Já, værum við í Eden.

Greinar

“Einn skuttogara og skóla á mann, fríar íbúðir og matvæli, daglegan ný- iðnað og algert skattfrelsi.” Þetta er ýkt mynd, en þó með sannleikskjarna, af óskhyggjustefnu allra íslenzku stjórnmálaflokkanna. Þeir vilja gera allt fyrir ekkert.

Þessi óskhyggjustefna leiðir til allt annars raunveruleika, það er árlegrar útþenslu ríkisgeirans á kostnað annarra geira þjóðfélagsins. Stjórnmálamenn þurfa sífellt meiri peninga til að efna lítið brot loforða sinna.

Mikið óskaplega væri það fersk og hressileg tilbreytni, ef einhver stjórnmálaflokkurinn eða landsfaðirinn gengi fram fyrir skjöldu og segði sannleikann, – ef hann vildi gera svo vel að byrja á byrjuninni.

Við höfum svo og svo miklar þjóðartekjur á ári. Þessar þjóðartekjur eru sumpart notaðar til neyzlu og sumpart til fjárfestingar. Þær eru líka sumpart notaðar af hinu opinbera, atvinnuvegunum og almenningi.

Það er hægt að hafa skoðun á æskilegum hlutföllum þessara þátta. Til dæmis, að fólkið skuli nota 74% þjóðartekna, hið opinbera 14% og atvinnulífið 12%. Slíkt mundi byggjast á mati á, hvaða geirar þjóðfélagsins eigi að hafa meiri forgang en aðrir.

Sumir mundu segja, að atvinnulífið þyrfti meira til hraðari uppbyggingar þjóðarauðs. Aðrir mundu segja, að velferðarríkið þyrfti meira til hraðara réttlætis. Aðrir mundu segja, að fólkið sjálft þyrfti meiri rauntekjur.

Hægt er að sundurgreina þessar prósentutölur enn frekar. Til dæmis, að einkaneyzla (rauntekjur) skuli vera 68% þjóðartekna, samneyzla (rekstur hins opinbera) 8%, fjárfesting í íbúðum 6%, í atvinnuvegum 12% og 6% hjá hinu opinbera.

Þessi raunsæja hugsun, að milli verðmæta verði að velja, krefst sennilega nýrrar tegundar þjóðhagsreikninga. Þar þyrfti að koma fram, að sum fjárfesting ríkisins, til dæmis í orkuverum og hitaveitum, er atvinnulífs eðlis.

Burtséð frá slíkum annmörkum, sem leysa má, er líka hægt að sundurgreina liðina enn frekar. Sem dæmi má nefna samneyzluna og opinberu fjárfestinguna, sem samanlagt eru viðfangsefni fjárlaga ríkis og fjárhagsáætlana sveitarfélaga.

Einhvern tíma kemur að því, að alþingi og ríkisstjórn neyðast til að standa andspænis þeirri staðreynd, að niðurstöðutala fjárlaga sé föst og fyrirfram ákveðin. Hún sé hreinlega byggð á pólitísku mati á hluta ríkisbús í þjóðarbúi.

Þar með er komið upplagt tækifæri til að velja og hafna í einstökum þáttum ríkisbúskaparins. Þá er ekki reiknað á ímynduðum þörfum, nýjum eða hefðbundnum. Í staðinn er byggt á því fé, sem er til ráðstöfunar. Þegar til dæmis er búið að ákveða, að ríkið fái 6% þjóðartekna til rekstrar og 4% til fjárfestingar, er hægt að skipta fénu niður á einstaka þætti. Svo og svo mikið til menntamála, utanríkismála, landbúnaðarvitleysu o.s.frv.

Þannig gætu stjórnmálaflokkarnir minnkað möguleika á hinu gífurlega tjóni, sem þeir nú valda almenningi og atvinnulífi með gegndarlausri óskhyggju, er byggist á notkun þjóðartekna, sem ekki eru til.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið