Kóngsás 1

Frá skálanum í Gljúfurleit að skálanum í Bjarnalækjarbotnum.

Þetta er vörðuð leið frá fornu fari og Vörðuvinafélagið hefur endurreist vörðurnar.

Þetta er fögur reiðleið upp með Þjórsá vestanverðri, hluti hins forna Sprengisandsvegar. Leiðin er vörðuð og hafa vörðurnar verið endurnýjaðar. Hún liggur fjarri jeppaslóðinni. Á tveimur stöðum liggja þverslóðir niður að fossum í Þjórsá, Gljúfurleitarfossi og Dynk. Gljúfurleitarfoss er framan við Geldingatanga, þar sem Þjórsá fellur í einu lagi af 28 metra háum stalli. Því er Gljúfurleitarfoss einn af stærstu fossum landsins. Dynkur er suðaustanundir Kóngsás, 38 metra hár og er í raun margir fossar. Hann telja sumir einn fegursta foss landsins, ef hann er skoðaður hérna megin Þjórsár. Hann fellur fram af mörgum stöllum. Frá Bjarnalækjarbotnum er hægt að fara niður að þriðja fossinum í Þjórsá, Kjálkaversfossi.

Förum frá skálanum í Gljúfurleit norðvestur frá skálanum upp á reiðslóð undir Lönguhlíð, sem er hluti hins forna Sprengisandsvegar. Einnig má fara nær Þjórsá. Við fylgjum Sprengisandsvegi til norðurs alla leið í Bjarnalækjarbotna á Gnúpverjaafrétt. Eftir rúma fimm kílómetra komum við að jeppaslóð niður að Gljúfurleitarfossi í Þjórsá, 1-2 kílómetra leið. Áfram förum við norðaustur Innri-Hnappöldu. Öðrum fimm kílómetrum ofar er farið niður að fossinum Dynk í Þjórsá. Það er um þriggja kílómetra leið. Einnig er hægt að fara alla þessa leið miklu nær Þjórsá og eiga þá styttri afleggjara að fossunum. Næst förum við upp á Kóngsás og komum að Fellakvísl / Dalsá. Þar fyrir norðan er Styttri-Norðurleit og þaðan má fara niður að Hvanngiljafossi í Þjórsá. Af Digruöldu er farið út af Sprengisandsleið og haldið um einn kílómetra til norðvesturs, unz komið er að skálanum í Bjarnalækjarbotnum, í 550 metra hæð.

19,4 km
Árnessýsla

Skálar:
Gljúfurleit: N64 17.751 W19 20.901.
Bjarnalækjarbotnar: N64 24.833 W19 09.826.

Nálægir ferlar: Fjórðungssandur.
Nálægar leiðir: Skúmstungur, Rjúpnafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Vörðuvinafélagið