Íran sem kom á óvart

Greinar

Vesturlandabúum kom á óvart upplausnin í Íran, sem leidddi til flótta keisarans úr landi. Fjölmiðlar á Vesturlöndum höfðu ekki fjallað á þann hátt um Íran, að menn byggjust við slíkum atburðum.

Fréttastofur og fjölmiðlar höfðu átt þátt í að móta ranga mynd af Íran og keisaranum. Sú mynd var af menntuðum einvaldi, sem var að reyna að flytja forneskjulega þjóð sína til nútímans. Hann væri að vísu strangur landsfaðir, en réttlátur.

Það gleymdist stundum, að bæði keisarinn og faðir hans, fyrri keisari, voru valdaræningjar, sem tóku völdin af lýðræðislegum stofnunum. Fréttamenn áttuðu sig ekki á, að þjóðir Írans kærðu sig ekki um keisara til að segja sér fyrir verkum.

Það gleymdist stundum, að getuleysi og spilling blómstraði á valdaskeiði koísarans. Færir menn voru reknir úr embættum, af því að þeir höfðu sjálfstæða hugsun. Keisarinn sjálfur, ættmenn hans og vildarvinir rökuðu svo saman milljörðum á svindlbraski.

Það gleymdist stundum, að keisarinn byggði völd sín ekki aðeins á herforingjum með fullar hendur nýtízkulegra leikfanga, heldur ekki síður á harðskeyttri leynilögreglu, sem ofsótti á ýmsa lund alla þá, sem grunaðir voru um andstöðu við keisarann.

Alþjóðlegum fréttastofum og vestrænum fjölmiðlum hlýtur að vera þetta alvarlegt umhugsunarefni. Fréttamennirnir í Íran hljóta að hafa varið meiri tíma í glæsihöllum en skúmaskotum borganna.

Víða eru valdhafarnir erlendum fréttamönnum fjötur um fót. Frá slíkum ríkjum er skiljanlega erfitt að fá áreiðanlegar upplýsingar um ástand mála. En Íran var opið fréttamönnum og þaðan átti að vera hægt að fá réttar upplýsingar um hugmyndir íbúanna.

Hvernig má það gerast, að Íranir ganga skyndilega tugþúsundum saman frá heimilum sínum, vinnustöðum og kaffihúsum og rísa upp gegn keisaranum? Undiraldan í þjóðfélaginu hlýtur að hafa verið gífurleg.

Vopnlausum almenningi er það enginn leikur að lama atvinnulíf voldugs ríkis Og hrekja keisara úr landi. Að baki slíks hlýtur að ríkja öflugur þjóðarvilji, sem hvorki keisarinn né hinir vestrænu fréttamenn höfðu tekið nógu vel eftir.

Fréttamenn mega ekki líta eingöngu á auðséð yfirborð glæsilegra halla, verksmiðja og varnarvéla. Þeir verða að kafa undir yfirborðið. finna sögu þjóðanna, hefðir þeirra og hugsanir.

Það þýðir ekki að mata fréttaneytendur á því, að svartklæddir og snaróðir sjíta-prestar hafi æst Írani til óhæfuverka. Við viljum fá að vita, hvernig sambandi íslams og almennings er háttað í Íran nútímans.

Vonandi taka stóru fréttastofurnar nú til óspilltra málanna og senda til Íran menn, sem þekkja tungu fólksins, sögu þess, trú og Siði. Með þeim hætti getum við fengið áreiðanlegri fréttir af gangi mála og líklegri framtíðarþróun.

Margir skrifa gáfulega um Íran eins og önnur alþjóðamál. En þeir vita ekki í rauninni, hvað muni snúa upp að lokinni þessari lotu. Verður þar prestaveldi. borgaraleg stjórn, vinstri sósíalismi, herforingjaveldi eða eitthvað annað?

Þetta vita ekki einu sinni sérfræðingarnir. Og það stafar af því að upplýsingastreymið er í verulegu ólagi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið