Lífeyrislausnin fundin.

Greinar

Maður nokkur er um þessar mundir að láta af stðrfum vegna aldurs. Hann hefur haft um 100.000 krónur á mánuði og og fær 60.000 krónur í eftirlaun. Við skulum gera ráð fyrir, að 50% verðhólga haldi áfram næstu árin. Eftir ár er 60.000 króna lífeyririnn orðínn 40.000 króna virði. Eftir tvö ár er hann orðinn 27.000 króna virði. Og eftir aðeins fjögur ár er ellilífeyrir mannsins kominn niður í 12.000 krónur á núverandi verðgildi.

Þannig hefur verðbólga undanfarinna ára eyðilagt lífeyrissjóði landsmanna annarra en opinberra starfsmanna, sem eru verðtryggðir á kostnað skattgreiðenda. Einn helzti hornsteinn velferðarþjóðfélagsins hefur molnað í sundur.

Í samtökum launafólks og einkum í samtökum verzlunarmanna hafa á undanförnum misserum verið að ryðja sér til rúms hugmyndir um breytt form lífeyrissjóða, gegnumstreymi fjármagns í stað uppsöfnunar þess. Aðalfundur Landssambands íslenzkra verzlunarmanna fyrr í vetur mælti eindregið með framkvæmd þessara hugmynda.

Með stuðningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur hafa alþingismennirnir Guðmundur H. Garðarsson og Oddur Ólafsson og tryggingafræðingurinn Pétur H. Blöndal unnið að tillögu að framkvæmd málsins og sett hana fram í formi frumvarps til laga, sem Guðmundur hefur lagt fram á Alþingi.

Gert er ráð fyrir stofnun lífeyrissjóðs fyrir alla landsmenn. Þar safni menn ekki í sjóð til sinna eigin elliára, heldur verði tekjur sjóðsins frá starfandi fólki jafnskjótt notaðar til að greiða ellilaunafólki. Þannig á verðgildi lífeyrisins að haldast.

Í greinargerð frumvarpsins eru tekin nokkur dæmi um greiðslur úr slíkum sjóði á núverandi verðgildi. Dæmin sýna lífeyri cinstaklings upp á 55.000-65.000 krónur, hjóna upp á 87.000 krónur og hjóna, sem bæði vinna úti, upp á 107.000-170.000 krónur.

Sjóðurinn á að vera þess megnugur að greiða þeim lífeyri, sem engar tekjur hafa haft um ævina, þar á meðal konum, sem vinna heimilisstörf. Að öðru leyti er lífeyririnn misjafn eftir misjöfnum tekjum og þar af leiðandi misjöfnu framlagi til sjóðsins. Til viðbótar á þessi sjóður að geta greitt örorkulífeyri, tryggingabætur, barnalífeyri og þriggja mánaða fæðingarlaun, einnig fyrir húsmæður.

Iðgjöld til þessa lífeyrissjóðs yrðu samkvæmt útreikningum höfunda frumvarpsins svipuð og þau eru nú til hinna mörgu smáu lífeyrissjóða. Þar á ofan mundi ríkið spara 6000 milljónir á ári og geta minnkað tekjuskatt um tvo þriðju. Þann sparnað gætu félagar núverandi lífeyrissjóða notað til að halda við sjóðum sínum sem sérhæfðum lánasjóðum, svo sem verið hefur.

Útreikningar hðfunda frumvarpsins eru nákvæmir og traustvekjandi, svo og formúlur þær, sem þeir nota til útreiknings á lífeyri. Verður ekki annað séð en hér sé á ferðinni tímamótamál, eitt merkasta frumvarp, sem litið hefur dagsins ljós á löngu árabili. Höfundar þess eiga skilið þakkir alþjóðar fyrir framtak sitt og alþingismenn eru eindregið hvattir til að leiða málið til lykta þegar á þessu þingi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið