Kaldbaksland

Sportleið umhverfis Kaldbaksfjall, öll í landi Kaldbaks.

Stuttur hvíldardagur fyrir þá, sem eru á leið í eða úr Helgaskála eða Hallarmúla, Gnúpverjahreppi eða Biskupstungum. Frá Kaldbak förum við Fjallmannaleið að Hrossatungum, þaðan niður brekkur að Stóru-Laxá og til baka slóðina milli Hrunakróks og Kaldbaks. Öll þessi leið er gróin. Á Kaldbak er gistihólf, traust skiptigerði og hnakkageymsla fyrir ferðahesta, mikið notað af Íshestum.

Förum frá hlaðinu á Kaldbak um hlið í heimahagann umhverfis Bæjarás. Með girðingu í átt að Kaldbaksfjalli, síðan um hlið á girðingu upp í úthagann. Þaðan norðaustur með Hömrum, austur og upp í Skál, svo austur í Hrossatungur, þar sem við sveigjum austur fyrir Kaldbaksfjall. Þar förum við niður Hrísaás fyrir vestan Þverárgljúfur niður á slóðina milli Hrunakróks og Kaldbaks. Hún liggur milli Stóru-Laxár og Kaldbaksfjalls, undir Tjaldbúð og yfir Skúlahvamm. Þar liggur þverslóð af leiðinni niður að Stóru-Laxá og yfir hana á Kaldbaksvaði. Við förum hins vegar beint áfram upp endann á Innra-Einarsholti austan Kaldbaksvatns, síðan yfir Stekkatúnsmýri neðan við beitarhús frá Kaldbaki, þar sem áður var eyðibýlið Kaldbakshrísar. Áfram yfir Tjarnarflóð að svo dráttarvélaslóð yfir hálsana milli Stóru-Laxár og Kaldbaks. Fyrst förum við Eystriháls og síðan Heimriháls. Ofan af honum sjáum við yfir Skyrflöt niður að bæjarhúsum á Kaldbak.

10,4 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Kaldbakur, Kaldbaksvað, Fagridalur, Laxárgljúfur, Fjallmannaleið.
Nálægar leiðir: Laxárdalsvað, Stóra-Laxá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson