Íslenzka stjórnkerfið byggist tiltölulega mikið á sjálfstæðum embættismönnum, sem gegna alhliða hlutverkum á sérsviðum sínum. Þeir verða gífurlega valdamiklir, hver á sínum bás.
Hinn sjálfstæði embættismaður semur frumvörp til laga um sérsvið sitt. Stofnun hans stundar rekstur, sem kann að vera í meiri eða minni samkeppni við aðila úti í bæ. Jafnframt hefur embættismaðurinn eftirlit með þeim einkarekstri, sem fellur að hans sviði.
Landið er fullt af stjórum, veiðimálastjóra, siglingamálastjóra, brunamálastjóra, yfirdýralækni og öðrum stjórum af öllu hugsanlegu tagi. Þessir stjórar starfa meira eða minna án afskipta viðkomandi ráðuneyta.
Þetta kerfi hefur stundum ágæt áhrif, þegar um er að ræða einstaka dugnaðar- og hæfnismenn, sem jafnframt hafa ekki áhuga á að verða einræðisherrar. En það getur líka verið ákaflega hættulegt. Það hefur tilhneigingu til að framleiða einræðisherra.
Þegar stjóri er látinn semja frumvarp til laga um sérsvið sitt, hefur hann tilhneigingu til að orða það á þann hátt, að eftirlitsvöld stofnunar hans verði sem mest. Alþingismenn eru fáfróðir um málefnið og gæta ekki að sér, samþykkja frumvarpið nær óbreytt.
Stjórinn hefur líka tilhneigingu til að koma inn í frumvarpið ákvæðum, sem fjölga starfsþáttum stofnunar hans og stækka hana á þann hátt. Hann fær sér rannsóknastöð, sem kann að lenda í neinni samkeppni við þann einkarekstur, sem stofnunin á að fylgjast með.
Ekki er nauðsynlegt, að stjórinn stefni markvisst að þessu. Hann fellur bara fyrir freistingum valdsins og kemur vítahringnum ósjálfrátt af stað. Hann verður einræðisherra án þess að hafa í upphafi sótzt eftir því.
Veiðimálastjóri er gott dæmi um einræðisherra í embættismannastétt. Samkvæmt lögum og reglugerðum á hann í stóru og smáu að hafa eftirlit með laxveiðum og laxeldi. Enginn má hreyfa sig hið minnsta án leyfis frá veiðimálastofnuninni.
Einstaklingar í atvinnugreininni eiga um tvennt að velja. Annað hvort kyssa þeir tær einræðisherrans til að ná sínum leyfum og undanþágum. Eða þá að þeir rífa kjaft og ná ekki sínum leyfum og undanþágum. Þeir lenda Í vandræðum eins og Skúli á Laxalóni.
Veiðimálastjóri rekur laxeldisstöð, sem hefur átt erfitt í samkeppninni við Laxalón. Hann hefur átt í útistöðum við Skúla út af regnbogasilungi. Þar fékk hann stuðning annars stjóra, sem hefur gífurleg völd vegna mæðiveikinnar og lætur eins og þekkingin hafi staðið í stað, síðan menn misstu þá veiki inn í landið. Stjórarnir reyndust hafa rangan málstað í regnbogasilungnum.
Eðlilegt er, að menn efist um, að opinberir einræðisherrar, sem eru í samkeppni við undirokaða einkaaðila og elda við þá grátt silfur, séu réttir dómarar yfir þeim aðilum, sem rífa kjaft í stað þess að kyssa tær.
Einræðisherrar eiga erfitt með að vera réttdæmir, enda þótt þeir séu allir af vilja gerðir. Þess vegna þarf að endurskoða hið íslenzka kerfi opinherra einræðisherra.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið