Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra eru óðum að glata hlutverki sínu á sviði mannréttinda. Við fjölgun þátttökuríkjanna hefur myndazt þar öflugur meirihluti ríkja, sem þverbrjóta daglega flestar greinar mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.
Í þessum meirihluta eru öflugar fylkingar eins og austantjaldsríkin, arabaríkin og afríkuríkin. Fylkingarnar gera með sér bandalög á ýmsa vegu um að beita Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra í deilum sínum við önnur ríki.
Þetta hefur leitt til þess, að Sameinuðu þjóðirnar hafa aðeins afskipti af mannréttindum í Ísrael og Suður-Afríku, helztu skotspónum tveggja af hinum fjölmennu fylkingum í samtökunum. Liggja þessi tvö ríki undir stöðugum ákærum fyrir brot á mannréttindum og sífelldum tilraunum til útskúfunar á alþjóðlegum vettvangi.
Hins vegar skipta Sameinuðu þjóðirnar sér ekkert af mannréttindum í Uganda, Írak, Sovétríkjunum né í rúmlega hundrað öðrum ríkjum í heiminum, sem brjóta mannréttindi freklegar en Ísrael og Suður-Afríka. Þessi tvískinnungur hefur dregið Sameinuðu þjóðirnar niður í skítinn.
Aðskilnaðarstefna kynþátta í Suður-Afríku er freklegt brot á mannréttindum. En þó er það kaldhæðnislegt, að þar í landi njóta svartir menn meiri mannréttinda en svartir menn njóta í sínum eigin ríkjum harðstjórnar og einræðis.
Og Ísrael er í hópi tiltölulega fárra ríkja, sem reyna að halda í heiðri mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóóanna. Ísrael ber ekki eitt ábyrgð á styrjöldum þeim, sem leitt hafa til hernáms arabískra landsvæða og það hernám er mildara en flest annað hernám síðustu áratuga.
Í rauninni eru það ekki nema um það bil 25 ríki í heiminum, sem reyna að ráði að rækta mannréttindi íbúanna, þar af 18 ríki í Vestur-Evrópu. Þessar eyjar í miðaldamyrkrinu eru Norður-Ameríka, Vestur-Evrópa, Eyjaálfa og þrjú stök lönd, Ísrael, Indland og Japan.
Víðast hvar utan þessara eyja fer kúgun og ofbeldi hraðvaxandi. Niðurrif nýlenduvelda í Afríku hefur stuðlað að þessu, þótt undarlegt megi virðast. En á síðustu árum hefur hrunið verið dapurlegast í Suður-Ameríku, sem áður var komin tiltölulega vel á veg í þróun mannréttinda.
Landvinningar mannréttinda hafa hins vegar verið fáir og smáir. Bezt hefur gengið í Evrópu, þar sem Grikkland, Portúgal og Spánn hafa endurreist lýðræði sitt, kosningarétt, skoðana- og tjáningarfrelsi, svo og frjálst upplýsingastreymi. Og í ár tryggði Indland sér sæti á þessum göfuga bekk.
Þeir, sem njóta mannréttinda að marki, mega ekki gefast upp, þótt á móti blási í flestum heimshlutum og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þeir mega ekki hætta að gera kröfur til hinna, sem þverbrjóta daglega mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, mannréttindakafla Helsinki-samningsins og aðrar týrur í myrkrinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið