Kerfið ómennska

Greinar

Undarlegt er það stjórnkerfi, sem tekur á sig margvísleg óþægindi fyrir að neita einstaklingum um brottfararleyfi. Undarlegt er það stjórnkerfi, sem telur meira virði að sýna þegnum sínum tennurnar en að dylja fyrir umheiminum mannvonzku þá, sem er óhjákvæmilegur þáttur þess sama stjórnkerfis.

Enn ein tilraun Davíðs Ashkenazys, föður píanósnillingsins okkar, til að fá leyfi Sovétstjórnarinnar til að heimsækja son sinn, hefur mistekizt. Hefur þó fjöldi Íslendinga með utanríkisráðherrann í broddi fylkingar reynt til hins ýtrasta að bræða steinhjarta Sovétstjórnarinnar í þessu máli.

Alræðis-og einræðisstjórnir reyna oft að stilla upp Pótemkintjöldum fyrir umheiminn til að dylja hið sanna eðli sitt. Sovétstjórnin er mesti sérfræðingurinn í slíkum blekkingum. Þess vegna er þeim mun athyglisverðara, að hún skuli leggja þvílíka áherzlu á að sýna þegnum sínum í tvo heimana og halda þeim á mottunni, að hún neitar sér um Pótemkintjöld á þessu sviði.

En það er sorgleg staðreynd, að þróuðu iðnaðarlandi skuli vera stjórnað af ómennsku kerfi, sem lítur á hina rúmlega 200 milljón íbúa sem þræla.

Jónas Kristjánsson

Vísir