Kirkjubólsheiði

Frá Langabotni í Geirþjófsfirði um Kirkjubólsheiði að Kirkjubóli í Mosdal við Arnarfjörð.

Þjóðsaga segir, að maður nokkur lofaði að koma við hjá Jóhannesi galdramanni á Kirkjubóli, áður en hann færi yfir Kirkjubólsheiði, en efndi ekki. Þegar hann kom upp á háheiðina, kom á móti honum stór grár og ljótur fugl með gargi og látum, flæktist fyrir fótum hans og tafði ferð hans. Ávarpaði maðurinn fuglinn með ófögrum orðum og sagði honum að fara beint til þess, sem hefði sent hann, því við sig ætti hann ekki erindi. Við þetta hvarf fuglinn. Næst þegar þeir Jóhannes hittust, spurði hann manninn, hvort hann hafi orðið nokkurs var á heiðinni, en maðurinn lét lítið yfir því. Það var hald manna, að sendingin hafi orðið Jóhannesi næsta erfið, þegar hún kom til baka og sagt er að Jóhannes hafi aldrei framar gletzt við manninn.

Förum frá Langabotni austnorðaustur upp í Leiðargil hátt í fjallinu. Þverbeygjum þar vestur á brún Kirkjubólsheiðar. Af brúninni förum við norður um Kirkjubólsheiði í 500 metra hæð. Að lokum vestnorðvestur og niður dalinn að Kirkjubóli eða að Ósi í Mosdal.

10,9 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Geirþjófsfjörður, Tóbakslaut, Dynjandisheiði, Afréttardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort