Kaldidalur

Frá Hallbjarnarvörðum og Biskupsbrekku um Kaldadal til Húsafells í Hálsasveit.

Löng dagleið, um 70 km frá Þingvöllum. Tólf tíma lestargangur var frá Hofmannaflöt undir Meyjarsæti til Húsafells. Alltaf fjölfarin, þótt langt væri milli byggða í samanburði við vestari leiðir. Rudd 1830, fyrst fjallaleiða á Íslandi.

Skúlaskeið er stórgrýttur kafli Kaldadalsleiðar. Grímur Thomsen orti um það kvæði. Fjallar um Skúla, sem dæmdur var til lífláts á Alþingi. Honum tókst að forða sér á viljugum og öflugum hesti sínum, sem Grímur nefnir Sörla. Á Skúlaskeiði barði hesturinn grjótið og dró ekki af sér. Þar drógust eftirreiðarmenn hans hins vegar aftur úr. Í kvæði Gríms er þessi hending: “Hann forðaði Skúla undan fári þungu / fjöri sjálfs sín hlífði klárinn miður; / og svo með blóðga leggi, brostin lungu / á bökkum Hvítár féll hann dauður niður.”

Förum frá Hallbjarnarvörðum og Biskupsbrekku í 350 metra hæð. Fylgjum bílslóðinni norður um graslendið Brunna og Brunnahæðir, síðan um Leirárdrög í grastunguna Egilsáfanga og hjá vörðunni Kerlingu við vesturenda Hrúðurkarla. Frá Kerlingu er frábært útsýni til allra átta. Við förum áfram norður milli Lyklafells og Oks að vestanverðu og Þórisjökuls að austanverðu. Sá kafli vegarins heitir Langihryggur og fer í 700 metra hæð. Vestan Syðra-Hádegisfells tekur við Skúlaskeið. Áfram förum við vestan við Nyrðra-Hádegisfell og niður Lambártungur að Geitá. Þar beygjum við til vesturs með ánni og förum norðan Selfjalls eftir reiðslóð um Húsafellsskóg og vestur í Húsafell í 120 metra hæð.

39,7 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.
Kaldidalur: N64 26.840 W20 57.711.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Okvegur, Reyðarvatn, Skjaldbreiður, Skessubásavegur, Múlaskógur, Húsafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson