Kerlingardyngja

Frá tjaldstæði við Hagalæk sunnan við Sellandafjall að Bræðraklifi norðan Herðubreiðarfjalla.

Þetta er miðhluti hinnar fornu Biskupaleiðar yfir Ódáðahraun, framhald leiðarinnar frá Kiðagilsdrögum um Suðurárhraun. Síðan tekur við síðasti hluti leiðarinnar, Veggjafellsleið. Suðurárhraunsleið, Kerlingardyngjuleið og Veggjafellsleið mynda saman Biskupaleið, sem er framhald Sprengisandsleiðar frá Skjálfandafljóti að Jökulsá á Fjöllum.

Landið er hér kalt og nakið og mikilúðlegt. Farið er um sanda og sandorpin hraun og ekki er hér vatn og fáar gróðurspildur, nema melgresi, lyng og víðir óvíða. Leiðin liggur milli reginfjalla. Í Ketildyngju norðan leiðarinnar eru Fremri-Námur, þar sem brennisteinn var tekinn og fluttur um Mývatn og Húsavík til Kaupmannahafnar, þegar kóngurinn þurfti að fara í stríð.

Byrjum í Kötlum sunnan Sellandafjalls, á mótum Biskupaleiðar af Sprengisandi og leiðar til Mývatns norður með Sellandafjalli, í 440 metra hæð. Förum út af jeppaslóðinni og fylgjum varðaðri leið yfir fjallgarðinn í átt til Jökulsár á Fjöllum. Fyrst förum við í norðaustur og síðan meira í austur og stefnum á syðri brún Bláfellshala. Þar komum við að dráttarvélaslóð umhverfis Bláfell. Þaðan höldum við austur á hraunið og förum skarðið milli Ketildyngju í norðri og Kerlingardyngju í suðri. Erum þar hæst í 780 metra hæð. Áfram förum við vörðuðu leiðina austur yfir Sveinagjá, sem er vond undir hóf. Síðan fyrir norðan Herðubreiðarfjöll, Gjáfjöll og að Bræðraklif í 540 metra hæð ofan við Hafragjá. Á brún Hafragjár eru þrjár vörður, sem sýna einstigi niður Bræðraklif. Þar tekur svo við Veggjafellsleið, síðasti áfangi Biskupaleiðar á leiðinni að Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum, þar sem var fyrsti ferjustaður á Jökulsá.

32,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Krákárbotnar, Suðurá, Suðurárbotnar.
Nálægar leiðir: Biskupaleið, Suðurárhraun, Veggjafell, Heilagsdalur, Dyngjufjalladalur, Íshólsvatn.

Skrásetjari: Ingvar Teitsson
Heimild: Ingvar Teitsson