Laufskáli

Frá Flautafelli í Þistilfirði til Laufskála á Búrfellsheiði.

Ein stærsta gróna heiði landsins umhverfis Búrfell, sem stendur eitt sér á miðri heiði. Mýrlend heiði í 200-300 metra hæð, þakin vötnum með mólendi á milli.  Hún er beitiland Öxarfjarðar, Hólsfjalla og Þistilfjarðar.  Fyrrum voru allmörg býli á heiðinni. Á þessari leið förum við um norðvesturkant heiðarinnar. Hér er alls staðar mikill gróður og engar hestagötur, svo heitið geti, nema fyrst og síðast á leiðinni. Gæta þarf að ruglast ekki á Svalbarðsá og þverám hennar. Raunar er sjaldgæft að ferðast um svo náttúrulegt land, að þar eru ekki einu sinni hestagötur.

Byrjum í haga undir Flautafelli í Þistilfirði. Förum fjárgötur upp með Svalbarðsá, til suðvesturs milli árinnar og Flautafells, þar sem áin heitir líka Djúpá. Litla-Kvígindisfell er á hægri hönd handan árinnar, þar er Fjallalækjarsel, innsta býlið á heiðinni. Þegar Flautafelli sleppir förum við um eyðibýlið Urðarsel og síðan áfram suðvestur Grasdal meðfram Svalbarðsá/Djúpá að vestanverðu. Við förum undir Þverfelli austanverðu og beygjum stutta leið til vesturs í átt að Súlnafelli. Gætum þess að fylgja ekki árkvíslinni, sem kemur úr suðri. Þegar við nálgumst suðurenda fjallsins, förum við austur yfir Djúpá upp í Langaás og áfram upp með ánni til suðvesturs. Síðan yfirgefum við ána, sem kemur úr norðvestri, og höldum áfram suðvestur heiðina í fjallaskálann Laufskála í 320 metra hæð.

22,9 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Laufskáli: N66 02.155 W16 01.309.

Nálægir ferlar: Fjallgarður, Djúpárbotnar.
Nálægar leiðir: Súlnafell, Sléttuvegur, Ferðamannavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson