Úrslit borgarstjórnarkosninganna gáfu vísbendingu um, að áróðursgildi hinna flokkspólitísku dagblaða væri lítið og í sumum tilvikum jafnvel neikvætt.
Síðustu tvær vikurnar var Morgunblaðið gersamlega undirlagt af kosningaáróðri af öllum blæbrigðum litrófsins. Hræðsluáróður blaðsins um misrauða bolsa á vinstri væng, er ekki gætu komið sér saman um borgarstjóra, náði hámarki í ruglinu um borgarstjóraefnið Karl Marx.
Á hinn og fínni bóginn birti blaðið svo fermetra eftir fermetra af klígjusætum spariviðtölum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins. Þetta hvort tveggja og öll hin blæbrigðin komu fyrir ekki. Fylgið hrundi af flokknum.
Áróður Alþýðublaðsins skipti litlu máli, þótt ritstjórnin hamaðist á hinum átta daglegu síðum blaðsins. Í meira en viku lá útkoma blaðsins niðri. Og þegar það kom svo út aftur, var það eins og venjulega lesið af fáum. Útbreiðsla blaðsins er svo lítil. Samt vann Alþýðuflokkurinn stórsigur í Reykjavík.
Erfiðara er að sjá hreinar línur í samanburði á kosningabaráttu Þjóðviljans og útkomu Alþýðubandalagsins. Auðvelt er þó að sjá, að flokkurinn fékk stuðning langt út fyrir lesendahóp Þjóðviljans, sem er næsta þröngur.
Ekki er trúlegt, að lítil útbreiðsla Þjóðviljans hafi magnað fylgi Alþýðubandalagsins. Hitt er sennilegra, að flokknum hafi lánazt einstaklega vel persónusköpun í hinum pólitísku sjónvarpsþáttum fyrir kosningarnar.
Um Tímann og Framsóknarflokkinn má vitna til greindarlegra orða Jóns Sigurðssonar, ritstjórnarfulltrúa Tímans: “Eitt er það, sem ef til vill mun furða marga, hve lítil áhrif blaðaskrif flokksblaða virðast hafa haft á úrslitin”.
Jón benti á, að Tíminn hefði varla birt orð um hina tvísýnu kosningabaráttu í Kópavogi og að þar hefði framsóknarmönnum samt farnazt tiltölulega vel. Blaðið hefði eytt púðri sínu á baráttuna í Reykjavík, en samt hrundi fylgið þar af flokknum.
Tiltölulega hófsamleg kosningabarátta Vísis í þágu Sjálfstæðisflokksins gat ekki heldur hindrað fylgishrun flokksins. Blaðið gætti þess að tala undir rós í leiðurum og birti í þess stað töluvert af greinum kunnra manna. Yfir 90% þeirra greina voru eftir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins.
Dagblaðið gegndi allt öðru hlutverki í kosningabaráttunni en hin flokkspólitísku blöð. Í leiðurum blaðsins var ekki dreginn taumur neins aðilans. Dagblaðið gagnrýndi sumt í fari þáverandi meirihluta og lofaði annað.
Í kjallaragreinum Dagblaðsins gátu lesendur svo kynnt sér allt litróf stjórnmálanna, allt frá því, sem var yzt til hægri, til hins, sem var yzt til vinstri.
Þá fór Dagblaðið um allt land, kom við í yfir 40 kaupstöðum og kauptúnum og birti viðtöl við fólk á götunni og frambjóðendur allra lista. Þetta gerði blaðið að tillögu manna úr öllum landshornum. Þeir töldu, að með slíkum hætti fengju kjósendur betri sýn yfir moldviðri áróðurs flokksblaðanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið