Mikið úrval góðra hótela er í miðborg Kaupmannahafnar, þar sem mest hið skoðunarverða er, flest áhugaverðustu veitingahúsin og bjórkrárnar, skemmtana- og menningarlífið. Enginn ætti að vera í vandræðum með að finna hótel sér við hæfi á þessum slóðum gangandi fólks. Eini gallinn er, að svigrúm verðs, frá hinu dýrasta til hins ódýrasta, er þrengra en í flestum öðrum stórborgum, frá DKK 1.500 niður í DKK 680 á sumarvertíðinni.
Að dönskum hætti eru hótelherbergi yfirleitt tandurhrein og snyrtileg. Sími og sjónvarp þykja nokkurn veginn sjálfsögð alls staðar og eigið baðherbergi er fyrir löngu orðið að almennri reglu. Sum hótelin hafa verið innréttuð á listfenginn hátt innan í gömlum húsum og skara að því leyti fram úr öðrum hótelum, hvað þá hinum ópersónulegu keðjuhótelum.
Verðið er frá sumrinu 1987. Á veturna er yfirleitt slegið af því, oft um 20%. Flugleiðir og íslenzkar ferðaskrifstofur hafa þar að auki hagstæðari afsláttarsamninga við sum þessara hótela, einkum á veturna.
Nyhavn 71
Hótelið “okkar” í Kaupmannahföfn er Nyhavn 71, þar sem gott er að sofna í rúmlega tveggja alda gömlu húsi við opinn glugga og öldugjálfur hafnarinnar og vakna svo við eimpípur hraðferjanna, sem koma að morgni frá Málmey. Eða þá við lokaðan glugga og algeran frið.
Hótelið var byggt yzt á sporði Nýhafnar sem vöruhús fyrir salt og krydd, stóð af sér fallstykkjahríð Breta 1807, en dagaði svo uppi sem húsgagnageymsla á ofanverðri þessari öld. 1971 var því svo breytt í hótel við fögnuð borgaryfirvalda, sem veittu því tvenn verðlaun fyrir húsfriðun og borgarfegrun.
Þegar við nálgumst, er ekki auðvelt að sjá, að þetta sé hótel. Að ytra útliti ber það óbreyttan pakkhússvip og er fremur óárennilegt. Meira að segja lúnir gluggahlerarnir eru flestir hinir upprunalegu. Ekki er fyrr en að húsabaki, að við sjáum látlausan hótelinnganginn.
Hið innra hefur burðargrindin úr voldugri furu verið látin halda sér. Hún kemur skýrt fram í stoðum og bitum í hverju einasta herbergi. En inni í þessari gömlu beinagrind hefur verið komið fyrir flestum nútíma þægindum. Að búa á Nyhavn 71 er eins og að hverfa til fortíðarinnar á fyrsta farrými.
Töskur eru bornar fyrir okkur að siðmenntuðum hætti. Og hótelið er svo lítið, aðeins 82 herbergja, að starfsfólkið mundi eftir okkur og númeri okkar og var komið með lykilinn á loft, áður en eftir væri leitað. Nyhavn 71 er persónulegt hótel með góðu atlæti vingjarnlegs starfsfólks. En því miður hefur verðlag hótelsins hækkað hlutfallslega með árunum og vinsældunum.
Við biðjum alltaf um herbergi Nýhafnarmegin utarlega og með glugga, sem nær niður í gólf. Þannig er herbergi nr. 340, nýtízkulegt og þægilegt, en afar lítið, eins og önnur herbergi hótelsins. Þeir, sem vilja meira rými, geta pantað svítu í austurendanum, til dæmis nr. 225, þar sem fólk sekkur í leðursófa og persateppi.
Stóri glugginn og útsýnið víkka herbergið. Einkar notalegt er að sitja í djúpum hægindastól og njóta þess að skoða skip á ferð og flugi um innri höfnina og hafa litla truflun af umferð bíla, sem eiga raunar fá erindi út á þennan hafnarsporð. Úr hægindastólnum er svo aðeins fimm mínútna ganga til Kóngsins Nýjatorgs.
Í anddyrinu er lítill og ákaflega notalegur bar, ekkert líkur þeim, sem sjómenn eru sagðir hafa notazt við í Nýhöfn fyrri tíma. Í gamla daga mæltum við með veitingasal hótelsins, Pakhuskælderen, þótt hótelmatur sé sjaldan góður. Sú hefur líka orðið raunin, að við mælum ekki lengur með snæðingi á þessum stað.
Herbergi nr. 340 kostaði DKK 1.498 fyrir tvo, en tveggja manna herbergi fengust niður í DKK 1.078 og svíta nr. 225 kostaði DKK 1.938, allt að hlaðborðsmorgunverði meðtöldum.
(Nyhavn 71, Nyhavn 71, sími 11 85 85, telex 27558, E3)
Admiral
Frumlegasta hótel borgarinnar er Admiral, innréttað í rúmlega 200 ára kornþurrkunarhúsi við höfnina, aðeins steinsnar frá Amalíuborg og Kóngsins Nýjatorgi. Það er eitt fárra stórhýsa, sem stóð bæði af sér borgarbrunann 1795 og fallstykkjahríð Breta 1807.
Útliti hins stranga nytjahúss dansks kaupskapar hefur verið haldið. Innan dyra kemur hvarvetna í ljós grind hússins, þungar stoðir og bitar úr furu frá Pommern. Ekket stál og engin steypa er í þessu hóteli, en hins vegar er göngunum prýði að þykkum múrsteinsbogaveggnum eftir endilöngu húsinu.
Hótelinu svipar nokkuð til Nyhavn 71, en er mun stærra, 366 herbergja, og ópersónulegra, fullt af ráðstefnu- og ferðamannahópum
Við óskum eftir herbergi ofarlega við austurhliðina með útsýni til hafnarinnar, helzt uppi undir súð, þar sem herbergin eru raunar á tveimur hæðum. Niðri er forstofa, bað og setustofa, en uppi svefnloft. Slíkt fyrirkomulag gefur gott svigrúm, til dæmis handa fjölskyldu eða fyrir gestaboð.
Raunar eru önnur herbergi hótelsins einnig óvenjulega rúmgóð. Flest hafa þau Wiinblads-myndir og gamlar borgarmyndir á veggjum.
Milli hvíts strigans á veggjunum koma brúnir bitar og stoðir hússins greinilega fram. Undinn tréstigi liggur milli hæða. Niðri eru tveir góðir og leðurklæddir hægindastólar og tveggja sæta sófi, sem breyta má í rúm. Baðherbergið er stórt og flísalagt, svo sem venja er í Kaupmannahöfn. Ekkert sjónvarp er í herberginu og má það teljast óvenjulegt.
Tveggja manna og tveggja hæða herbergið nr. 6247 kostaði DKK 980 og venjulega tveggja manna herbergið nr. 2289 kostaði DKK 815.
(Admiral, Toldbodgade 24-28, sími 11 82 82, telex 15941, E3)
Park
Þriðja vildarhótel okkar í miðbænum er hið litla, 66 herbergja Park við Jarmers Plads, þar sem mætast Vester Voldgade og Nørrevoldgade. Það er ódýrara en flest hótelin í þessum kafla, en býður þó gamaldags þægindi á borð við burð á töskum upp á herbergi, svo og nútímatækni á borð við hárþurrku. Þjónusta reyndist okkur notalega dönsk.
Ónæðissamt er í hinum upprunalega hluta hótelsins, sem snýr að umferðinni á Jarmers Plads. Hins vegar er rólegt í álmu, sem nýlega var innréttuð í gömlu bakhúsi. Þar sést bindingsverkið í sumum herbergjum.
Þau eru hvert með sínu sniði. Nr. 102 er stórt og glæsilegt, með sérstökum setukrók, frístandandi skrifborði, marmaraflísuðu baðherbergi og þremur stórum gluggum út að torginu. Nr. 402 er minna og rólegra, en einnig afar vel búið húsgögnum og öðrum þægindum. Nr. 315 er minnst, en rómantískast, með bindingsverki í vegg. Öll voru þau gersamlega óslitin sem ný væru, búin fyrirtaks baðherbergjum.
Síðastnefndu tveggja manna herbergin kostuðu DKK 710, en hið fyrstnefnda DKK 900.
(Park, Jarmers Plads 3, sími 13 30 00, telex 15692, A3)
Plaza
Bezta hótel borgarinnar er sem fyrr Plaza við hlið aðaljárnbrautarstöðvarinnar, þótt Sheraton-keðjan hafi klófest það, þótt Denna hafi ekki líkað að vera þar, þótt veitingasalurinn Baron of Beef hafi glatað fyrri virðingu og þótt það hafi sett dálítið niður við ferðamannahópa. Það er jafndýrt og Angleterre, en nokkru minna, 96 herbergja, og persónulegra, svo að starfsfólk þekkti gesti strax með nafni og herbergisnúmeri.
Þungur viður og þykkt leður eru einkennistákn hótelsins. Allt tal rennur út í hvísl á svo virðulegum stað, þar sem bókasafnsbarinn í miðju húsi er hápunkturinn. Annar eins glæsibragur í notalegum stíl er sjaldséður á hóteli, enda koma menn víða að til að sjá Library Bar á Plaza.
Úr virðulegu anddyri flytur ákaflega glæsileg glerlyfta með daglegu spakmæli okkur upp til herbergis, þar sem bíða okkar notalegar og stórar vistarverur. Herbergi nr. 602, sem við gistum síðast, er nokkuð óvenjulegt, undir súð, búið húsgögnum í gömlum stíl, en herbergi nr. 408 er með hefðbundnara sniði, bæði jafnglæsileg.
Þessi tveggja manna herbergi kostuðu DKK 1.350. Verð slíkra herbergja var á bilinu DKK 1.150-1.550.
(The Plaza, Bernstorffsgade 4, sími 14 92 62, telex 15330, A5)
Palace
Glæsilegustu hótelherbergi borgarinnar eru þau, sem snúa út að Ráðhústorginu — á Palace, þar sem Guðsgjafaþula Halldórs Laxness segir, að Íslandsbersi hafi haldið fræga veizlu sænskum síldarkaupmönnum og ýmsu skrítnu fólki. Hótelið ber einkar virðulegan svip við torgið, ekki sízt vegna voldugs turnsins, sem dregur athygli torgfara að sér.
Lengi var Palace í niðurníðslu, en nú hefur það verið gert glæsilega upp. Í þjónustu jafnast það þó engan veginn á við Plaza og Angleterre, en herbergin eru bæði víðáttumikil og sérstök að vönduðum og ríkmannlegum frágangi.
Úr herbergi nr. 308 er frábært útsýni af litlum svölum beint á Lúðurþeytara Wagners og yfir sjálft torgið. Þegar svalahurðunum er lokað, ríkir alger friður fyrir innan. Virðulegri innréttingar höfum við ekki séð á mörgum hótelum.
Verðið var DKK 1.395, fyrir tvo. Morgunverður var innifalinn.
(Palace, Rådhuspladsen 57, sími 14 40 50, telex 19693, B4)
Angleterre
Fína hótelið í borginni er Angleterre, eitt elzta lúxushótel heims, stofnað fyrir 226 árum. “Hvíta norðurfrúin” hefur æ síðan verið áningarstaður konunga og forseta, virðingar- og snobbfólks, hótelið á bezta stað borgarinnar. Lengi hefur það lifað að nokkru á fornri frægð og gerir sumpart enn, þótt það sé farið að sækjast eftir ferðahópum. Það er fremur lítið, hefur aðeins 139 herbergi.
Angleterre ber sig glæsilega við Kóngsins Nýjatorg, skyggir fannhvítt á Akademíuna og hið Konunglega sem væru þær hallir hesthús hótelsins. Að innan er það ekki eins glæsilegt, því að endurbætur, sem hófust fyrir minnst sjö árum, stóðu enn, þegar þessi útgáfa bókarinnar var gerð.
Burðarmaðurinn ræddi um Halldór Laxness og Vigdísi Finnbogadóttur sem gamla vini meðan hann vísaði til stórs herbergis, vel búnu húsgögnum, sem eru hvorki nýtízkuleg né forngripir. Stíllinn er ekki eins ákveðinn og næmur og á Plaza og Palace, en allur búnaður er í bezta lagi. Eins og önnur herbergi fjórðu hæðar hefur það svalir út að götunni.
Tveggja manna herbergið nr. 427 kostaði DKK 1.350.
(Angleterre, Kongens Nytorv 34, sími 12 00 95, telex 15877, D3)
Opera
Lítið og gott hótel, vel í sveit sett að baki Konunglega leikhússins, er hið 66 herbergja Opera með þægilegum og rúmgóðum bar, sem margir nota fyrir og eftir sýningar. Það hefur virðulegan brag og þægilegt starfsfólk, sem þekkti gesti með nafni.
Herbergi nr. 316 er afar flókið í laginu og snýr raunar í tvær áttir. Fremst er forstofa með skáp, síðan setustofa og hornrétt á hana svefnkrókur með fullflísuðu baðherbergi. Á milli stofanna er gamalt púlt, sem gott var að nota til að skrifa við.
Herbergið kostaði DKK 1.148 fyrir tvo, en hægt var að fá tveggja manna herbergi niður í DKK 898. Morgunverður af hlaðborði var innifalinn.
(Opera, Tordenskjoldsgade 15, sími 12 15 19, telex 15812, D3)
Richmond
Richmond er fremur lítið, 135 herbergja hótel nálægt skrifstofu Flugleiða við Vester Farimagsgade og er kunnast fyrir að hýsa bezta veitingasal borgarinnar, Cocotte. Hótelið er rólegt, en ráðlegt er að panta herbergi, sem snúa frá umferðargötunni.
Herbergi nr. 502, sem snýr því miður að götunni, er fremur rúmgott og í dálítið íhaldssömum Norðurlandastíl, virðulegt að innréttingu og vandað að öllum búnaði. Það kostaði DKK 990 fyrir tvo, en hægt var að fá betri herbergi allt upp í DKK 1.275. Öll verð fela í sér morgunverð af hlaðborði.
(Richmond, Vester Farimagsgade 33, sími 12 33 66, telex 19767, A3)
Neptun
Neptun er lítið, 60 herbergja hótel, sem er vel sett í næsta nágrenni Kóngsins Nýjatorgs, á svipuðum slóðum og hótelin Nyhavn 71 og Admiral. Það státar af litlum hótelgarði að húsabaki og af virðulegum og gömlum húsgögnum í nokkrum stofum inn af móttökunni. Hádegisverðarstaðurinn Sankt Annæ er við hlið hótelsins.
Herbergi nr. 204 er fremur þröngt hornherbergi, sem snýr að kyrrlátum hótelgarðinum. Það er einkar snyrtilegt og vel búið, þar á meðal hárþurrku og buxnapressu. Verðið var DKK 850 fyrir tvo, en hægt var að fá stærri herbergi fyrir DKK 900. Morgunverður af hlaðborði var innifalinn.
(Neptun, Sankt Annæ Plads 18, sími 13 89 00, telex 19554, D/E3)
Ascot
Gamall vinur okkar er hið litla, 58 herbergja Ascot rétt hjá Ráðhústorginu. Það er eitt vingjarnlegasta hótel borgarinnar, friðsælt og heimilislegt, allt fullt af blómskrúðsmyndum eftir Björn Wiinblad, sem er eins konar blómálfur hótelsins.
Herbergi nr. 103 er fremur lítið, en vel búið að öllu leyti. Það kostaði DKK 890 fyrir tvo, en hægt var að fá minni herbergi niður í DKK 690. Við höfum gist á einu slíku, nr. 305 og það var einnig ágætt. Morgunverður var innifalinn.
(Ascot, Studiestræde 57, sími 12 60 00, telex 15730, A4)
Danmark
Rétt að baki ráðhússins, í nýlegu húsi, er mjög lítið hótel, Danmark, með aðeins 49 herbergjum, afar vel í sveit sett og tiltölulega ódýrt. Herbergi nr. 508 er nýlega innréttað og snýr stórum gluggum út að götunni, en er þó einkar friðsælt. Baðherbergið er gott og flísalagt. Verðið var DKK 725 fyrir tvo, að morgunverði inniföldum.
(Danmark, Vester Voldgade 89, sími 11 48 06, B4)
Mayfair
Nú er búið að gera upp gamla missionshótelið Westend í Helgolandsgade og skíra það Mayfair. Herbergin, 126 að tölu, eru komin með nýjasta búnað, þar á meðal hárþurrku og buxnapressu. Verðið var samt ekki nema DKK 720 fyrir tvo, meðtalinn morgunverður af hlaðborði.
(Mayfair, Helgolandsgade 3, sími 31 48 01, telex 27468, A5)
Hebron
Andspænis Mayfair við Helgolandsgade er gamla og góða missionshótelið Hebron, sem mörgum hefur veitt húsaskjól fyrir tiltölulega vægt gjald. Verðið á tveggja manna herbergi var hið lægsta í þessari bók, DKK 680, að meðtöldum morgunverði af hlaðborði.
(Hebron, Helgolandsgade 4, sími 31 69 06, telex 27416, A5)
1981, 1989
© Jónas Kristjánsson
