölu-áratugirnir hafi verið framfaraskeið þessarar aldar hér á landi. Þá hafi lífsgleði og bjartsýni verið mest og straumur peninga stríðastur. Þá hafi menn áhyggjulaust dansað kringum gullkálfinn.

Fyrsti áratugur aldarinnar hefur verið kallaður áratugur Íslandsbanka. Þá var pumpað inn í landið erlendum flökkupeningum, sem hlaðizt höfðu upp áratuginn á undan og skorti útrás. Efnahagslíf okkar komst á fulla nútímaferð. Við fengum togara og heimastjórn.

Síðan komu áratugar timburmenn af vandamálum heimastjórnar og síðan sjálfstæðis. Þá voru stjórnmálin í molum, fylkingarnar klofnuðu og tvístruðust á ýmsa vegu. Enginn gullkálfur var lengur í Íslandsbanka.

Þriðji áratugur aldarinnar var svo valdatími hinnar klassísku hagfræði. Þá voru við völd íhaldsstjórnir, sem hækkuðu meira að segja gengi krónunnar. Þá dönsuðu menn charleston og fylltust á nýjan leik óbifanlegri bjartsýni.

Síðan kom áratugur kreppunnar hræðilegu. Þá varð eymdin og sulturinn aftur svo mikill, að sumir fluttu af mölinni upp í sveit. Þetta var áratugur svartsýni, enda tókst ráðamönnum að framlengja kreppuna fram að heimsstyrjöld með því að láta opinberar reglugerðir taka við af markaðslögmálum.

Fimmti áratugurinn var svo tími “blessaðs stríðsins” og stríðsgróðans. Þá dönsuðu Íslendingar kringum gullkálfinn hraðar en nokkru sinni fyrr og komust í fyrsta skipti í allra fremstu röð mestu velmegunarþjóða heims.

Síðan kom áratugur, þegar við urðum að standa á eigin fótum, án þess að kunna það. Þegar stríðsgróðans naut ekki lengur við, voru menn búnir að gleyma markaðslögmálum þriðja áratugsins og kunnu aðeins á opinberar reglugerðir. Doði, stöðnun og svartsýni réðu ríkjum.

Sjöundi áratugurinn var svo valdatími viðreisnarstjórnarinnar. Þá var helmingi kreppukerfisins kastað fyrir borð og markaðslögmál leidd á mörgum sviðum til valda á nýjan leik. Peningar fóru aftur að flæða um og dansinn kringum gullkálfinn stóð af lífi og fjöri.

Viðreisnin andaðist svo úr hugmyndaskorti og við tók áratugur ríkisdýrkunar, sá áratugur, sem við nú lifum á. Bjartsýni viðreisnaráranna er horfin. Við er tekin svartsýni, árviss 50% verðbólga, framkvæmdadoði og ólæknandi peningaleysi.

Níundi áratugurinn verður svo kannski nýtt tímabil framfara og bjartsýni, – endurnýjaðs dans í kringum gullkálfinn og peningaflóðs í þjóðfélaginu, – markaðslögmála í stað opinberra reglugerða. Kannski verður krabbameinsvöxtur ríkisins þá stöðvaður á nýjan leik.

Nú er árið 1979 og stutt í níunda áratuginn. Þótt leggja beri með varúð út af framangreindum hugleiðingum, eiga þær þó að sýna, að við þurfum ekki að sitja í sekk og ösku um aldur og ævi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið