Kennslubók í GPS fyrir þig og mig

Hestar

GPS-staðsetningartæki hafa breiðst út meðal hestamanna, án þess að maður sjái mikla notkun þeirra á ferðalögum. Satt að segja veigra margir sér við að nota þau, af því að þau eru flóknari í viðkynningu en GSM-farsímar og leiðbeiningar með þeim eru enn flóknari og ná sumpart ekki þeim tilgangi að útskýra flókið mál fyrir venjulegu fólki. Í rauninni eru tækin sáraeinföld í notkun, þegar menn hafa lært á þau.

Ég hef notað GPS-tæki um árabil og var nokkurn tíma að átta mig á þeim. Þetta eru ekki tæki, sem þú ferð með beint upp á fjall og ætlar að kortleggja það um leið og þú notar það. Til kunna að vera snillingar, sem geta það, en flestir þurfa að æfa sig á tækið, áður en til kastanna kemur. Þessari grein er ætlað að skýra notkun þeirra fyrir óvönum, til dæmis þeim, sem fengu svona tæki í jólagjöf.

Aðalatriðið er að átta sig á, að venjulegur hestamaður notar ekki nema brot af möguleikum tækisins og þarf ekkert að læra um annað en það, sem hann vill nota. Flestir hafa þarfir, sem nema minna en 10% af getu tækisins. Í einum eða tveimur bíltúrum er hægt að átta sig á notkun þess.

Kortið og áttavitinn

Flestir hestamenn þurfa aðeins að kunna tvö atriði á GPS-tæki, annars vegar að sjá, hvar þeir eru staddir á kortinu og hins vegar að vita, hverjar eru áttirnar. Hvort tveggja er einfalt og árangursríkt í GPS-staðsetningartæki. Fátt getur alvarlegt hent þann, sem veit, hvar hann er staddur og hverjar áttirnar eru.

1. Ekki þarf að lesa neinar leiðbeiningar til að finna, hvar þú ert á kortinu. Rafhlöður þurfa að vera í tækinu, þú þarft að kveikja á því og bíða í tvær mínútur eftir að tækið nái gervihnattasambandi. Að því loknu flettir þú skjámyndum unz þú kemur að Íslandskortinu. Þar er ör sem sýnir, hvar þú ert staddur á kortinu. Þú getur stækkað og minnkað mælikvarða kortsins.

2. Þú þarft ekki heldur lesa leiðbeiningar til að finna áttavitann. Þú þarft kannski að nota leiðbeiningar til að finna staðinn á skjámyndinni, þar sem þú gangsetur áttvitann. Að því loknu þarftu að snúa þér hægt í þrjá hringi til að gera tækinu kleift að átta sig. Sú stilling virkar unz þú þarft næst að skipta um rafhlöður. Eftir hverja skiptingu þarf að stilla áttavitann upp á nýtt.

Meira en þetta þurfa fæstir að kunna. Þú þarft ekki að lesa leiðbeiningar, nema þú ætlir að finna út, hvernig ferlar og leiðir, þínar eigin eða annarra hestamanna, eru settar inn í tækin. Ef þú þarft ekki á því að halda, geturðu hætt að lesa þessar leiðbeiningar og farið beint í að æfa þig í að finna Íslandskortið og stilla áttavitann. Takk fyrir lesturinn, góða skemmtun!

Tækin sjálf

Sjálfur nota ég tveggja ára gamalt eTrex Vista frá Garmin, sem er svart-hvítt staðsetningartæki með sæmilegu Íslandskorti. Nú eru komin betri tæki í lit, sem gerir kortin mun aðgengilegri en þau voru áður. Slík tæki fást í ýmsum útgáfum bæði frá Garmin og Magellan. Takkar og matseðlar á þessum tækjum eru misjafnir eins og öðrum slíkum, þannig að hvert tæki þarf sína kennslubók.

Ekki ætla ég að reyna að búa til kennslubók um takka og matseðla, heldur skýra almennt meðferð tækjanna, burtséð frá því, hvar hver aðferð er í tækinu og hvernig hún virkar. Menn verða að lesa leiðbeiningar með tækjunum, sérstaklega svonefndan Quick Start Guide, og nota þær samhliða lestri þessarar greinar.

Fyrst er mikilvægt að átta sig á, hvaða skjámyndir eru í tækinu, hvernig flett er milli skjámynda og hvernig menn færa sig til á skjámynd, upp og niður, til hægri og vinstri og hvernig valdar eru línur í matseðlum, sem koma í ljós, þegar stimplað er á svæði í skjámyndinni.

Passið rafmagnið

Fljótt komast menn að raun um, að GPS-tæki fyrir hestamenn éta rafhlöður eins og kjötsúpu. Ef tæki er haft opið í gangi í heilan dag, er það búið að ná meira en helmingnum af rafmagni tveggja rafhlaða. Í rauninni kveikja menn því aðeins á tækinu, þegar þeir þurfa að nota það, en hafa yfirleitt slökkt á því þess á milli.

Það er eitt algengasta vandamálið að vera búinn með rafhlöðurnar á miðjum degi, þegar eftir er að skrá mikilvægustu punkta dagsins. Næstalgengasta vandamálið er að vera búin með rafhlöðurnar í miðri langferð, af því að menn hafa vanmetið eyðsluna á rafmagni. Passið því ævinlega að hafa nóg af rafhlöðum í trússinu.

Vasatæki og bílatæki

Til eru staðsetningartæki, sem eru tengd við rafmagn, til dæmis í bíl og má hlaða upp. Það eru þyngri tæki, fara verr í vasa og ekki eins hentug fyrir hestamenn, því að við getum lent í að hafa engan aðgang að rafmagni dögum saman, ekki einu sinni bílarafmagni. En þetta er atriði, sem hver kaupandi þarf að gera upp við sig.

Þeir, sem þurfa að nota tækið við akstur erlendis, til dæmis sölumenn eða þjónustumenn, mundu frekar kaupa bíltæki með stórum skjá og sem gefur viðvörun, þegar beygja þarf á krossgötum. Slík tæki eru notuð erlendis til að finna heimilisföng viðskiptavina, hótela og veitingahúsa. Ég prófaði slíkt tæki líka, GPSmap 276C frá Garmin og það virkar á svipaðan hátt og Etrex Vista.

Skjámyndir og matseðlar

Etrex Vista tækið hefur nokkrar skjámyndir. Fremst eru sýnd gervitungl og samband tækisins við þau. Síðan kemur kortaskjár með Íslandskorti. Þá er áttaviti með segulleiðréttingu. Næstur er hæðarmælir. Svo kemur talnaskjár, sem sýnir ýmsar stærðir, svo sem ferðahraða og áætlaðan ferðatíma. Loks er skjár með táknmyndum og er hann mest notaður.

Á táknmyndaskjánum er íkon eða fyrir merkingu punktsins, sem þú ert staddur á í því andartaki. Þar er táknmynd til að merkja (mark) leiðarpunkta í tækinu. Einnig táknmynd til að finna (find) leiðarpunkta (waypoints) í tækinu. Þá er táknmynd til að finna ferla (tracks) í tækinu. Ennfremur er táknmynd til stillingar (setup) á tækinu. Loks er táknmynd fyrir ýmis hliðarforrit (accessories).

Þú þarft að læra að fletta milli skjámyndana, kunna að nota gleðipinnann (joystick) til að færa sig milli staða á skjánum og til að velja stað á skjánum, til dæmis til að ná í vallista til að velja aðgerð af. Þetta er allt saman spurning um fingrafimi, sem lærist af reynslunni.

Önnur tæki eru að einhverju leyti frábrugðin þessu tæki. Ég er með GPSmap 276C staðsetningartæki frá Garmin fyrir framan mig. Það hefur fleiri takka á sér, stærri skjá, góðan lit og að ýmsu leyti aðra uppsetning á skjámyndum og matseðlum. Menn þurfa að læra á hverja tegund tækja fyrir sig, ekki aðeins á hvern framleiðanda fyrir sig.

Ferlar og leiðir

Mikilvægt er að skilja mismun á eðli ferla (tracks) og leiða (routes).

1. Ferlar eru raðir ótal lítilla ferilpunktar(trackpoints), sem merkjast sjálfkrafa inn og sýna samanlagt ferð, sem hefur verið farin. Í þessu tilviki er hugsunin sú að skrásetja nákvæmlega leiðina, svo að hægt sé að setja hana nákvæmlega inn á kort og fara nákvæmlega eftir henni.

2. Leiðir eru raðir af miklu færri leiðarpunktum (waypoints), sem settir eru handvirkt inn á mikilvægum stöðum, svo sem krossgötum, afleggjurum, girðingarhliðum, vöðum, gerðum og skálum. Í þessu tilviki er hugsunin sú, að óþarfi sé að merkja inn aðgerðalitla kafla leiðarinnar, aðeins þau hnit, sem skipta máli, þegar taka þarf ákvörðun.

Ef þú keyrir frá Selfossi til Hvolsvallar með tækið í gangi verða til ferilpunktar, sem sýna leiðina með öllum sínum beygjum. Þú getur líka stimplað handvirkt inn leiðarpunkta, sem sýna mikilvæga áfanga, svo sem Skeiðavegamót, Þjórsárbrú, Landvegamót, Hellu, Gunnarsholtsveg. Hvor aðferðin fyrir sig hefur sitt ákveðna gildi.

Þetta gerir þú:
Báðar aðferðirnar eru einfaldar, þegar maður hefur lært á þær.

1. Ferlar eru búnir til með því að hreinsa (clear) opið ferilminni við upphaf ferðar og vista (save) það við lok hennar.

2. Leiðir eru búnar til með því að stimpla (click) tvisvar á takka eða gleðipinna á minnisverðum stöðum og fara síðar, kannski lögu síðar í tölvu og raða leiðarpunktunum upp í leiðir að ferð lokinni, til dæmis næsta vetur.

3. Handhægast er auðvitað að láta aðra gera þetta fyrir sig, byggja á gögnum þeirra, sem hafa gert þetta áður. Þá þurfa menn einungis að kunna að hlaða (import) hnitatöflum inn í tölvu sína og síðan að hlaða (export) þeim úr tölvunni inn í GPS-tækið, þá kemur leiðin fram á kortinu í tölvunni.

Tækjunum fylgja forrit til að gera þetta og þau eru sáraeinföld í notkun. Bezt er að fylgja bara forskriftinni og vera ekki með sérvizku í vali á hnattvarpi eða hnitaeiningum.

Ef þú ert svo heppinn að geta fengið ferla og leiðir hjá öðrum og þetta er allt komið inn í tækið, er eiginlega ekkert eftir fyrir þig að kunna eða gera. Þú kveikir á tækinu, bíður í 2-3 mínútur eftir gervihnattasambandi, flettir á skjámynd Íslandskortsins og sérð nákvæmlega, hvar þú ert í heiminm. Þú getur aukið (zoom) eða minnkað mælikvarðann á kortinu.

Ferilpunktar

Við skulum byrja að útskýra innsetningu ferilpunkta (trackpoints). Þú ákveður fyrst að byrja dagleið með hreint borð, núllpunkt. Þú eyðir úr minninu þeim lausu ferilpunktum, sem orðið hafa til meðan þú varst að sækja hestana í haga, leggja á, fara í fyrirstöður og gera annað það, sem þarf við brottför.

Það er oft furðu mikill þvælingur í upphafi ferðadags og þú vilt ekki að hann trufli leiðina. Þú núllstillir (clear) feril dagsins með því að eyða lausaminninu. Síðan gerir þú ekkert fleira, tækið sér um sjálft sig alla dagleiðina, allan ferilinn. Þegar þú kemur í náttstað vistar (save) þú feril dagsins og ert komin með eina dagleið í tækið.

Við enda dagsins er mikilvægt að vista ferilinn strax og komið er á áfangastað til að koma í veg fyrir að truflandi viðbót komi í hann af rölti þínu fram og aftur um svæðið.

Þegar þú ert búinn að vista feril dagsins, sérðu hvað dagleiðin hefur verið löng. Þú getur kallað hana fram á korti, annað hvort kortinu í tækinu eða á stafrænu korti í tölvunni þinni.

Þú þarft að finna skjámyndina og matseðilinn, þar sem gefinn er í fyrsta lagi á kostur á að núllstilla ferilinn og í öðru lagi að vista hann. Ef þú manst að núllstilla dagleiðina fyrst og vista hana síðast, þarf ekkert að hugsa um annað. Tækið sér um sig sjálft. Þú þarft hins vegar að passa upp á, að það týnist ekki, hristist ekki of mikið og sé utarlega í fötum þínum.

Til þess að tækið týnist ekki, hefurðu snúru úr því um hálsinn. Til þess að það hristist ekki, svo að það slokkni ekki óvart á því, hefurðu það í brjóstvasa. Og til þess að það sé nógu utarlega til að ná gervihnattasambandi hefurðu það í yzta fatinu, venjulega í úlpuvasa. Flestar úlpur hafa litla brjóstvasa utan við rennilásinn á bringunni. Þú þarft bara að passa að losa um hálsólina áður en þú ferð úr úlpunni, svo að ólin slitni ekki.

Ferlar

Innsetning ferilpunkta hefur þann tilgang að búa til ferla (tracks) og setja í ferlasöfn, annað hvort þitt safn eða eitthvert almennt safn. Venjulega þarf að hlaða ferlinum inn í tölvu og fikta þar við hann áður en hann fær sitt endanlega form. Venjulega þarf að eyða ferilpunktum, sem verða til í áningarstöðum, þar sem menn eru á röltinu án þess að það komi við ferlinum í heild.

Þegar búið er að eyða slíkum óþarfa punktum, sem geta orðið margir á nokkurra fermetra svæði, er ferillinn fullbúinn til notkunar. Landmælingar Íslands geta til dæmis tekið ferilinn og hlaðið honum inn á reiðleiðkortið, sem þær hafa á veraldarvefnum. Þar geta aðrir séð ferilinn á korti og haft hann til hliðsjónar, ef þeir hyggjast fara sömu leið, en geta að vísu ekki límt hnitin í sína tölvu.

Hin leiðin til að vinna ferla til frekari notkunar er að tína til mikilvæga punkta ferilsins, svo sem krossgötur, afleggjara, girðingarhlið, vöð, skála, gerði og mikilvæga hlykki á ferðinni og búa til grunn að leið. Þá eru hnit mikilvægra ferilpunkta límd inn í röð í töflu, sem myndar leið.

Slíkt er raunar betra að gera án þess að nota ferilpunkta. Þá ýtir maður handvirkt á hnapp, hvenær sem maður kemur að einhverju minnisverðu atriði í landslaginu, svo sem krossgötum, afleggjurum, girðingarhliðum, vöðum, skálum og gerðum.

Leiðarpunktar á hestbaki

Þá erum við komin að hinni aðferðinni við innsetningu upplýsinga í tækið, innsetningu leiðarpunkta (waypoints). Munurinn á þeim punktum og ferilpunktunum er sá, að þú þarft að ýta tvisvar á hnapp eða gleðipinna á tækinu til að merkja leiðarpunkta, en tækið setur sjálft inn ferilpunkta. Á sumum tækjum þarf að halda hnappi niðri smástund áður en þrýst er á í seinna skiptið.

Þú þarft ekki að gera annað en að ýta tvisvar á viðeigandi hnapp, venjulega gleðipinnan, til að merkja leiðarpunkt. Þú getur beðið með að gefa punktinum heiti og gefa honum einkennistákn, þangað til þú ert kominn heim í tölvuna þína, þar sem auðveldara er að vinna við slíkt með lyklaborði og stórum skjá.

Athugaðu að ekki er nauðsynlegt að stimpa inn beygjur á reiðleið, þú sérð þær yfirleitt. Það er ekki tilgangur leiða að líkja eftir ferli, aðeins að merkja punkta, sem skipta máli, krossgötur, afleggjara, girðingarhlið, vöð, skála og gerði.

Ég áttaði mig á nytsemi GPS-tækja, þegar við hjónin vorum á leið Kirkjustíginn frá Keldum á Rangárvöllum í átt að Koti og Næfurholtsbæjum. Ég vissi, að girðing með hliði var á leiðinni, en vissi ekki nákvæmlega, hvar það var, en það væri ekki á leiðinni. Þegar ég kom að girðingunni, vissi ég ekki, hvort ég átti að fara upp með henni eða niður með henni, af því að hafði ekki hnitin á hliðinu.

Athugaðu líka, að þú þarf tíma til að athafna þig við hvern leiðarpunkt. Ef skrið er á rekstrinum, getur verið erfitt að sækja tækið í vasann, tvísmella gleðipinnanum og passa að átakið sé lóðrétt niður á tækið, en hvorki upp eða niður, til vinstri eða hægri. Ferilpunktarnir skrá sig hins vegar sjálfir.

Leiðir heima fyrir

Heima hjá þér raðar þú í tölvunni upp leiðarpunktum í töflu sem verður að einni leið (route). Þú getur bætt inn punktum úr ferli eða úr annarri leið eða fellt út punkta eftir hentugleikum. Þú getur líka vélritað inn hnit nýrra punkta, sem þú hefur fengið annars staðar, til dæmis úr hnitaskrá fjallaskála.

Þegar þú ert búinn að búa til heila leið með þessum hætti og hlaða henni aftur inn í GPS-tækið þitt, sérðu leiðina á korti með viðeigandi heitum mikilvægra staða og táknmyndum fyrir tegundir staða á leiðinni. Leiðin fellur eðlilega inn í landslag kortsins, þar sem hæðarlínur og örnefni sjást.

Í stórum dráttum verða leiðir til á þann hátt, að fyrst eru merkt inn kennileiti og svo er seinna, kannski löngu seinna þessum hnitum raðað upp í röð, sem mynda leið. Síðari áfanginn er unninn á heimatölvunni, ekki í GPS-tækinu, nema menn séu í vandræðum með að finna eitthvað til að drepa tímann.

Mín aðferð

Ég hef að mestu orðið að byrja frá grunni, þar sem aðgengi mitt að punktum frá öðrum aðilum er takmarkað. Hægt er að hlaða inn hnitum skála af vefnum og sömuleiðis leiðum af heimasíðum jeppamanna og vélsleðamanna, en hestamenn hafa því miður ekki slíkan gagnabanka enn, þrátt fyrir samstarfið við Landmælingar.

Ég ríð leið og læt tækið skrá feril hennar sjálfvirkt. Síðan fer ég næsta vetur í að að hreinsa ferilinn og búa til hreinan feril. Við sama tækifæri bý ég til leið með því að taka upp mikilvægustu ferilpuntana og hlaða þeim inn á band leiðarinnar. Ef ég fer aftur sömu ferð, hef ég bæði feril hennar og leið hennar í GPS-tækinu. Ég get farið ferðina í hvora átt sem er.

Dæmi um slíka notkun mína Löngufjörur. Þegar ég er einu sinni búinn að fara yfir vað, hef ég hnit þess í tækinu og get næst farið yfir ána á nákvæmlega sama stað og þannig aukið líkur á að ég komist klakklaust yfir, svo framarlega sem ég ana ekki beint út í, heldur met aðstæður hverju sinni. GPS-tæki koma ekki í stað árvekni og hugsunar.

Í fyrrasumar var ég fararstjóri í ferð á Löngufjörum. Ég var vanur að koma að landi vestan við Saltnesál eftir landslaginu, eins og það sást utan frá leirunum. Nú hafði vaðið færst svo upp eftir álnum, að við vorum komin upp undir landsteina. Þaðan frá séð leit landslagið út á allt annan hátt heldur en utan frá leirum séð. Þá var tækið hentugt, ég dró það upp og reið áfram undir fjörunni, unz tækið sýndi rétta staðinn til að taka land.

Með GPS-tæki í vasa get ég sennilega farið í svartamyrkri um allar Löngufjörur og fundið réttu vöðin. Það eina, sem vantar í tækið, eru flóðatöflur, sem birtar eru í Almanaki hvers árs. GPS leysir ekki allan vanda.

Leið flestra

Flestir munu fljótlega ekki nota GPS-tækin til að safna ferlum eða leiðum, heldur aðeins til að skoða ferla og leiðir úr gagnabönkum, sem aðrir hafa safnað, og ríða eftir þessum upplýsingum. Slíkar upplýsingar eru aðgengilegar í hnitatöflum, sem menn hlaða fyrst inn í tölvuna sína og síðan úr henni í GPS-tækið.

Sennilega fylgir forrit og tölvutengi öllum GPS-tækjum. Þú þarft að finna staðinn á tölvunni, þar sem tengt er. Síðan opnar þú tölvuna og forritið. Þar getur þú fundið skipun um að flytja inn (import) hnitaraðir, sem þú til dæmis finnur á vefnum. Þar getur þú líka fundið skipun um að flytja út (export) hnitaraðir, annað hvort ferla eða leiðir, úr tölvunni inn í GPS-tækið, sem þá stundina er tengt við tölvuna.

Garmin-tækin nota til þessa forrit, sem heitir MapSource. Það á að vera sáraeinfalt í notkun fyrir alla, sem eru vanir að taka inn gögn, meðhöndla þau og senda frá sér. Þessi þáttur í notkun GPS-tækja er einkar mikilvægur, því að tölvan gefur betra svigrúm til að skrifa inn heiti, tákn og skýringarmyndir, svo og skýringartexta.

Landmælingakortið

Auðvitað væri einfaldast, ef Landmælingarnar hefðu slíkar hnitaraðir aðgengilegar. Því miður er sá stóri, sá risastóri galli á framtaki Landmælinganna í samstarfi við Landssamband hestamannafélaga, að forritið að baki kortsins á vefnum tekur ferla og leiðir bara inn í sig, en skilar þeim ekki út. Forritið er eins og svarthol í stjörnufræðinni.

Það er ekki hægt að merkja feril á kortinu og hlaða honum inn í tölvuna sína stafrænt, heldur verða menn að nota músina til að pota í leiðina og handskrifa niður hnitin og slá síðan inn handvirkt á lyklaborð hnit stakra punkta, sem er auðvitað hrein Kleppsvinna. Ég skil alls ekki þessi vinnubrögð Landmælinganna. Þar kalla menn útflutning gagna “fídus”, sem komi síðar.

Til að bæta úr þessari vondu skák er nauðsynlegt, að Landmælingarnar séu með síðu, þar sem skráðar eru reiðleiðir. Þegar menn velja ákveðna reiðleið af listanum, komi upp tafla með öllum hnitum leiðarinnar. Þessa töflu geti menn svo vistað í sinni eigin tölvu.

Meðan Landmælingarnar ráða ekki yfir þessari einföldustu stafrænu tækni útflutnings gagna úr gagnabanka, verða menn að fá ferla og leiðir hjá vinum og kunningjum. Þetta má eftir aðstæðum kalla hlægilegt eða grátlegt, en svona er ástandið.

Fyrr eða síðar verður að finna leið til að vista hnit reiðleiða á vefnum, svo að öllum sé aðgengilegt. Ef Landssamband hestamannafélaga losnar úr bóndabeygju Landmælinganna, getur það haft frumkvæði að slíku, annars verður framtakið að koma frá einstaklingum, eins og raunin hefur verið hjá jeppamönnum og vélsleðamönnum.

Niðurlag

Eins og áður segir, enda kynni okkar við GPS-tækið á þann hátt, að tæknin verður sáraeinföld í notkun.

1. Ef þú ætlar ekki að búa neitt til, þarftu annars vegar að geta fundið Íslandskortið í tækinu og finna aðferðina við að stilla áttavitann, svo að hann virki.

2. Til að eignast hnit ferla eða leiða frá öðrum aðilum þarftu að kunna að hlaða hnitatöflum í tölvuna þína og síðan úr henni í GPS-tækið.

3. Til að búa til eigin ferla, þarftu að kunna að núllstilla hvern feril við upphaf og vista hann á leiðarenda.

4. Til að búa til eigin leiðir, þarftu fyrst að merkja mikilvæga punkta með tvísmellingu og tengja þá síðar saman í tölvu til að búa til leið.

GPS-tæki búa yfir mörgum eiginleikum og ber þar hæst Íslandskortið, sem sýnir mikilvæg örnefni og hæðarlínur.

Einnig er mikilvægur áttavitinn, sem býr yfir leiðréttingu vegna segulskekkju. Athugaðu, að stilla þarf áttavitann eftir hver skipti á rafhlöðum. Athugaðu líka, að þú ert áttavitalaus, ef rafhlöðurnar eru búnar. Þá er betra að vera með gamaldags áttavita, sem ekki gengur fyrir rafmagni.

Tækin sýna einnig hæð yfir sjávarmál, ferðahraða, hreyfingar himintungla, dagbók, veiðidaga og reiknivél. Nýjustu bílatækin eru heilt safn af undursamlegri tækni. Þau tala mannamál og vara þig við, þegar þú nálgast krossgötur, þar sem þú þarft að beygja.

Framtíðin

Senn munu koma tæki, sem sameina GPS + farsíma eða GPS + lófatölvu eða allt þetta þrennt, GPS + farsíma + lófatölvu. Vönduð kort eru fáanleg fyrir ýmsa heimshluta, ef þú hyggst fá þér bílaleigubíl í útlöndum.

Og svo eru aðeins nokkur ár, þangað til sögunnar kemur enn nákvæmari tækni en GPS, það er að segja gervihnattanet Evrópusambandsins. Það kerfi heitir Galileo og verður toppurinn á tilverunni. Þá veistu örugglega, hvort þú ert að ríða á veginum eða í skurðinum við hliðina!

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 2.tbl. 2004