Kambsfell

Frá mótum Bárðargötu og Gæsavatnaleiðar um Kambsfell að Nýjadal á Sprengisandi.

Við Hagakvíslar liggur leiðin nærri Tómasarhaga. Fyrrum höfðu hestamenn beit þar. Björn Gunnlaugsson segir árið 1841: “Undir fellinu, þeim megin sem snýr frá jöklinum, eru sléttir melar og á þeim miðjum er grasflötur framundir kýrvöllur að stærð sem er Tómasarhagi.” Þá töluðu Bárðdælingar um hinn “ágæta töðuvöll”. En 1871 voru þarna engir hestahagar lengur og hafa síðan ekki verið. Nú er þarna gulbleik mosabreiða í eyðimörkinni.

Jónas Hallgrímsson á samt minningu þjóðarinnar í ljóðinu Tómasarhaga: “Tindrar úr Tungnajökli, / Tómasarhagi þar / algrænn á eyðisöndum / er einn til fróunar. / Veit eg áður hér áði / einkavinurinn minn, / aldrei ríður hann oftar / upp í fjallhagann sinn. / Spordrjúgur Sprengisandur / og spölur er út í haf; / hálfa leið hugurinn ber mig, / það hallar norður af.”

Byrjum á vegamótum Bárðargötu og Gæsavatnaleiðar norðaustan Tungnafellsjökuls. Förum til vesturs fyrir norðan Fossaleiti og sunnan Kambfell. Síðan suðvestur með Tungnafellsjökli framhjá Öxl að Hagakvíslum og þaðan suðvestur að fjallaskálanum í Nýjadal.

26,7 km
Þingeyjarsýslur, Rangárvallasýsla

Skálar:
Nýidalur: N64 44.103 W18 04.323.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög, Vonarskarð, Fjórðungsalda, Nýidalur.
Nálægar leiðir: Gásasandur, Gæsavötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort