Kast af fortíðarþrá

Veitingar

Varfærnislega gaukaði ég mér á nýliðann Le Bistro á horni Laugavegar og Smiðjustígs. Eigandinn hefur nefnilega atast í umsagnaraðilum á TripAdvisor og sagt einn geðsjúkan. Staðurinn reyndist framar vonum, í frönskum stíl eftirstríðsáranna, með krítartöflum, pósterum og furðuhlutum á veggjum. Þarna er hefðbundna eldhúsið frá árunum áður en Cuisine Nouvelle sigraði heiminn. Fiskipottur var vel frambærilegur í hádeginu á 2000 krónur, fiskhlunkar og kartöflur í tómatsúpu. Cesar-salat var la-la eins og chardonnay hvítvínið. Notaleg þjónusta. Kem aftur, þegar ég finn fyrir öðru kasti af fortíðarþrá.