Kleinubann kerfisins

Greinar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi farið offari árið 1992, þegar það stöðvaði kleinubakstur í bílskúr einbýlishúss. Var eftirlitið dæmt til að greiða baksturskonunni tæplega tvær milljónir króna, að vöxtum á tímabilinu meðtöldum.

Skaðabætur og miskabætur konunnar nægja þó ekki til að bæta henni upp fjárhagstjón, sem hlauzt af aðgerðum eftirlitsins. Mál hennar lenti í hefðbundnum seinagangi kerfisins og verzlanir þorðu ekki að taka vöru hennar, þegar hún gat loksins byrjað bakstur að nýju.

Konan lenti í fjárhagsvandræðum og missti húsið á þessu tímabili. Ekki er því hægt að segja, að litli maðurinn hafi unnið sigur á kerfinu í máli þessu, þótt niðurstaða dómsins feli í sér nokkrar sárabætur fyrir dólgslega framgöngu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Kerfið á Íslandi starfar samkvæmt þeirri sannfæringu, að matur verði að koma úr flóknum verksmiðjum til þess að vera söluhæfur. Að mati eftirlitsins er heimabakstur svo hættuleg iðja, að ætla mætti, að það hefði upplýsingar um fjöldaandlát í heimahúsum um hver jól.

Dæmi eftirlitsins sýnir, hvernig fer, þegar fullkomnum bjálfum er falið fullkomið vald. Og verra er, að hrokinn er svo fullkominn á þeim sama bæ, að dómsniðurstaðan í kleinumálinu hefur engin áhrif á gang mála. Eftirlitið segir bara, að dómarinn hafi rangt fyrir sér.

Heilbrigðisreglur eru öfgafullar hér á landi og sömuleiðis eftirlit með framgangi þeirra. Til dæmis er ekki hægt að fá í verzlunum alvörumjólk, sem súrnar með aldrinum, heldur verður fólk að kaupa hitaða og gerilsneydda verksmiðjumjólk, sem fúlnar með aldrinum.

Ekki er heldur unnt að kaupa hér osta, nema þeir séu gerilsneyddir. Slíkir ostar eru aðeins léleg eftirlíking alvöruosta, alveg eins og gerilsneydd mjólk er léleg eftirlíking alvörumjólkur. Eðlilegt væri, að fólk mætti hafna gerilsneyddu verksmiðjuvörunni, ef það kærði sig um.

Til skamms tíma var bannað að selja hér á landi ófrysta kjúklinga, sem eru mun betri matur en freðfuglinn. Auðvitað kallar sala ferskrar vöru á meiri tilfinningu fyrir hreinlæti, en erfitt er að sjá, að Íslendingar geti ekki verið eins hreinlátir og til dæmis Frakkar.

Sem dæmi um markleysi heilbrigðisreglna hér á landi er, að reglur um frágang veitingahúsa eru hertar að miklum mun, ef þar á að selja vín. Svo virðist, sem kerfið telji tappatogun og glasahellingar vera mun alvarlegra heilbrigðisvandamál en meðhöndlun matvælanna.

Einu sinni amaðist heilbrigðiskerfið við fögrum antikhúsgögnum, sem voru í setustofu sveitahótels, og krafðizt þess, að í stað þeirra kæmu samstæð verksmiðjuhúsgögn. Bréf eftirlitsins komst í fjölmiðla, en kerfið skildi samt aldrei, hvers vegna það varð að athlægi.

Það er raunar mjög líkt kerfinu að fara hamförum, þegar kona bakar heima hjá sér kleinur, sem verða svo vinsælar, að þær komast út fyrir hóp ættingja og vina og komast í almenna sölu. Verksmiðju- og gervivöruáráttan lýsir sér vel í baráttu þess gegn heimabakstri.

Heilbrigðiseftirlitið lætur hins vegar sér vel líka, að matvöruverzlanir eru fullar af óætu rusli, svo sem niðursneiddu, vatnskenndu og bragðlausu hlaupi, sem framleitt er í verksmiðjum í áleggssneiðum og selt undir villandi nöfnum á borð við skinku og hangikjöt.

Hérlendar reglur um heilbrigðiseftirlit og framkvæmd þeirra eru sumpart óviðkomandi heilbrigðu og náttúrulegu mataræði og sumpart í beinni andstöðu við það.

Jónas Kristjánsson

DV