Illahraun

Frá Setrinu sunnan Hofsjökuls og norðan Kerlingarfjalla til Ásgarðs í Kerlingarfjöllum.

Leiðin ber nafn með rentu. Hún er löng og úfin og lítið er um vatn á heitum degi. Að mestu er fylgt jeppavegi, þótt krókar séu teknir af honum hér og þar. Útsýni er fagurt, einkum til Kerlingarfjalla, þar sem stakir tindar rísa brattir upp af landinu, Loðmundur, Snækollur og Mænir. Í norðri rís Blágnípa og að baki henni Hofsjökull. Illahraun er hluti af stóru hrauni, sunnar og austar heitir það Setuhraun og Kisuhraun. Milli Illahrauns og Setuhrauns er 100 metra hæðarmunur og sjást þar háir hraunfossar.

Förum frá fjallaskálanum Setrinu í 700 metra hæð og í suðvestur og síðan í vestur og eftir slóð upp fjallsrana. Upp ranann förum við vestur, nánast að Efri-Kisubotnum, þar sem slóðin beygir til norðurs meðfram austurhlið Kerlingarfjalla. Við förum um Illahraun í 820 metra hæð, sunnan við Þverfell og norðan við Kerlingarfjöll. Næst beygjum við til norðurs og norðvesturs að Jökulfalli og förum suðvestur með henni vestur fyrir Ásgarðsfjall / Árskarðsfjall og síðan suður í dalverpið vestan fjallsins, þar sem fjallaskálarnir eru í 700 metra hæð.

23,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Setrið: N64 36.903 W19 01.165.
Kerlingarfjöll: N64 41.074 W19 18.119.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjórðungssandur, Miklumýrar, Hrunamannaafréttur.
Nálægar leiðir: Klakkur, Arnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson