Knappur stíll og froðustíll

Punktar

“Homo homini lupus”, sögðu Rómverjar, “maður er manni úlfur”. Latína er knappasta tungumál álfunnar. Leikur sér með föll og hefur orðaröð frjálsa. Íslenzka er líka knappt tungumál, “segir fátt af einum”, þótt hún jafnist ekki á við latínu. Enska er næstum eins knöpp og íslenzka, svo sem sjá má af samhliða þýðingum. Þýzka er hins vegar mun langdregnari, sem skapar vandamál við samhliða þýðingar. Íslenzka nýtur þess að vera tungumál sagnorðanna. Nú á tímum hefur íslenzka lengst og þynnst. Menn dæla froðu í hana. Ofnotkun þungra nafnorða er helzta sérkenni froðustíls háskólamenntaðra sérfræðinga.