Íslendingar tapa sjö milljörðum króna árlega á því einu að framleiða sjálfir smjör til eigin nota í stað þess að kaupa það fyrir slikk af Efnahagsbandalaginu, sem situr uppi með varanlegt smjörfjall eins og við.
Þau rúmu 1.500 tonn, sem við notum af smjöri árlega, kosta okkur níu milljarða króna. Í Efnahagsbandalaginu er framleiðslukostnaður þessa magns þrír milljarðar króna eða þriðjungur af okkar tilkostnaði.
Efnahagsbandalagið hefur árum saman greitt útflutningsbætur með smjörfjalli sínu og mun gera það um ókomna framtíð. Þar með getur bandalagið boðið upp á 1.500 tonn af smjöri á ári á einn milljarð króna.
Ef við ímyndum okkur, að við sætum ekki uppi með landbúnað, mundi það ef til vill kosta okkur tæpan milljarð á ári að flytja inn evrópskt smjör og hafa af því geymslu- og sölukostnað. Í þessari einu afurð væri sparnaðurinn sjö milljarðar.
Að baki mismunarins liggur misjöfn lega á hnettinum. Við sitjum í kuldanum við jaðar freðmýrabeltisins. Lönd Efnahagsbandalagsins eru hins vegar í tempraða beltinu, alveg eins og gresjur Bandaríkjanna.
Misjöfn aðstaða veldur því, að íslenzkur starfsmaður í landbúnaði brauðfæðir tæplega tíu manns, meðan starfsbróðir hans í Efnahagsbandalaginu brauðfæðir tuttugu manns og Bandaríkjamaðurinn heila sextíu manns.
Hinn tæknivæddi og vel staðsetti landbúnaður iðnvelda Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu framleiðir langtum meiri afurðir en unnt er að losna við. Umframmagnið er boðið fyrir slikk hverjum þeim, sem hafa vill.
Nútímalíf byggist á verkaskiptingu. Menn búa sjálfir til það, sem þeir gera vel, og láta aðra um hitt. Við seljum til útlanda samkeppnishæfan fisk og ýmsar iðnaðarvörur. Í staðinn flytjum við inn þriðjunginn af þörfum okkar.
Við látum okkur ekki detta í hug að framleiða eigin bíla eða flugvélar. Ekki heldur hveiti eða sítrónur. En við látum okkur detta í hug að eyða kröftum okkar í framleiðslu á ósamkeppnishæfu kjöti og mjólkurvörum.
Á sama tíma látum við afskiptalausan verulegan hluta af hinum raunverulegu verðmætum landsins, orkunni í fallvötnum og jarðvarma. Á þeim sviðum eru verkefni fyrir margfalt fleiri en þá, sem nú stunda landbúnað.
Menn einblína of mikið á okkar smjör-, osta- og kjötfjöll. Vandi okkar er ekki eingöngu sá, að við framleiðum dilkakjöt og mjólkurvörur langt umfram eigin þarfir. Vandinn er fremur sá, að við framleiðum þessar vörur yfirleitt!
Offramleiðslan kostar okkur eina Kröflu á ári í fjárfestingu og tvær Kröflur í uppbætur og niðurgreiðslur. Þar á ofan kostar landbúnaðurinn okkur eina Kröflu á ári í banni á innflutningi ódýrra afurða.
Miðað við samkeppni nútímans og legu landsins er út í hött að stunda hinn hefðbundna landbúnað á Íslandi. Svo framarlega sem unnt er að finna arðbær, samkeppnishæf verkefni fyrir alla þjóðina. Og til þess eigum við nægar auðlindir.
Lífskjör byggjast á lögmáli verkaskiptingar. Það lögmál segir, að menn eigi að fást við þau verkefni, sem þeir eru hæfastir til að leysa eða hafa bezta aðstöðu til að leysa, en eigi að láta aðra um hin verkefnin.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
