Klettsgata

Frá Görðum í Staðarsveit um Búðahraun til Arnarstapa. Leiðina um Búðahraun má aðeins fara í samráði við þjóðgarðsvörð Snæfellsjökuls, snaefellsjokull@ust.is. Engin önnur reiðleið er um nesið á þessum slóðum, því að bílvegurinn er mikið upphækkaður og mjög hættulegur hestum.

Fjölbreyttasta reiðleið landsins. Gullinn fjörusandur milli Garða og Búða. Síðan fornt einstigi um úfið og gróðursælt Búðahraun. Þá rif milli Miðhúsa og Grafar. Og loks gömul reiðgata á brún Sölvahamars til Arnarstapa. Dulúðugur Snæfellsjökull er tilkomumikill á þessari leið, sé hún farin til vesturs. Í Búðahrauni eru 11 af 16 þekktum burknategundum á Íslandi. Alls eru 130 plöntutegundir í hrauninu. Nálægt miðjum Sölvahamri eru verndaðar húsarústir í umsjá Þjóðminjasafnsins.

Förum frá Görðum nokkur hundruð metra meðfram þjóðvegi og gegnum hlið suður í gullna sandfjöru. Síðan vestur eftir gullinfjörunni alla leið að Búðaósi. Förum hundrað metra upp með Búðaósi og svo yfir ósinn ofan við klett, sem er handan við ósinn. Síðan förum við götur um Búðir og inn í Búðahraun. Leiðin að Klettsgötu yfir hraunið er merkt. Við fylgjum hinu forna einstigi vestur hraunið að norðurhlið gígsins Búðakletts, framhjá mynni 382 metra langs Klettshellis. Síðan áfram um hlið í átt að Miðhúsum í Breiðuvík. Þar förum við sunnan túngirðingar niður í fjöru, nokkra tugi metra suður fjöruna og út á Hraunlandarif sunnan Miðhúsavatns. Við förum eftir rifinu, unz við erum komin suður af Gröf. Tökum þar land með gætni vegna sandbleytu. Ríðum vestan við girðingar norður í átt að Hamraendum og upp að slóð upp Hamraendahamar og síðan yfir Sleggjubeinu, hjá eyðibýlinu Grímsstöðum, í átt að Sölvahamri. Við förum fyrir ofan Sölvahamar greinilega slóð nálægt brúninni, Að lokum förum við bratt einstigi niður Stapaklif að byggðinni á Arnarstapa.

29,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Löngusker, Beruvík.
Nálægar leiðir: Bláfeldarskarð, Fróðárheiði, Kambsskarð, Jökulháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson