Kollafjarðarheiði

Frá Fjarðarhorni í Kollafirði til Laugabóls í Ísafirði.

Gamla þjóðleiðin með þéttum vörðum liggur víða rétt við bílveginn. Stikaða leiðin á kortinu er jeppaslóðin.

Á nítjándu öld fluttu Breiðfirðingar vertíðarskip sín á trjábolum yfir heiðina, 25 kílómetra. Væntanlega hafa þeir dregið þau á hestum. Í Sturlungu segir, að menn Hrafns Oddssonar á Eyri hafi flutt stórskip yfir heiðina.

Byrjum við þjóðveg 60 um Barðastrandarsýslu hjá Fjarðarhorni í Kollafirði. Förum norður Fjarðarhornsdal undir Múlafjalli að austan og Seljalandsmúla að vestan og síðan norður meðfram Fjarðarhornsá upp Fjalldal. Svo vestan Borgavatna norður á Kollafjarðarheiði, þar sem við náum 500 metra hæð. Síðan í bröttum sneiðingum niður Kamb milli Geitadals að vestan og Húsadals að austan, og loks norður allan kjarri vaxinn Laugabólsdal að Laugabóli.

23,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Bæjarnes, Kálfadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort