Jakob vill bjóða út leyfi

Greinar

Jakob Jakobsson fiskifræðingur hefur lagt til, að sölu veiðileyfa, jafnvel til hæstbjóðandi, verði beitt við takmörkun hringnótaveiða á næstu síldarvertíð. Jakob vill, að einungis tíu hringnótabátar fái veiðileyfi, og telur uppboð veiðileyfa koma til greina, ef fleiri en tíu bátar sækja um.

Þar með er hugmyndin um sölu á aðgangi að takmarkaðri auðlind orðin að formlegri tillögu vísindamanns. Tillagan fjallar að vísu aðeins um takmarkað svið íslenzkra fiskveiða, en gæti hæglega orðið upphaf mun víðtækari tillagna í svipuðum dúr.

Dagblaðið hefur árum saman mælt með, að sala veiðileyfa verði meginaðferðin við skipulag fiskveiða við Ísland. Á þann hátt megi slá tvær flugur í einu höggi, tempra veiðina annars vegar og ná hámarksárangri á hverja sóknareiningu hins vegar.

Til að ná hámarksárangri á sóknareiningu þarf að takmarka fjölda skipanna eða samanlagða brúttótonnatölu skipanna. Jafnframt má ekki setja hverju skipi ákveðinn veiðikvóta, þótt það komi fram í tillögu Jakobs, að 2000 tonn síldar komi í hlut hvers hringnótaskips.

Ákveðnir magnkvótar valda þvi, að bezti skipstjórinn með beztu áhöfnina á bezta skipinu verður að hætta veiðum á undan lélegasta skipstjóranum með lélegustu áhöfnina á lélegasta skipinu. Þar með verður heildarsóknin ekki eins arðbær og annars hefði orðið.

Skiljanlegt er, að fiskifræðingur sé hræddur við að geta ekki bundið veiðina klárt og kvitt við ákveðna tonnatölu. Hins vegar gæti Jakob alveg áætlað afla á skip við frjálsar aðstæður og síðan skipt leyfilegum heildarafla á færri skip en tíu.

Hvers vegna 2000 tonn sinnum tíu skip? Af hverju ekki 4000 tonn sinnum fimm skip, eða 20.000 tonn sinnum eitt skip? Málið hlýpur að vera að ná leyfilegum hámarksafla með sem fæstum mönnum, minnstri fjárfestingu, minnstri olíu og minnstum öðrum rekstrarkostnaði.

Jakob leggur til, að reknetabátar hafi áfram nokkuð frjálsar hendur á síldveiðum, þótt þessar auknu hömlur verði lagðar á hringnótabátana. Sú mismunun stafar auðvitað af því, að reknetabátarnir koma með betra hráefni að landi en hringnótabátarnir.

Slík tillaga um skiptingu veiða milli tveggja veiðiaðferða er auðvitað af stjórnmálalegum Salómonstoga spunnin. Það er verið að hleyna að bæði stórum skipum og litlum skipum, friða tvo þrýstihópa.

Eðlilegra væri að meta fiskifræðilega og rekstrarfræðilega, hvor veiðiaðferðin væri heppilegri á grundvelli þeirrar formúlu Jakobs, að “sjávarauðlindir Íslendinga verði nýttar á sem hagkvæmastan hátt miðað við afrakstursgetu eða veiðiþol hílerju sinni.”

Sumir halda því fram, að hringnótin sé heppilegri, af því að með henni náist mestur afli með minnstri sókn. Aðrir segja, að þetta gildi ekki, því að annars vegar fari hluti hringnótaaflans í tiltölulega verðlitla bræðslu og hins vegar þurfi að nýta takmarkaða auðlind til hámarksverðs.

Dagblaðið er þeirrar skoðunar, að unnt sé að reikna þessi sjónarmið til sæmilega öruggrar niðurstöðu. Hagkvæmnin verði síðan látin ráða, en ekki pólitísk málamiðlun milli tegunda skipa og veiðarfæra.

Jakob Jakobsson er á réttri leið í tillögu sinni, þótt hér hafi verið bent á, að hann fylgir ekki rökum sínum til fulls, heldur staðnæmist á miðri leið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið