Kreppan læðist inn

Greinar

Fólk áttar sig almennt ekki enn á, að alvarleg kreppa er í uppsiglingu um heim allan. Það er líka von, að menn séu seinir að skilja, því að það er fyrst um þessar mundir, að efnahagssérfræðingar eru að gera sér grein fyrir alvöru afturfararinnar.

Umskiptin milli áranna 1973 og 1974 voru snögg. Hagvöxtur iðnaðarríkjanna hrapaði úr 6% niður í ekki neitt. Og ekkert bendir til, að ástandið batni á þessu ári. Fremur eru líkur á, að kreppan muni enn harðna. Tímaritið Economist, sem oft hefur reynzt raunsætt í spádómum, telur, að bata sé ekki að vænta fyrr en árið 1977.

Menn eru orðnir vanir heilum mannsaldri blómaskeiðs. Ekki er víst, að menn þoli fjögurra ára stöðnun eftir allan þennan uppgang. Töluverð hætta er því á, að kaupgjaldsspenna og ófriður á vinnumarkaði muni magna kreppuna um allan helming. Hafa menn miklar áhyggjur af því, að slík þróun geti leitt til þjóðargjaldþrots í Bretlandi, Ítalíu og Danmörku.

Menn hafa líka áhyggjur af, að kreppan kunni að leiða til tollmúra og innilokunarstefnu hjá þeim þjóðum, sem harðast verða úti. Á næstu mánuðum mun því reyna.mjög á samstarfsvilja og samhjálp Vesturlanda í baráttunni gegn kreppunni.

Greiðsluhalli olíuinnflutningsríkjanna gagnvart olíuframleiðsluríkjunum nam 7000 milljörðum króna á síðasta ári. Búizt er við, að hallinn verði svipaður á þessu ári, en komi hlutfallslega þyngra niður á þróunarlöndunum en iðnaðarlöndunum. Þessi ofboðslegi greiðsluhalli hefur sett fjármálakerfi heimsins á annan endann.

Ljóst er, að þjóðir heimsins fara mjög misjafnlega út úr kreppunni. Tímaritið Economist telur upp átta atriði, sem geta stuðlað að vægri útkomu. Fjögur atriðanna varða félagsmál: Að verkalýðsleiðtogar séu sanngjarnir, pólitísk samstaða sé um tekjuskiptinguna og efnahagskerfið og að ríkisstjórnin geti haft hemil á sérhagsmunahópum.

Hin fjögur atriðin varða fremur hrein efnahagsmál: Að orka sé næg heima fyrir, utanríkisviðskipti séu tiltölulega lítil, mannafli í þjónustu sé tiltölulega mikill í samanburði við iðnað og að vinnuafl þjóðarinnar aukist tiltölulega hægt.

Vandamál Íslendinga er fyrst og fremst hin mikla utanríkisverzlun. Við kaupum fyrir fisk flestar lífsnauðsynjar okkar, þar á meðal olíu. Þetta gerir okkur mjög háða erlendum efnahagssveiflum, kreppum sem öðru.

Verðið á fiskinum okkar mun fylgja almennu matvælaverði, sem fer lækkandi, uml eið og verð iðnaðarvara hækkar. Viðskiptakjör okkar gagnvart útlöndum eiga því vafalaust eftir að versna, áður en þau byrja að batna aftur. Þar við bætist viðleitni viðskiptaþjóða okkar við að draga úr innflutningi og spara sér gjaldeyrinn.

Hingað til hafa Íslendingar lítt orðið kreppunnar varir. Enn er samdrátturinn tiltölulega lítill og atvinna næg. Þess vegna höfum við síður en aðrir áttað okkur á, hve alvarlegt ástandið í umheiminum er að verða. En nú er kominn tími til að gera sér grein fyrir kreppunni, áður en við fáum hana í hausinn.

Jónas Kristjánsson

Vísir