Í þessum dálkum hefur að undanförnu verið bent á, að þjóðin hefur ekki efni á að láta ríkið borga 11600 milljón krónur á ári í niðurgreiðslur, útflutningsuppbætur og aðra styrki til landbúnaðar. Einnig hefur verið bent á, að þjóðin hefur ekki efni á að láta neytendur borga þar ofan á rúmlega 3000 milljón krónum of mikið yfir búðarborðið fyrir afurðir landbúnaðarins.
Í þessum dálkum hefur verið bent á fánýti þeirrar röksemdar, að landbúnaðurinn afli gjaldeyris og spari gjaldeyri. Ennfremur hefur verið bent á haldleysi annarra röksemda til varnar landbúnaði, svo sem þeirrar, að styrkir til landbúnaðar tíðkist í öðrum löndum og komi í veg fyrir skort á landbúnaðarafurðum.
Í þessum dálkum hefur verið lagt til, að felldar verði niður útflutningsuppbætur og aðrir beinir styrkir til landbúnaðar þegar í stað og að niðurgreiðslur verði afnumdar í áföngum á fimm árum. Í sömu áföngum verði innflutningur landbúnaðarafurða gefinn frjáls.
Í þessum dálkum hefur verið lagt til, að hluti sparnaðar ríkisins af þessum ráðstöfunum verði notaður til að greiða bændum skaðabætur vegna verðhruns landbúnaðarafurða, sem mundi leiða í kjölfar aðgerðanna.
Í þessum dálkum hefur verið lagt til, að annar hluti sparnaðar ríkisins af þessum ráðstöfunum verði notaður til að kaupa 400 jarðir á ári og fella þær úr ábúð, þannig að setnum jörðum fækkaði úr 4000 í 2000 á fimm árum og þjóðin sem heild eignaðist smám saman landið sitt.
Á þessu fimm ára tímabili mundu samt verða samtals 16936 milljónir króna afgangs af styrkjasparnaðinum. Þennan sparnað mætti vissulega nota til að miskunna skattgreiðendum. En skynsamlegt væri þó að nota þennan sparnað fyrstu fimm árin til að skapa atvinnutækifæri fyrir 200 bændur og 2000 starfsmenn vinnslustöðva landbúnaðar og . búvöruiðnaðar.
Til ráðstöfunar væru þá hvorki meira né minna en tæpar sex milljónir á mann, án þess að ein einasta króna sé notuð, sem ekki kemur frá sparnaði af niðurfellingu styrkja til landbúnaðarins.
Þetta fé má nota á ýmsa vegu. Til greina kemur að nota það til að reisa iðngarða í kauptúnum og kaupstöðum þeirra héraða, þar sem jarðir fara úr ábúð. Með þeim hætti væri stefnt að því að skapa atvinnutækifæri innanhéraðs, svo að búseturöskun í landinu yrði sem minnst.
Í iðngörðum þessum væri mönnum leyft að setja upp smáiðnað í vægri eða engri leigu, að minnsta kosti til að byrja með. Þetta mundi mjög ýta undir framtak í iðnaði, því að húsnæðisskortur og hár byggingakostnaður draga annars mjög kjark úr mönnum.
Auðvitað verður að gera ráð fyrir, að þessum iðnaði vegni misjafnlega vel. En iðngarðarnir eru varanleg verðmæti, sem geta tekið við nýjum fyrirtækjum í stað þeirra af hinum eldri, sem ekki bera sig.
Eftir fimm ár má svo fara að nota sparnaðinn af þessari stefnu til að lækka skatta á þjóðinni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
