Gott er, að Iceland Express fari úr sæng Flugleiða. Það kann ekki góðri lukku að stýra, að lággjaldaflugfélag sé í slagtogi með hefðbundnu flugfélagi, sem rekur flug á sömu leiðum. Um þetta gilda markaðslögmálin. Slagtogið eykur fáokun og þrýstir lágum fargjöldum upp. Þannig reyndi BA að reka Go og seldi það síðan til Easyjet, þar sem það átti heima. Nú er Iceland Express til sölu og fær vonandi góðan kaupanda, því ekki er gott að treysta á, að erlend flugfélög af slíku tagi hafi þolinmæði til að halda úti Íslandsflugi til Kaupmannahafnar og London tvisvar á hverjum degi.
