Látraheiði

Frá Keflavík um Látraheiði til Hvallátra í Látravík.

Grýtt og ógreiðfær leið.

Örnefnið Fuglagötur, sem liggja niður í Keflavík, stafar af, að þar var fuglinn fluttur niður af bjarginu. Í Brunnhæð er Gvendarbrunnur, vatnsuppspretta með grjóthleðslu, nefndur eftir Guðmundi biskupi góða. Utan í hæðinni eru líka óteljandi litlar vörður. Um Látravík segir í Árbók FÍ 1959: “Lending er þar [við Brunna] fyrir opnu norðurhafi. Aðstaða í landi er mjög örðug, því að þar er allt þakið fíngerðum skeljasandi. Margir steinbítsgarðar eru á brekkuhallanum … Verbúðir voru mjög lélegar, enda ekkert nothæft byggingaefni fyrir hendi. Varð því að notast við brimbarða hnullunga, lélegan hnaus og sandinn.” Skreiðin var mest flutt brott á bátum, en einnig voru heiðarnar farnar, Sandsheiði, Kerlingarháls og Látraheiði.

Förum frá Keflavík í sneiðingum um Fuglagötur suðvestur á Keflavíkurbjarg og síðan vestnorðvestur á Látraheiði, sunnan við Brunnahæð og norðan við Urðarhjalla í 380 metra hæð. Förum norðvestur ofan í Látradal við Klofavörðu, sem er á brún Látradals við Urðarhjalla, og loks niður að Hvallátrum.

11,0 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hyrnur, Dalverpisvegur, Brúðgumaskarð, Stæðavegur, Bjargtangar, Látraháls, Miklidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort