Um og eftir áramótín hefur fylgið verið að hrynja af Alþýðuflokknum yfir á Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn hefur haldið áfram að tapa jafnt og þétt til Sjálfstæðisflokksins, en Alþýðubandalagið hefur haldið sínu.
Þetta eru í stórum dráttum niðurstöður skoðanakönnunar Dagblaðsins, sem birtist í gær og í dag. Það er í annað skipti á kjörtímabilinu, að Dagblaðið birtir slíka könnun.
Eins og hin fyrri er hún gerð á sama hátt og kannanir Dagblaðsins, sem reyndust svo vel fyrir kosningarnar í sumar. Hún á að sýna hræringarnar nokkuð vel, þótt nokkur skekkja geti verið í einstökum prósentutölum.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 33%. fylgi í kosnin.num í sumar og 20 þingmenn. Í desember var fylgi hans komið upp í 42%, sem hefði þýtt 25 þingmenn. Og nú er fylgið komið upp í 49%, sem mundi þýða 30 þingmenn af 60.
Samkvæmt þessu mundi Sjálfstæðisflokkinn aðeins vanta tvo þingmenn til að hafa starfhæfan meirihluta í báðum deildum alþingis, ef kosningar færu fram nú. Slíkri velgengni hefur flokkurinn ekki mætt síðan löngu fyrir stríð.
Það skyggir örlítið á þessar glæsilegu tölur, að sumir þátttakendur skoðanakönnunarinnar sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn með hangandi hendi: “Ég mundi kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en ég veit, að það er heldur engin lausn.”
Nefna má fleiri slík dæmi: “Að minnsta kosti (kýs ég) ekki stjórnarflokkana, en spurning, hvort hinir séu eitthvað skárri.” Og: “Ætli það verði ekki íhaldið. Ég kaus vinstri flokka síðast.”
Alþýðuflokkurinn fékk 22% fylgi í kosningunum í sumar og 14 þingmenn. Í desember hélt hann enn sínu, samkvæmt könnun Dagblaðsins. Þá var fylgi hans 21%, sem hefði þýtt 13 þingmenn. Þá báru hinir nýju kjósendur flokksins enn traust til hans.
Síðan kom hrunið um og eftir áramótin. Nýjasta könnunin sýnir 15%o fylgi Alþýðuflokksins, sem mundi aðeins þýða 9 þingmenn. Er þá flokkurinn kominn niður í svipað fylgi og hann hafði fyrr á árum.
“Alþýðuflokkurinn hefur með öllu brugðizt þeim vonum, sem ég batt við hann í vor,” er dæmigerð athugasemd úr síðustu könnuninni. Slíkar marz-skoðanir voru enn ekki komnar í ljós í desember.
Alþýðuflokkurinn er samt ekki orðinn minnsti flokkurinn í viðhorfum kjósenda. Framsóknarflokkurinn er áfram minnsti flokkurinn, enda heldur hann jafnt og þétt áfram að tapa fylgi í hverri skoðanakönnun á fætur annarri.
Framsóknarflokkurinn fékk 17% fylgi í kosningunum í sumar og 12 þingmenn. Í desember var fylgi hans komið niður i 16%, sem hefði þýtt aðeins 9 þingmenn vegna jafnari atkvæðafjölda að baki hvers þingmanns flokkanna. Í marz er fylgið svo komið niður í 14%, sem mundi þýða 8 þingmenn.
Alþýðubandalagið fékk 23% fylgi í kosningunum í sumar og 14 þingmenn. Í desember hafði fylgi þess lækkað í 21%, sem hefði þýtt 13 þingmenn. Í marz er fylgi þess aftur komið upp í 22%, sem mundi þýða 13 þingmenn.
Þannig virðist Alþýðubandalaginu enn haldast vel á kosningasigri sumarsins, meðan Alþýðuflokkurinn hefur skyndilega misst tökin. Framsóknarflokkurinn virðist vera í óstöðvanlegum vítahring. Og stjórnarandstaðan situr með pálmann í höndunum.
Enda sagði einn hinna spurðu: “Sirkusinn við Austurvöu er nú endanlega undirlagður af trúðum.”
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið