Mikil breyting hefur orðið í veitingamennsku Kaupmannahafnar, síðan fyrsta útgáfa þessarar bókar var rituð. Þar hefur á síðustu fimm árum orðið hliðstæð bylting nýfranskra áhrifa og varð um svipað leyti á Íslandi. Danir hafa lagað hefð sína að nýjum siðum og bjóða nú betri mat en nokkru sinni fyrr.
Fyrst segjum við frá tveimur stöðum, sem við höfum tekið sérstöku ástfóstri við. Síðan víkur sögunni að hinum matargerðarmusterunum fjórum. Þá er röðin komin að ýmsum öðrum góðum og skemmtilegum matstofum. Loks fjallar lengsti hluti kaflans um hina beztu af einkennis-matsölum Kaupmannahafnar, ódýru hádegisverðarstöðunum.
Els
Eitt notalegasta veitingahús Danmerkur er Els við Store Strandstræde, rétt við hornið á Kongens Nytorv. Húsið og innréttingin eru frá 1853, þar á meðal hinn glæsilegi, næstum austurríski kaffihúsastíll. Til skamms tíma lifði Els á fornri frægð, en fyrir nokkrum árum hélt nýja, létta matreiðslan þar innreið sína og staðurinn skauzt upp á tindinn á nýjan leik.
Einn bezti kostur Els er þó, að gæði innréttinga, matreiðslu og þjónustu endurspeglast ekki í verðlagi. Veitingastofan er mun ódýrari en aðrar í sama gæðaflokki matreiðslu. Raunar er verðlagið í Els undir meðalverði í Kaupmannahöfn.
Skemmtilegust er innréttingin í innri salnum, þar sem sex stórar myndir eru málaðar beint á tréveggina og hafa verið gerðar svo vel upp, að þær eru eins og nýjar. Á borðplötum úr bláum flísum með tréramma í kring eru logandi kerti, einnig í hádegi. Gólfið er teppalagt. Yfir öllu hvílir rólegur og virðulegur bragur, sem magnar síðan matarstemmningu við góða þjónustu og óvenju góðan mat.
Í Els er að góðum sið skipt um matseðil tvisvar á dag. Síðast prófuðum við í forrétt ágætt perluhænsnasalat með hunangs- og appelsínusósu og frábæra, heita fiskirjómasúpu með sveppum og jurtum, í aðalrétt bragðmikið, fyllt langlúruflak með laxafroðu og laxahrognum og góðan turnbauta af Charolais-nauti með jurtakássu og tómötum, og loks í eftirrétt mjög góða ferskjuköku með sólberjamauki og jarðarberjum og enn betri koníakstertu með rjóma og ferskum bláberjum.
Áður höfðum við fengið í sex rétta veizlu reyktan lax með svartsveppum, þykkvalúru í koníakssoði, sítrónu-kraumís með kampavíni, hjartarhryggjarsneið með svartsveppum í madeira, fjallaost með vínberjum og val af eftirréttavagni. Vínlistinn er langur og girnilegur.
Hádegissnarl kostaði DKK 93 á mann, kvöldverðarveizla DKK 261 og sex rétta veizla DKK 445. Nauðsynlegt er að panta borð, einnig í hádeginu.
(Els, Store Strandstræde 3, sími 14 13 41, opið mánudaga-laugardaga 11:30-15 og 17:30-22, sunnudaga 12-15 og 17:30-22, D3)
Remis
Annar óskastaður okkar er hinn nýi veitingakjallari meistarkokksins René Bolvig við Badstuestræde, rétt við Strikið. Þar er kominn til skjalanna einn af allra beztu matreiðslumönnum Dana, sem áður gerði garðinn frægan á Leonore Christine. Hann býður framúrskarandi málsverð og góða þjónustu á lægra verði en gengur og gerist í Kaupmannahöfn.
Að innan er litli veitingasalurinn látlaus, en stranglega stílhreinn og fagur, með gráleitum veggjum, teppi á gólfi og marmarastíl í diskum. Bolvig er sjálfur mikið á ferðinni inni í sal til að færa gestum rétti og ræða við þá. Matseðillinn er stuttur, en býr þó yfir ýmsu óvenjulegu. Vínseðilinn er ekki síður girnilegur.
Okkur var boðið upp á mjög gott humar-lasagne með sveipjurtum og blóðbergi, svo og kræklingakremsúpu í forrétt; í aðalrétt frábærar krónhjartar-lærissneiðar með steinseljusoði og steinseljurót, svo og lax, ofnsoðinn í eigin soði, með graslauk og sítrónusteiktri rauðrófu; og í eftirrétt indælis súkkulaði-smákökur með aprikósu, peru og blóðappelsínu.
Einnig mælum við með reyktum laxi í paprikumauki, innbökuðu kjúklingabrjósti, legnu í sítrónuediki, og steiktri nautamörbráð með gúrku, spínati og rauðvínssoði
Remis er nýjasta og langódýrasta matargerðarmusterið í borginni.
Kvöldverðarveizla kostaði DKK 293 á mann og DDK 303, ef valinn var fjögurra rétta matseðill kvöldsins. Nauðsynlegt er að panta borð, einnig í hádeginu.
(Remis, Badstuestræde 10, sími 32 80 81, opið 12-15 og 18-22 mánudaga-föstudaga, C3/4)
Cocotte
Bezta matargerðarmusteri nýfranska stílsins í Kaupmannahöfn er enn Cocotte á Richmond-hótelinu. Þar ráða ríkjum meistarakokkurinn Jan Pedersen og vínþekkjarinn Niels Monberg og skipta með sér umsjón á kvöldin.
Svipur veitingahússins er nákvæmlega hinn sami og alltaf hefur verið. 40 manna salurinn er víðáttumikill, svo að feiknarlangt er milli borða. Á veggjum eru innrammaðir og áritaðir matseðlar hinna frönsku frumkvöðla nýja stílsins. Innan um nútímaleg húsgögn eru ýmsir forngripir, svo sem skápar með vínflöskum, glösum, matreiðslubókum og kryddstaukum.
Við annan endann sér inn í opið eldhús, þar sem fumlausir kokkar sjást að störfum. Í hinum endanum er lauslega aðskilin fordrykkja- og kaffistofa, þar sem gott er að setjast í hægindastóla fyrir og eftir mat. Um salinn á milli sigla rólegir þjónar eins og tíminn standi í stað, enda er reiknað með, að gestir séu ekki í dagsins önn.
Matseðill dagsins er handskrifaður og stuttur. Helzta tromp hans er sjö rétta Menu Degustation, sem verður að panta daginn áður. Sú veizla er það, sem flestir sækjast eftir, þegar farið er í pílagrímsferð til Cocotte, en að sjálfsögðu er unnt að snæða mun ódýrar, einkum í hádeginu.
Við byrjuðum síðast sjö rétta málsverðinn á frábærum langlúruflökum í þykkvalúrusoði með blaðlauk, fengum næst góðan humargraut, síðan sítrónuleginn lax, þá vermút-kraumís, svo aðalréttinn, sérstaklega gott dádýralæri, rautt og fínt, ennfremur mjög góðan geitaost með grænmeti og ávöxtum og loks disk með nokkrum eftirréttum.
Áður höfðum við fengið samkvæmt matseðli dagsins þykkvalúru með spínati í ljúfu soði, góða nautalund, steikta öðrum megin, borna fram með mjög góðri rjómasósu, og loks þrenns konar eftirrétt, kraumís með perubragði, súkkulaðifroðu og rúllutertu með kastaníuhnetum og hunangi.
Eins og venjulega kynntu hinir frábæru þjónar hvern rétt fyrir sig, þegar hann var borinn á borð. Þeir aðstoðuðu líka af kunnáttusemi við val á víni í samræmi við verðhugmyndir gestanna. Á vínseðlinum kenndi margra grasa, ódýrra og dýrra, en við rákum augun í eðalvínið Chateau Pichon-Lalande frá 1980 á DKK 250.
Að koma í Cocotte er eins og að hitta gamlan vin. Allt var óbreytt og allt var frábært í þessum rólega og notalega útverði menningarinnar á norrænum vettvangi.
Sjö rétta veizlan kostaði DKK 503 á mann. Venjuleg kvöldverðarveizla kostaði DKK 388, sem ekki er meira en á mörgum öðrum virðingarstöðum borgarinnar. Nauðsynlegt er að panta borð, einnig í hádeginu.
(La Cocotte, Vester Farimagsgade 33, sími 14 04 07. opið 12-14 og 17-22, lokað sunnudaga, A3)
Saison
Nú er fljótlegra að heimsækja meistarkokkinn Erwin Lauterbach, sem áður gerði Primeur að matargerðarmusteri Málmeyjar. Hann er fluttur heim til Hafnar og hefur opnað veitingastaðinn Saison á Hotel Österport, andspænis samnefndri járnbrautarstöð.
Sjálfur staðurinn er ekki eins aðlaðandi og margir aðrir, sem fjallað er um í þessari bók. Hann er fyrir neðan anddyri hótelsins, hljóðbær og hár til loftsins. Að öðru leyti er vandað til innréttinga og Hornung-málverk hanga á veggjum. Plöntuvafin burðarsúla í miðjum sal mildar heildarsvipinn verulega.
Þjónusta er sérstaklega góð í Saison, en annasöm, því að oft er mikið um að vera. Samt er þess jafnan gætt, hvernig gestir hafi það hverju sinni, hellt í glösin og notaðir diskar fjarlægðir. Eins og í Cocotte eru þjónar afar fróðir um matinn og vínlistinn er einstaklega vel valinn.
Lauterbach leggur mikið upp úr góðu grænmeti og hefur þá sérstöðu meðal meistara Kaupmannahafnar að bjóða sérstakan matseðil fyrir grænmetisætur. Við heimsóttum staðinn í fylgd slíkra, sem sögðu þá rétti bera af öðrum í borginni.
Við völdum stóra, sjö rétta matseðilinn og fengum fyrst ljómandi góðar sveipjurtir með laxahrognum, síðan ágæta humarsúpu, þá frábæra, ofnsteikta slétthverfu með blóðbergi og mauksoðnum rótarávöxtum, næst rauðvíns-krapís, svo aðalréttinn, mjög góða æðarfuglsbringu með steinselju, og síðast osta dagsins og úrval eftirrétta. Með þessu fundum við frábært rauðvín, Chateau Vignelaure 1980 á DKK 240.
Stóra kvöldverðarveizlan kostaði DKK 530 á mann, venjuleg kvöldverðarveizla DKK 395 og grænmetisveizla DKK 315. Hádegissnarl kostaði DKK 167. Nauðsynlegt er að panta borð.
(Saison, Oslo Plads 5, sími 11 22 66, opið þriðjudaga-föstudaga 12-14:30 og 18-22, laugardaga 18-22, lokað sunnudaga, D1)
Kong Hans
Í hópi matargerðarmustera borgarinnar er dýrasta veitingahús Danmerkur, Kong Hans. Það felur sig í kjallara í næsta nágrenni Kongens Nytorv og lætur lítið yfir sér að utanverðu. Þar setjast menn fyrst á bar til að fá sér fordrykk og fylgjast með störfum í opnu eldhúsi fyrir innan, meðan þeir velja sér af matseðli. Fyrst, þegar við komum í Kong Hans fyrir sjö árum, töluðu þjónarnir frönsku, en nú er tungumálið orðið danska.
Síðan er gestum vísað til lítils og fagurs og rómantísks veizlusalar að baki. Hann einkennist af hvítkölkuðum og rifjuðum kjallarahvelfingum, sérkennilegum listaverkum við veggi, virðulega bakháum stólum og afar höfðinglegum borðbúnaði. Fyrir innan er svo koníaksstofa, þar sem gestir setjast í djúpa stóla og láta færa sér kaffi að máltíð lokinni.
Í síðustu heimsókn okkar virtist þjónustan vera farin að gefa sig. Þótt farið væri að fækka í salnum síðla kvölds, voru gestir önnum kafnir við að veifa og vekja athygli þjónanna á þörfum sínum. Og gestir í koníaksstofu urðu að koma fram til að panta meira kaffi. Slíkt á aldrei að þurfa að gerast á stöðum svimandi verðlags. Vonandi hafa þetta aðeins verið tímabundin frávik frá fyrri þjónustu, sem hafði ætíð verið mjög góð.
Í þetta skipti var hægt að velja milli þriggja, fjögurra, sex og átta rétta matseðla. Við völdum sex rétta seðilinn og fengum mjög góða gæsalifur og kálfabris með súru grænmeti, sérstaklega góð spörfuglsegg með zucchini-gúrku, sveppum, laxahrognum og kavíar, kampavínskraumís, frábæra nautamörbráð með sveppum og rauðvínssósu, fjóra osta góða og nokkra eftirrétti á diski. Matreiðslan var greinilega enn í bezta formi, þótt þjónustunni hefði fatazt flugið.
Þriggja rétta veizlan kostaði DKK 525 á mann, fjögurra rétta DKK 625, sex rétta DKK 710 og átta rétta veizlan hvorki meira né minna en DKK 850, sem hlýtur að nálgast heimsmet. Hið sama má segja um sumar tölurnar á frábærum vínlista, þótt einnig megi finna þar lægri tölur við hæfi. Nauðsynlegt er að panta borð.
(Kong Hans Kælder, Vingårdstræde 6, sími 11 68 68, opið 18-22, lokað sunnudaga, D3)
Etoiles
Með hálfum huga tökum við með síðasta matargerðarmusterið, Hos Jan Hurtigkarl, sem nú heitir Etoiles. Staðurinn reyndist að vísu nákvæmlega eins útlits og bauð upp á sömu góðu þjónustuna og frábæra matreiðsluna og undir gamla nafninu. En Jan Hurtigkarl er orðinn þreyttur, þótt ungur sé, og staðfesti við okkur orðróm um, að hann ætlaði að selja staðinn.
Jan Hurtigkarl er kunnur sjónvarpskokkur, sem fyllir með Jan Pedersen í Cocotte, Erwin Lauterbach í Saison og Réne Bolvig í Remis sveit hinna fjögurra meistarakokka borgarinnar. Hann er einn upphafsmanna nýju, frönsku matargerðarlínunnr í Danmörku, ör maður og orðinn nokkuð starfsmóður.
Etoiles er rétt austan við Kongens Nytorv, á fyrstu hæð íbúðarblokkar við torg á Dronningens Tværgade. Utan að sjá lætur það lítið yfir sér. Inni eru sömu brúnu og bláu litirnir og fyrr og næstum því eins rúmt milli borða og í gamla daga.
Eins og í öðrum veizlusölum borgarinnar er vandaður, fjölbreyttur og vel valinn vínlisti í Etoiles, ólíkur listum annarra staða. Þessi gæði og fjölbreytni stafa af því, að Danir hafa ekki áfengiseinkasölu, heldur pantar hvert veitingahús hvaða vín, sem ráðamenn þess vilja hafa á boðstólum. Í Etoiles fundum við ágætis Saint Joseph á DKK 190.
Sérgrein Jan Hurtigkarls er að bjóða þrjá matseðla, einn matseðil dagsins, annan fiskréttaseðil og hinn þriðja veizluseðil langan. Af fiskréttaseðlinum fengum við fyrst afar góð laxahrogn með fiskikæfu, síðan ljúffenga langlúru og síðan franska osta og eftirrétti hússins. Af langa seðlinum fengum við laxahrognin, góða grænmetissúpu og frábæra humarfroðu með spínati, svo og indælis dádýrasteik, osta og eftirrétti.
Áður höfðum við af hádegisverðarseðli fengið reyktan lax og reyktan kalkún frá Standager. Einnig af seðli dagsins andakjötshlaup, steiktan sjóbirting með rósapaprikusósu og svo franska osta og sæturétti að eigin vali.
Um þennan stað gildir eins og um önnur vildarhús og matarmusteri, sem þegar hafa verið nefnd, að ekki skiptir máli, hvað valið er, því að reikna má með, að til allra rétta sé vandað í eldhúsi. Svo er bara að vona, að Jan hætti við að hætta.
Kvöldverðarveizla kostaði DKK 378 á mann af seðli dagsins, DKK 408 af fiskseðlinum og DKK 508 af langa seðlinum. Nauðsynlegt er að panta borð.
(Les Etoiles, Dronningens Tværgade 43, sími 15 05 54, opið 17:30-21:30, lokað sunnudaga, C2)
Fiskekælderen
Gamall kunningi okkar og bezta fiskréttastofan í röðinni við Stranden og Gammel Strand, andspænis Hallarhólma og Kristjánsborg, er Fiskekælderen undir veitingasalnum Den Gyldne Fortun. Árum saman hefur kjallari þessi boðið nútímalegri og varfærnari eldamennsku á fiski en hinir staðirnir á svæðinu, þar á meðal Fiskehuset og ekki sízt hinn forni Kroghs.
Fiskekælderen er í tæplega 200 ára gömlum kjallara og rúmar ekki mikinn fjölda gesta. Innréttingar eru notalegar, en mjög þröngt er í bekkjunum við tréborðin. Þjónarnir eru þægilegir og snarir í snúningum.
Bezt er þó nákvæmnin í eldhúsinu, þar sem mikil áherzla er lögð á gufuhitun. Því miður er þó notaður frystur fiskur. Það sést strax af matseðlinum, sem er prentaður til margra vikna í senn. Hins vegar er á krítartöflum á veggjum boðinn ferskur fiskur, sem við mælum frekar með.
Þegar við vorum síðast í Fiskekælderen, voru humar og sjóbirtingur á boðstólum dagsins. Humarinn kostaði DKK 88 hver 100 grömm. Hann var grillaður og bragðgóður. Enn betri var þó sjóbirtingurinn, hvítvínsdampaður og borinn fram með laxahrognum og kavíar. Við gátum ekki neitað okkur um gamalkunnan og fílsterkan eftirrétt, fíkjur, eldsteiktar í anis-brennivíni, bornar fram með hjartaaldinhnetuís.
Meðalkvöldverður kostaði DKK 360 á mann.
(Fiskekælderen, Ved Stranden 18, sími 12 20 11, opið mánudaga-laugardaga 11-23, sunnudaga 17:30-23, C4)
Leonore Christine
Í elzta húsi Nýhafnar, þriggja alda gömlu, frá 1681, er litla veitingastofan Leonore Christine með góðu útsýni frá sumum borðum út um þrjá glugga yfir höfnina. Húsið hefur varðveitzt í upprunalegu horfi. Innan dyra er allt með einföldu og látlausu sniði, hvítum veggjum og stóru og mjög svo áberandi pottatré á miðju gólfi.
Staðurinn hefur örlítið dalað, síðan hann komst í tízku í viðskiptalífinu, og er oft fremur hávaðasamur, þegar margir karlar sitja við sama borð. Þjónustan er misjöfn, en oftast góð. Matseðlinn er stuttur og handskrifaður og ber greinileg merki nútímalegrar matreiðslu, sem reyndist okkur vera fínleg og að sumu leyti óvænt. Þetta er bezti matstaður Nýhafnar. Verðlag vínlistans er of hátt.
Í forrétt fengum við hrátt, skafið rádýrskjöt með fáfnisgrasi og pönnusteiktu spörfuglseggi, svo og gott mauk tvenns konar sveppa. Í aðalrétt mjög gott andabrjóst með skalotlauk og rauðvínssoði, svo og jafngóðar dádýralærissneiðar með vetrarkáli í gæsafeiti. Í eftirrétt kandíseraðan hnetuís með sveskju-sabajon, svo og disk með blöndu fimm mjög góðra eftirrétta dagsins.
Kvöldverðarveizla kostaði DKK 383 á mann. Ráðlegt er að panta borð.
(Leonore Christine, Nyhavn 9, sími 13 50 40, opið mánudaga-föstudaga 12-15 og 18-22, laugardaga 18-22, lokað sunnudaga, D3)
Alsace
Eitt fínu veitingahúsanna í Kaupmannahöfn er Alsace við hina skemmtilegu göngugötu Pistolstræde, sem liggur til norðurs frá Strikinu austarlega. Hluti Alsace er eins konar gangstéttarveitingahús, en hinn eiginlegi veitingasalur er í einföldum, hvítum múrsteinskjallara að baki. Þar eru miklir vendir ferskra blóma, grænir sófar með veggjum og flísar á gólfi. Salurinn er tvískiptur og sést úr öðrum hlutanum inn í eldhúsið.
Vínlistinn einkennist að sjálfsögðu af Elsassvínum. Þar mátti þó einnig sjá ágætis Barolo frá 1979 á DKK 176. Boðið er upp á tvo matseðla, auk margs konar sérrétta, þar á meðal súrkáls. Við prófuðum seðlana tvo.
Annar var með tærri svartsveppasúpu í forrétt, góðri rádýrasteik með kantarellu-sveppum í aðalrétt, ágætum Münster-osti og vanilluís með ávöxtum í eftirrétt. Hinn bauð í forrétt indæla gæsalifrarkæfu með ristuðu brauði, í millirétt ostrusúpu, í aðalrétt ágæta akurhænu, smjörsteikta með vínberjum, í eftirrétti grillaðan geitaost og kampavíns-kraumís.
Kvöldverðarveizla kostaði DKK 376 á mann.
(Alsace, Ny Østergade/Pistolstræde, sími 14 57 43, opið 11:30-24, lokað sunnudaga, C3)
Lumskebugten
Norður við Tollbúð, yzt á Esplanaden, er gamalkunnug kaffistofa, Lumskebugten, sem fyrir nokkrum árum gekk í endurnýjun lífdaganna. Þar ríkir nú matreiðsla nútímans og góð þjónusta í látlausri og fagurri umgerð.
Húsið er hvítt, langt og mjótt, með aðalmatsal fremst á horninu og bar og tveimur smástofum þar inn af, með frönskum rúðuhurðum á milli. Allt er þetta bjart og ljóst, gamalt og rúmgott, skreytt gömlum ljósmyndum og plakötum. Á borðum eru glansandi hvítir dúkar og munnþurrkur, svo og lifandi blóm og logandi kerti.
Við prófuðum ágætt, hrátt og skafið nautakjöt, mjög góða skötu, fyllta salati og laxahrognum, gott dádýralæri með hnetusoði, eplum og brómberjum, svo og súkkulaðikremköku með ávaxtamauki og ís.
Þetta var valið af tilboði dagsins á krítartöflu, en að auki eru til lengri matseðlar handskrifaðir, annar hádegisverðar og hinn kvöldverðar. Nær allir réttirnir eru samkvæmt nýjum stíl, en þó mátti sjá þar lafskássu til minningar um fyrri sögu staðarins. Verð á vínlista voru tiltölulega skynsamleg.
Kvöldverðarveizla kostaði DKK 395 á mann og hádegissnarl DKK 207. Lumskebugten er þannig einn hinna dýru matstaða borgarinnar. Ráðlegt er að panta borð.
(Café Lumskebugten, Esplanaden 21, sími 15 60 29, opið 11-24, lokað sunnudaga, E1)
Spinderokken
Við höfum jafnan haldið tryggð við Spinderokken, síðan við fundum hann fyrir tveimur áratugum. Hann lítur alltaf eins út, þótt eigendaskipti hafi verið tíð. Ætíð er jafn notalegt að koma beint af flugvellinum til að fá sér síld, grænt öl og snafs við hlið blómapotta og steindra glugga á götuhlið Spinderokken.
Þetta er friðsæll og værukær staður þungra innréttinga, þar sem tíminn stendur í stað. Það gildir einkum um gamla hlutann, en síður um nýja salinn til hliðar. Í Spinderokken eru gestir ekki að flýta sér, heldur rabba langtímum saman, meira að segja í hádeginu yfir hlaðborðinu, sem farið var að bjóða fyrir DKK 89 eftir síðustu eigendaskipti.
Sumir hlaðborðsréttirnir eru ekki girnilegir, en síldin var góð, sömuleiðis skinka með melónu, hrásalat og ostar.
Með öli kostaði hlaðborðið DKK 107 á mann. Kvöldveizla kostaði DKK 315.
(Spinderokken, Trommesalen 5, sími 22 13 14, opið 11-24, A5)
Bee Cee
Þá er röðin komin að fyrsta hádegisverðarstaðnum, Bee Cee, í kjallara við göngugötuna Pistolstræde út frá Strikinu. Hann er ekki dæmigerður, því að hann er dýrari en venjulegt er, en býður líka sérstaklega góðan mat. Kjallarinn er langur og mjór, í ljósum nútímastíl, með bekkjum meðfram veggjum og stálstólum úti á gólfi, skreyttur abstraktverkum — og státar af mjög góðri þjónustu.
Við fengum gott, grænt salat og mjög góðar laxabollur í mildu remúlaði síðast, er við vorum í Bee Cee. Einnig mælum við með reyktum lax, piparrót og gúrku, svo og andalifrarkæfu með hnetum.
Hádegissnarl kostaði DKK 156 á mann.
(Bee Cee, Østergade 24, sími 15 02 77, opið 11-20, lokað sunnudaga, C3)
Victor
Victor að baki Angleterre hefur í nokkur ár verið tízkustaður ungra og efnaðra menningarvita, nokkuð opinn og kuldalegur, en einkum þó hávær. Hann er mest notaður sem kaffistofa, enda er barinn notalegri en matsalurinn, sem þykir þó hinn sæmilegasti hádegisverðarstaður. Gluggar eru stórir og naktir og speglar eru að barbaki eins og víðar í salnum. Allt er gert til að allir sjái alla, meira að segja utan af götu. Þjónusta er góð.
Hádegissnarl kostaði DKK 124 á mann.
(Café Victor´s, Hovedvagtsvej/Ny Østergade 8, sími 13 36 13, opið 10-02, C3)
Copenhagen Corner
Þótt Copenhagen Corner við Ráðhústorgið sé greinilega einkum gert út á ferðamenn, er þetta vandaður matstaður með tiltölulega hóflegu verðlagi, verðugt framhald af gamla Frascati, sem sumir muna enn eftir. Gróðurhúsið við stéttina er nýtízkuleg útgáfa af gamla gangstéttarkaffihúsinu, sem hér var á sínum tíma.
Hér höfum við meðal annars reynt heitreyktan lax, ferskan krabba, vel rautt andabrjóst í calvados, góðan steinbít í áfengisblandaðri grænmetissósu, heilsteikta nautalund og mjög góðar pönnukökur, fylltar rúsínum og rifsberjum.
Í Copenhagen Corner er hægt að fá ýmis eðalvín í glasatali. Þau eru dregin úr flöskunni með svonefndri Cruover-tækni, sem sjaldséð er utan Frakklands og Bandaríkjanna.
Hádegissnarl kostaði DKK 112 á mann.
(Copenhagen Corner, Rådhuspladsen, sími 91 45 45, opið 11:30-24, B4)
Christiansborg
Christiansborg er aðeins steinsnar frá anddyri þinghúss Dana, handan Týhúsbrúar og fær slæðing þaðan af þeim, sem ekki eru uppteknir á Snapsetinget. Staðurinn er í hreinlegum alþjóðastíl, rúmgóður og þægilegur, með virðulegum ljósmyndum af dönskum forsætisráðherrum yfir barnum. Síðast þegar við vorum þar, sá Íslendingurinn Viðar Birgisson um þjónustu í sal.
Fyrir nokkrum árum var Christiansborg hádegisverðarstaður, sem var einkum frægur fyrir risastórt hlaðborð. Nú hefur það verið lagt niður og staðurinn er einnig opinn á kvöldin, þegar þar er stundaður píanóleikur fyrir gesti. Við þekkjum ekki þá hlið matstofunnar.
Af nýja seðlinum prófuðum við ágætan mat, þykkvalúruflök, annað gufusoðið og hitt pönnusteikt, með kröbbum, rækjum og laxahrognum, svo og reykt dádýralæri með salati og melónurjóma, einnig gott.
Hádegissnarl kostaði DKK 112 á mann.
(Christiansborg, Ny Kongensgade 15, sími 14 55 60, opið mánudaga-föstudaga 11:30-24, laugardaga 17-24, C5)
Ostehjørnet
Niðri í kjallara við Store Kongensgade er ágæt ostabúð og uppi á hæðinni stílhreint veitingahúsið Ostehjörnet, sem hefur osta að sérgrein, þar á meðal franska og fína. Salöt, ostar og kalt kjöt eru til sýnis við diskinn, svo sem títt er í dönskum hádegisverðarstöðum. Munnþurrkur voru því miður úr pappír.
Við höfum einkum hallað okkur að ostabakkanum, sem kostaði DKK 35 á mann. Síðast prófuðum við ostana emmenthaler, camembert, bresse bleu, franskan geitaost og brie, alla hæfilega þroskaða. Starfsliðið hefur vit á osti. Bezt er að fá sér bjór með ostinum, því að vínið er ekki nógu gott.
Meðalverð á hádegissnarli var DKK 108 á mann.
(Ostehjörnet, Store Kongensgade 56, sími 15 85 77, opið mánudaga-föstudaga 11:30-18, laugardaga 11:30-15, D2)
Tivolihallen
Saltfiskhús Kaupmannahafnar er hinn 125 ára gamli kjallari, Tivolihallen, að baki ráðhússins. Þar sitja fastagestir á slitnum bekkjum og rifnum stólum í tveimur þreytulegum og þægilegum stofum og úða í sig stórum skömmtum af saltfiski eða öðrum hefðbundnum húsmóðurmat. Þótt umhverfið sé laslegt, er alltaf jafn skjannahvítt og hreint í dúkum og munnþurrkum úr taui. Engin verðskrá er í Tivolihallen.
Saltfiskinn verður annað hvort að panta fyrirfram eða bíða eftir honum í 25 mínútur. Við biðum og fengum góðan fisk, matreiddan upp á íslenzku, en þó án hamsatólgar. Ennfremur fengum við ágætan, mjúkan lax.
Hádegissnarl kostaði DKK 105 á mann.
(Tivolihallen, Vester Voldgade 91, sími 11 01 60, opið mánudaga-föstudaga 11:30-22, B4)
Nybro
Einn af beztu hádegisverðarstöðunum er hinn notalegi Nybro, næstum andspænis Thorvaldsenssafni, handan síkisins, í einu hinna svonefndu brunahúsa, sem reist voru eftir brunann mikla árið 1728, fyrir rúmlega 250 árum. Nybro er í kjallara og á 1. hæð hússins. Niðri eru grófir veggir og gulir dúkar, en uppi er fínlegra og dúkar bláir. Skemmtilegra er að vera niðri, þar sem tilboð dagsins eru skráð á krítartöflur.
Staðurinn er frægur fyrir frábæra þjónustu vingjarnlegra eigenda, sem bentu okkur meðal annars á Oswald-öl og snafs, sem sjaldfenginn er í veitingahúsum borgarinnar, bragðmilt Bröndums kúmen-ákavíti. Staðurinn er yfirleitt fullur af fastagestum.
Við prófuðum frábæra kræklingasúpu, góða nautamörbráð, hráa og legna, indæl þykkvalúruflök gufusoðin og ágæta andalifur í sveppasósu, allt saman ótrúlega góðan mat.
Hádegissnarl kostaði DKK 99 á mann. Ráðlegt er að panta borð.
(Nybro, Nybrogade 18, sími 15 14 43, opið mánudaga-laugardaga 11-16, C4)
Caféen i Nicolai
Óneitanlega er sérkennilegt að sitja í kirkju og borða. En það er hægt að gera í Nikulásarkirkju, sem er rétt við Strikið. Vítt er til lofts og hátt til veggja í syðra þverskipi kirkjunnar, þar sem veitingastofan er. Rúmgott og bjart er í skipulagslítið innréttuðum salnum, innan við stóra og steinda kirkjuglugga. Stór málverk á veggjum og dökkir bitar í lofti draga nokkuð úr kulda staðarins, en pappírsdúkar og heimalagað sinnep ofan á taudúkum auka hann á móti.
Við prófuðum ágæta fiskisúpu með óvenjulega góðu brauði og hæfilega lítið smjörsteikt þorskhrogn og komumst að raun um, að hér leyndist einn hinna betri matstaða borgarinnar. Skipt er um handskrifaðan matseðil tvisvar á dag, svo sem vera ber. Þar mátti meðal annars sjá girnileg, appelsínulegin steinbítshrogn og danskan geitaost.
Hádegissnarl kostaði DKK 97 á mann og kvöldveizla DKK 366.
(Caféen i Nicolai, Nikolaj Plads, sími 11 63 13, opið þriðjudaga-laugardaga 12-24, C3)
Sankt Annæ
Við hlið Neptun-hótels á Sankt Annæ Plads er lítil hádegisverðarhola, þar sem 32 sáttir mega þröngt sitja, ef þeir komast inn um mjótt anddyrið. Þetta er einkar snyrtileg matstofa, skreytt vagnhjólum og gömlum teikningum af vögnum. Hún er fjölskyldufyrirtæki, sem þekkt er fyrir, að allt er lagað á staðnum. Engan matseðil eða verðlista er að finna. Gestir fara að diskinum, þar sem maturinn er, fá að vita, hvað hann kostar, og benda á það, sem þeir girnast.
Við prófuðum lax með rækjum, svo og egg með rækjum, hvort tveggja góðan mat. Áður höfðum við fengið þar ágæta síld og osta.
Hádegissnarl kostaði DKK 96 á mann. Ráðlegt er að panta borð.
(Sankt Annæ, Sankt Annæ Plads 12, sími 12 54 97, opið mánudaga-föstudaga 11-16, D3)
Cranks Grönne Buffet
Helzti grænmetisréttastaður borgarinnar, Cranks Grönne Buffet, er í einu gömlu húsanna, 250 ára gömlu, milli Pistolstræde og Grönnegade, rétt norðan Striksins. Þar fara kuldalega norrænar og hreinlífislegar viðarinnréttingar vel við notalega timburveggi og litlar gluggarúður átjándu aldarinnar.
Gestir velja sér grænmetisrétti við diskinn og þjóna sér sjálfir til borðs. Matreiðslan er upprunalega frá hliðstæðum veitingastað í London og byggist á svokölluðum “biodynamiskum” hráefnum, sem ræktuð eru á náttúrulegan hátt, en ekki með tilbúnum áburði eða skordýraeitri.
Á boðstólum var fjöldi ágætra rétta, meðal annars linsubaunakæfa, laukterta, lárperustappa, eggaldinfylling, ýmis hrásalöt, ávaxta- og grænmetissafar, ostabollur og trönuberjaterta, allt samkvæmt uppskriftum úr valinkunnri matreiðslubók staðarins.
Hádegissnarl kostaði DKK 95 á mann. Kvöldverðarveizla hefði kostað DKK 185.
(Cranks Grönne Buffet, Grönnegade 12-14, sími 15 16 90, opið mánudaga-laugardaga 11-21, C3)
Esbern Snare
Í einna skemmtilegustu götu gamla bæjarins, Snaregade, er veitingastaðurinn Esbern Snare í kjallara og á fyrstu hæð. Staðurinn hefur hið rólega yfirbragð ellinnar. Viðarinnréttingar eru einfaldar og á ljósum veggjum hanga stór, þokukennd málverk. Á borðum eru fínir dúkar og munnþurrkur.
Um nokkurt skeið hefur Jytte Fich ráðið hér ríkjum og þjónar sjálf til borðs. Hún hefur ræktað hinn nýja matreiðslustíl og gert staðinn vinsælan meðal ungs fólks. Við prófuðum sérstaklega góðan, reyktan ál með eggjahræru, vel skafið, hrátt nautakjöt, svo og bragðmikinn og vel þroskaðan fornost.
Hádegissnarl kostaði DKK 90 á mann. Kvöldverðarveizla hefði kostað DKK 324.
(Esbern Snare, Snaregade 4, opið mánudaga-laugardaga 11:30-22, C4)
Amalie
Rétt við Amalienborg er hin tiltölulega nýlega hádegisverðarstofa Amalie í litlum og notalegum, gömlum og friðuðum kjallara, þar sem lágt er til lofts. Hvítmáluðu veggirnir eru grófir fyrir ofan gulleitt tréverkið, sem nær upp á þá miðja. Þeir eru skreyttir gömlum koparstungum. Á borðum eru blóm, fínir hekludúkar og munnþurrkur úr pappír.
Við fengum ágætan ál reyktan, fyrirtaks þorskhrogn, fullkomnar fiskibollur og hrátt nautakjöt skafið, eitt hið bezta, sem við höfum fengið.
Hádegissnarl kostaði DKK 89 á mann. Ráðlegt er að panta borð.
(Amalie, Amaliegade 11, sími 12 88 10, opið mánudaga-föstudaga 11-16, D/E2)
Kanal-Caféen
Kanal-Caféen er gamall og sögufrægur hádegisverðarstaður í tveimur ellilegum og notalegum stofum rétt við Marmarabrú, afar lítið áberandi að utanverðu. Þar er lágt undir bitaloft, skipslíkön í gluggum, siglingamyndir á veggjum og fastagestir á reyrviðarstólum við dúkuð borð. Andrúmsloftið er gott og þjónustan snör.
Við prófuðum graflax, reyktan lax, lambarúllupylsu, heimalagaða kjötsultu og fornost, allt afar vel heppnað.
Hádegissnarl kostaði DKK 85 á mann, hið næstminnsta í þessari bók.
(Kanal-Caféen, Frederiksholms Kanal 18, sími 11 57 70, opið mánudaga-föstudaga 10:30-24, C4)
Rex
Café Rex heitir öðru nafni Hos fru Lind, lítil og fátækleg hádegisverðarstofa fastagesta, andspænis Skarfinum við Pilestræde. Innréttingar eru gamlar og slitnar, veggir þaktir ótal málverkum og steinprenti af ýmsu tagi og matseðillinn krítaður á töflu. Á veggjum eru fornir skápar og í lofti hanga þurrkuð blóm.
Frú Lind er kunnust fyrir ágæta síldarrétti. Við fengum hins vegar fyrirtaks rækjur í eggjahræru og nokkuð góða kjötsultu.
Hádegissnarl kostaði DKK 85 á mann, hið sama og í Kanal-Caféen. Nauðsynlegt er að panta borð.
(Café Rex, Pilestræde 50, sími 12 71 87, opið mánudaga-laugardaga 12-01, C3)
Bernstorff
Ódýrasti hádegisverðarstaðurinn í þessari bók er Bernstorff, andspænis aðaljárnbrautarstöðinni og við hlið Tivoli, snyrtileg matstofa með tandurhvítum borðdúkum og munnþurrkum úr taui, tívolílömpum yfir skenk og gömlum tívolíminjum á veggjum.
Frægast er hér hlaðborðið, frjálst val rétta af skenknum fyrir DKK 88, líklega eitt hið ódýrasta í bænum. Það leit óvenjulega lystarlega út, en við höfðum aðeins tíma til að fá okkur indælis laxakæfu og frábæran hrálax leginn. Þjónustan var sérstaklega þægileg.
Hádegisverðarsnarl kostaði DKK 83 og hefði kostað DKK107, ef hlaðborðið hefði verið valið.
(Bernstorff, Bernstorffsgade 7, sími 11 06 68, opið mánudaga-föstudaga 11:30-16:30, A/B5)
1981, 1989
© Jónas Kristjánsson
