Léleg ræða.

Greinar

Lítil reisn var yfir ræðu Benedikts Gröndal utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku. Hún fól í sér mikil umskipti frá fyrra ári, er Benedikt flutti ágæta ræðu á sama vettvangi.

Í þetta sinn var ræðan hvorki fugl né fiskur. Ráðherrann fór úr einu í annað, án þess að skilja neitt eftir hjá þeim, sem heyrðu eða lásu. Ræðan var sama, gamla, góða flatneskjan, sem Benedikt rauf þó á þinginu í fyrra.

Núna fór ráðherrann alveg eftir gömlum helgisiðum, fordæmdi kynþáttastefnu Suður-Afríku, lýsti bjartsýni á framgang Zimbabwe-mála og hvatti til, að Palestínumenn fengju þjóðarréttindi. Þessa ágætu plötu heyrum við sí og æ.

Benedikt nefndi ekki mannréttindi á öðrum stöðum en þessum þremur. Vita þó allir, að ástand þeirra er verra í löndum Austur-Evrópu og mun verra í flestum löndum þriðja heimsins. Því mundi ráðherrann eftir í fyrra:

“Íslenzka þjóðin bjó lengi við nýlendustjórn. Við vitum af eigin reynslu, að frelsi og sjálfstæði valda ekki af sjálfu sér breytingum á aðstæðum og útrýma ekki þegar í stað fátækt. En á hinn bóginn vitum við, að sjálfstæði vekur þjóðerniskennd og gefur þjóðunum nýjan og áður dulinn styrk til framfara.

Ekki má færa völdin frá einni herrastétt til annarrar, né heldur mega nýjar myndir misréttis og óréttlætis koma í stað þess, sem áður var. Það er einungis með sjálfsaga, mannúð og menntun, sem kúguð þjóð getur aðlagazt nýjum aðstæðum og nýrri framtíð.”

Þetta var vel sagt hjá utanríkisráðherra okkar fyrir réttu ári. Þá gerði hann mannréttindi í heiminum að sérstöku umtalsefni og á þann veg, að ekki varð misskilið. Bæði honum og okkur var sómi að þeirri ræðu.

Eitt stærsta vandamál Sameinuðu þjóðanna og sumra sérstofnana þeirra er, að brenglað siðgæði þriðja heimsins hefur náð yfirhöndinni og ýtt til hliðar hefðbundnum réttlætishugmyndum Vesturlandabúa. Þriðji heimurinn hefur atkvæðin.

En það er ekki fólkið í þriðja heiminum, sem ræður þessu. Það eru hinir innlendu kúgarar, sem tekið hafa við af nýlenduveldunum gömlu. Þeir reyna að nota alþjóðastofnanir sér til aðstoðar við að efla völd sín heima fyrir.

Einræðisherrar og aðrir kúgarar þriðja heimsins hafa til dæmis náð samstöðu í Unesco, Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, um aðgerðir, er stefna að því að auðvelda þeim að kúga þjóðir sínar í friði.

Þeir vilja skrúfa fyrir frjálsan flutning upplýsinga og skoðana til landa sinna og frá þeim. Þeir vilja ekki aðrar fréttir frá löndum sínum en hinar opinberu fréttatilkynningar og ekki aðrar skoðanir en hinar opinberu túlkanir. Sama skömmtun vilja þeir, að ríki í hina áttina.

Hinum nýju eigendum þriðja heimsins hefur sumpart tekizt að beita Unesco fyrir vagn sinn á þessu sviði. Ef þeim takast slíkar aðgerðir almennt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, er siðræn forsenda samtakanna í voða.

Margt slíkt mætti utanríkisráðherra Íslands fjalla um á allsherjarþinginu. En í þetta sinn var ekkert bitastætt í ræðu hans, ekkert sem tekur því að vitna í, nema lítið skot í garð olíuframleiðsluríkja: “Framleiðendur ákveðinna nauðsynjavara mynda samtök til að geta hækkað verð og rakað til sín gífurlegum gróða.”

Benedikt hefði betur endurtekið ræðuna frá í fyrra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið