Læknishjálp á vettvangi.

Greinar

Nokkrir menn deyja árlega á Reykjavíkursvæðinu, eingöngu vegna þess að sjúkraflutningum í neyðartilvikum er ekki hagað eins og vera skyldi. Þetta kom skýrt fram á ráðstefnu, sem Borgarspítalinn hélt fyrir skömmu um neyðarþjónustu.

Þórður Harðarson yfirlæknir á Borgarspítalanum, nefndi um þetta dæmi á ráðstefnunni. Árin 1976 og 1977 voru fluttir 100 sjúklingar með stöðvað hjarta til Borgarspítalans.

Af þeim voru aðeins sjö endurlífgaðir með þeim árangri, að þeir yrðu síðan útskrifaðir af spítalanum. Eðlilegt væri, að 13-25 næðu slíkum afturbata, ef sjúkraflutningar væru með svipuðum hætti og í nágrannalöndunum.

Læknar og aðrir sérfræðingar í heilsugæzlu eru sammála um, að við bráðan vanda þurfi að flytja fyrstu læknishjálp með sjúkrabíl út á slysstað, en ekki bíða komu bílsins til sjúkrahúss.

Meirihluti sjúkraflutninga er ekki á þessu vandasama sviði. Mest eru það flutningar sjúklinga milli stofnana. Slíka starfsemi má til hagræðingar reka hér eftir sem hingað til frá slökkvistöð. Að öðru leyti þarf að flytja starfsemina.

Neyðarsími sjúkraþjónustu á að svara á sjúkrahúsi, þar sem þjálfaður hjúkrunarfræðingur getur í skyndingu ákveðið, hvort um bráðan vanda sé að ræða eða hvort nóg sé að senda bíl af slökkvistöð.

Við þennan spítala þarf að vera neyðarbíll með sérþjálfuðu sjúkraliði á vakt. Sjúkraliðsmennirnir þurfa sérstaka þjálfun, sem tekur 200-300 klukkustundir.

Þessir menn þurfa meðal annars að kunna ráð til að sjá um, að öndun haldist óhindruð. Ennfremur, að hjartað haldi áfram að slá, til dæmis með notkun hjartalyfja eða hjartaraflosttækja. Einnig þurfa þeir að kunna að lina sársauka, til dæmis með því að gefa lofttegundir til innöndunar.

Þriðjungur bráðra sjúkraflutninga er vegna kransæðastíflu. Um 500 manns fá slíka stíflu á ári og þar af stöðvast hjartað hjá um 50 manns. Annar þriðjungur stafar af slysum og síðasti þriðjungurinn af margvíslegum öðrum ástæðum.

Í mörgum tilvikum nægir ekki, að þjálfaðir sjúkraliðsmenn fari einir á vettvang. Hjúkrunarfræðingurinn, sem svarar neyðarkallinu, þarf að ákveða í skyndingu, hvort kveðja þurfi hjúkrunarlið og lækna með neyðarbílnum.

Með þessum hætti væri unnt að hefja læknishjálp örfáum mínútum eftir að hjarta sjúklingsins hefur stöðvazt og með tilsvarandi hraða í öðrum tilvikum. Oftast eru það fyrstu mínúturnar, sem skipta mestu máli.

Borgarspítalinn hefur boðizt til að taka þessa þjónustu að sér. Hann hefur boðizt til að sjá ókeypis um kennslu sjúkraliðsmanna og að senda lækna og hjúkrunarlið með neyðarbílnum á vettvang án aukakostnaðar.

Kostnaðurinn við þessa tilhögun mundi þá aðallega felast í vinnustundum sjúkraliðsmanna á námskeiðum og í hærri launum þeirra vegna aukinnar kunnáttu. En sú viðbót er samanlögð mjög lítil í samanburði við annan heilsugæzlukostnað.

Slökkvistöðin mundi missa við þetta tvo menn af hverri vakt, þá sem færðust yfir til Borgarspítalans. Við það yrði hún ekki eins vel mönnuð til brunavarna og áður. Á því byggist andstaða Rúnars Bjarnasonar slökkviliðsstjóra við málið.

Á þessum tímum góðra eldvarna verður ekki séð, að vandamál fækkunar á slökkvistöðinni vegi upp á móti kostum flutnings neyðarþjónustunnar. Enda eru allir, sem um málið hafa fjallað, utan Rúnar, sammála um hinar nýju tillögur.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið