Krabbameins-karlinn

Greinar

Þegar borgarstjórnin í New York bannaði reykingar í öllum veitingahúsum, varð uppi fótur og fit. Reykingamenn sögðu, að mörg veitingahús yrðu gjaldþrota og að öðrum yrði breytt í lokaða klúbba, þar sem fólk gæti verið í friði fyrir forsjárhyggju borgarstjórnar.

Illspárnar rættust ekki. Reykingabannið er í gildi, veitingahúsum hefur ekki fækkað og sárafáum hefur verið breytt í klúbba. Menn hafa einfaldlega sætt sig við að fá ekki að reykja á veitingahúsum frekar en á skrifstofum stofnana og fyrirtækja í borginni.

Svo vel gengur fráhaldið í New York, að tveir eða þrír standa reykjandi fyrir utan hvert háhýsi, þar sem þúsundir manna eru í vinnu. Þetta þýðir, að fjöldi reykingamanna hefur annaðhvort hætt eða sættir sig við, að margfalt lengri tími en áður líði milli sígarettna.

Dæmið frá New York sýnir, að takmörkun á aðstæðum leiðir til minni neyzlu, rétt eins og takmörkun á framboði, svo sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin heldur fram. Með því að þrengja innkaups- og neyzlutækifæri er unnt að draga töluvert úr neyzlu löglegra fíkniefna.

Hart er sótt að tóbaksframleiðendum í Bandaríkjunum. Fimmti stærsti framleiðandinn, Liggett, samdi fyrir ári um að greiða tóbaksfíklum skaðabætur. Þessa dagana standa tveir stærstu tóbaksframleiðendurnir, Philip Morris og Nabisco, í svipuðum samningum.

Wall Street Journal upplýsti fyrr í þessum mánuði, að rætt væri um, að fyrirtækin tvö legðu sem svarar 20 þúsund milljörðum króna á 25 árum í sjóð til greiðslu skaðabóta vegna heilsutjóns tóbakssjúklinga og takmörkuðu auglýsingar í samræmi við óskir yfirvalda.

Tóbaksframleiðendur eru í þröngri stöðu, af því að komið hafa fram gögn, sem sýna, að þeir vissu um vanabindandi áhrif tóbaks og nýttu sér þau. Ennfremur, að þeir fjármögnuðu rannsóknir til að sýna fram á, að fullyrðingar um skaðsemi tóbaks væru beinlínis rangar.

Um tóbak gildir svipað og áfengi, að með reglulegu millibili eru birtar niðurstöður rannsókna, sem sýna fram á skaðleysi þessara fíkniefna og jafnvel hollustu. Við nánari athugun kemur svo í ljós, að þessar marklausu rannsóknir eru kostaðar af hinum hvítþvegnu.

Það sem helzt stendur í vegi fyrir, að tóbaksframleiðendur fái makleg málagjöld fyrir langvinna eiturlyfjasölu, er kenningin um, að tóbaksfíklarnir geti sjálfum sér um kennt. Þeir eigi að hafa átt að vita um skaðsemi tóbaks, jafnvel þótt framleiðendur hafi neitað henni.

Sú kenning hefur verið á kreiki í Bandaríkjunum og hefur raunar einnig borizt til Íslands, að fíklar eigi sjálfir að greiða fyrir kostnað heilbrigðiskerfisins af fíkn sinni, þar sem hún sé sjálfskaparvíti. Aðrir halda fram, að misjafnt næmi fyrir fíkn búi í litningum fólks.

Eðlilegasta leiðin úr fjárhagsvanda samfélagsins er sú, sem beitt er hér á landi, að láta fíkla sitja við sama borð og aðra sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, en skattleggja fíkniefni til að afla samfélaginu tekna á móti. Skattar á lögleg fíkniefni eru þó enn of lágir hér á landi.

Í Hagfræðistofnun Háskólans hefur verið reiknað, að tekjur samfélagsins af áfengissölu vegi skammt upp í kostnað þess af áfengisneyzlu. Sennilegt er, að svipað kæmi í ljós um tóbakið. Og þriðja löglega fíkniefnið, sykurinn, sleppur alveg við skattlagningu samfélagsins.

Vestra er harkan meiri en hér. Leigubílar í New York bera auglýsingar, þar sem “Marlborough-maðurinn” er stældur með hauskúpu af “Krabbameins-karlinum”.

Jónas Kristjánsson

DV