Köllum þá heim.

Greinar

Íslenzku ríkisstjórninni ber nú að kalla heim sendiherra sinn í London og einnig sendiherra sinn hjá Atlantshafsbandalaginu í Bruxelles. Þetta átti hún raunar að gera strax í gær, þegar utanrikisráðherra hennar flutti ræðu á ráðherrafundi bandalagsins í höfuðstöðvum þess.

Átökin milli varðskipsins Þórs og brezku dráttarskipanna í hádeginu í gær gerðust ekki aðeins innan fiskveiðilögsögu okkar, gamallar og nýrrar, heldur beinlínis ínnan landhelginnar sjálfrar, tæpar tvær mílur frá landi. Á þeim stað gilda engin deilumál um fisk, heldur eingöngu íslenzk lög, sem á landi væri.

Brezku dráttarskipunum bar skilyrðislaust að hlýða stöðvunarmerkjum varðskipsins. Þau virtu ekki merkin og sigldu þar á ofan á varðskipið hvað eftir annað. Skipherra þess hlaut því að beita skotvopnum til að stöðva aðgerðir Bretanna. Sem betur fer voru þessir atburðir myndaðir úr lofti, svo að erfitt verður að rangtúlka atburðarásina.

Svo virðist sem sambandsleysi i seinvirkri utanríkisþjónustu okkar hafi valdið því, að Einar Ágústsson utanríkisráðherra vissi ekki um þennan atburð, þegar hann flutti síðdegis í gær ræðu sína hjá Atlantshafsbandalaginu. Þar með glataðist dýrmætt tækifæri til að segja ráðherrum bandalagsríkjanna nýjustu fréttir af yfirgangi Breta.

Ennfremur glataðist dýrmætt andartak til að ljúka ræðunni með yfirlýsingu um, að í ljósi þessa yfirgangs eins aðildarríkisins tæki Ísland að sinni ekki frekari þátt i störfum bandalagsins. Síðan átti utanríkisráðherra að ganga af fundi og koma heim í fylgd sendiherra Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu.

Hið dæmalausa framferði Breta innan tveggja mílna frá landi kemur Atlantshafsbandalaginu svo sannarlega vi ð. Það er óhjákvæmilegt fyrir okkur að vekja athygli á þeirri staðreynd með nógu áhrifamiklum hætti, svo að ráðherrar bandalagsríkjanna átti sig á henni. Það, sem okkar mönnum láðist að gera í gær, eiga þeir að gera í dag.

Utanríkisþjónustan stóð sig betur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Strax í gær lagði fastafulltrúi Íslands hjá samtökunum fram kæru til öryggisráðsins. Slík kæra hefur sín áhrif, bæði á diplmómatískum vettvangi og gagnvart almenningsálitinu í heiminum.

Margir Íslendingar halda því fram, að ríkisstjórninni beri nú að slíta stjórnmálasambandi við Breta. Voru slík sjónarmið raunar þegar komin á loft, áður en ofbeldinu var beitt við Seyðisfjörð í gær. Slík mótmælayfirlýsing kæmi vafalaust til greina, ef hún væri ein sér.

En líklega væri skynsamlegra að fara nokkuð vægar í sakirnar og kalla heim sendiherra okkar í London. Sú mótmælaaðgerð mundi nægja, ef hún félli saman við hliðstæða aðgerð gagnvart Atlantshafsbandalaginu.

Sendiherrarnir tveir og ráðherrann ættu sem sagt að koma heim. Og framar öllu má ríkisstjórnin nú ekki tvístíga og ekki láta sér nægja þungbúnar yfirlýsingar. Málið kallar á harðari aðgerðir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið