Kollumúlaheiði

Frá fjallaskálanum Leirási í Geithelladal norður fyrir Hofsjökul að fjallaskálanum Egilsseli á Kollumúlaheiði og að eyðibýlinu Grund í Víðidal.

Meðan Grund var í byggð var þetta leiðin til byggða, því að Jökulsá í Lóni var torfær áður en brúin kom við Múlaskála. Í Árbók FÍ 2002 segir m.a.: “Göngugjót liggur upp úr klettum á Fossbrýr, þar sem komið er í Ytribót og brátt komum við að Ytri- og Innribótará, sem skammt er á milli. Háás er klettahryggur, sem liggur niður hlíðar þvert á dalinn beggja vegna og er gönguleið til Víðidals og Kollumúla upp eftir honum að sunnan, yfir vatnaskil í um 740 m hæð og um lægð, sem kallast Dokk milli Hofsjökls annars vegar og Norðurhnútu og Víðidalshnútu hins vegar. Er það auðrötuð leið …”

Förum frá Leirási vestur á brekkurnar og yfir vatnaskil um Dokk í 740 metra hæð og síðan að Hnútuvatni norðan Hofsjökuls. Förum sunnan vatnsins og yfir Innri-Þverá við útfallið. Síðan förum við með ánni suðvestur Víðidal og um Kollumúlaheiði að fjallaskálanum Egilsseli við Kollumúlavatn. Þaðan förum við suðaustur brekkurnar að eyðibýlinu Grund.

12,5 km
Austfirðir

Skálar:
Leirás: N64 39.153 W14 57.842.
Egilssel: N64 36.662 W15 08.718.

Nálægar leiðir: Geithelladalur, Hofsárdalur, Sauðárvatn, Illikambur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins