Jökulsárvöð

Jökulsá á Fjöllum.

Jökulsá á Fjöllum er núna hvergi reið nema um kvíslarnar suður undir Vatnajökli og þarf þá að fara varlega og með mikilli þekkingu á vöðum og sandbleytum. Sú leið er kölluð Vatnajökulsvegur og var nokkrum sinnum farin á síðari öldum, 1794-1839. Hún er á korti Björns Gunnlaugssonar 1849.

Í Ljósvetningasögu segir frá ferð Þorkels Geitissonar til Þorsteins Síðu-Hallssonar: “Um sumarið búast þeir heiman að með sex tigu manna hvorir og ríða til Jökulsár. En þá voru góð vöð á ánni víða. Þar skiptu þeir liði. Þorkell og Þorsteinn og þrír aðrir fóru alfaraleið til Vaðlaþings, en flokkurinn allur fór fyrir ofan Mývatn til Króksdals og Bleiksmýrardals og svo fyrir neðan heiði.” Þeir fóru yfir Jökulsá við Ferjufjall eins og Sámur í Hrafnkels sögu Freysgoða. Sámur fór norður til Brúar á Jökuldal og þaðan yfir Möðrudalsheiði og gisti í Möðrudal um nótt. Þaðan fór hann til Herðubreiðartungu og fyrir ofan Bláfjall, síðan í Króksdal við Skjálfandafljót og suður Sprengisand til Sauðafells og loks til Þingvalla.

Þegar Hrafnkels saga Freysgoða og Ljósvetningasaga voru skrifaðar, fóru menn yfir ána hjá Ferjufjalli suðvestan Möðrudals og síðan vestur Biskupaleið um Suðurárbotna yfir á Sprengisand eða norðvestur um Almannaveg beint til Mývatns. Þá eru sögð fleiri vöð á ánni. Síðar var sett ferja við Ferjufjall. Umdeilt er, hvort þetta er hin sanna biskupaleið. Þá leið fóru Skálholtsbiskupar ítrekað að vísitera á Austurlandi 1632-1720. Þessi leið yfir Ódáðahraun er samt kölluð Biskupaleið og hún er enn vörðuð og hefur verið kortlögð með GPS. Ferjan var síðan færð norður að Ferjuási gegnt Víðidal og loks nálægt því, sem brúin er núna gegnt Grímsstöðum. Ekki er vitað um ártöl í þessu sambandi. Ljóst er, að vatn hefur verið mun minna í Jökulsá á Fjöllum fyrir sagnatíma Íslendingasagna, en hafa lagzt af á sagnatímanum. Áður voru “góð vöð á ánni víða” og þá var enn vað við Ferjufjall, en síðar varð öll áin óreið. Ekki er vitað um ártöl á vöðum frekar en um ártöl á ferjustöðum.

XXX km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir göngufólk
Athugið nýtt hraun 2014-2015

Nálægar leiðir: Vatnajökulsvegur, Biskupaleið, Veggjafell, Almannavegur, Gestreiður, Leiðaskarð, Byttuskarð, Sænautafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Ýmsar heimildir, Árbók Ferðafélagsins 1968.