Leki varð að verzlunarvöru

Greinar

Ríkissaksóknari hefur viðurkennt, að leiðbeiningar um aðgang fjölmiðla að ákæruskjölum séu úreltar. Ákæruvaldið hefur ekki lagað sig að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Því hefur ákæran í Baugsmálinu vikum saman verið leyndarmál, sem hefur auðvitað gefið tilefni til margvíslegra sögusagna.

Einn vandinn, sem þetta veldur, er skipulagður leki til fjölmiðla. Ákæruskjöl geta þannig orðið verzlunarvara, þar sem sá fjölmiðill fær aðgang, sem gefur kost á ákveðinni meðferð málsins. Þannig fékk Fréttablaðið aðgang gegn því að leyfa lögfræðingum Baugs að hafa skoðun á meðferð blaðsins.

Hömlur á birtingartíma og skoðun á efni blaðsins úti í bæ stríðir tvímælalaust gegn siðareglum Fréttablaðsins. Í leiðara blaðsins var reynt að skýra, hvernig það geti gerzt. Því má segja, að meðferð blaðsins á málinu hafi í upphafi verið gegnsæ, þótt vikið hafi verið út af vegi dyggðarinnar.

Hinn fjölmiðillinn, sem fékk aðgang að ákæruskjölunum og varnargreinum lögmanna Baugs, var brezka blaðið Guardian, sem vafalaust hefur ekki gert neinn samning um tímasetningu eða innihald fréttarinnar. Guardian er eitt sómakærasta blað í heimi og gerir enga samninga, sem geta skaðað þá stöðu.

Guardian var eitt af fyrstu blöðum í heimi, sem setti sér siðareglur. Það hafði líka forustu um að koma á fót embætti umboðsmanns lesenda, sem á að gæta þess að siðareglunum sé fylgt í rauninni. Menn geta vefengt, að Guardian hafi rétt fyrir sér, en mjög erfitt er að saka blaðið um hlutdrægni.

Egill Helgason segir í pistli, að greinarnar í Guardian hljóti að teljast ansi jákvæðar fyrir Baug, þeir séu að ná að stjórna umræðunni ansi vel enn sem komið er, það sé næstum eins og þeir hafi skrifað fréttina sjálfir. Síðasti hluti málsgreinar Egils er áreiðanlega skrifaður í ógáti.

Menn geta vissulega haft áhrif á umræðuna með því að leka efnisþáttum skipulega til fjölmiðla. En hvorki Guardian né Ian Griffiths, viðskiptablaðamaður ársins í Bretlandi, láta neinn ritskoða sig eða tímasetja. Og Guardian velur sjálft að slá upp meintum stuldi á hamborgara og pylsu í fyrirsögn.

Vænisýki væri óþörf í þessu lekamáli í heild, ef gegnsæi væri hornsteinn í kerfinu. Þá hefði ákæran verið opinberuð um leið og hún var afhent og hún ekki orðið verzlunarvara.

DV