Í grýtta jörð

Greinar

Ef sáðkornið fellur í frjósaman jarðveg, ber það yfirleitt ríkulega uppskeru, sem sáðmaðurinn og hans fólk lifir á, auk nægilegs afgangs fyrir næsta uppskerutímabil. Falli það hins vegar í grýtta jörð, er fyrirhöfnin hins vegar til einskis og framleiðsluhringurinn rofnar.

Fjármagnið er sáðkorn efnahagslífsins. Því er sáð í atvinnulífið til að auka framleiðsluna, sem síðan skilar til baka auknu fjármagni til nýrrar og stærri hringferðar í efnahagslífinu. Það skiptir miklu, að fjármagnið, eins og sáðkornið, falli í frjósaman en ekki grýttan jarðveg.

Hlutlausar tölur sýna, að fjármagn fellur hér á landi í grýttari jarðveg en í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafsins. Fjármagnið skilar ekki sömu afköstum hjá okkur. Þar af leiðandi er hagvöxtur okkar efnahagslífs hægari en hann þyrfti að vera, þótt við notum tiltölulega lítinn hluta fjármagnsins til neyzlu og tiltölulega mikinn til útsæðis.

Við höfum á undanförnum árum haft svipaðan hagvöxt og Danir, 4-4,5% á ári. Til þess að ná þessum hagvexti hafa þeir árlega sparað 19% af fjármagni sínu til fjárfestingar, en til þess að ná sama árangri höfum við orðið að leggja til hliðar 27% af fjármagni okkar í það útsæði, sem fjárfestingin er.

Auðugasta þjóð í heimi, Bandaríkjamenn, sáir fjármagni sínu í svo frjósaman jarðveg, að hún þarf ekki að leggja til hliðar nema 17% af þjóðarframleiðslunni. Og mesta uppgangsþjóð síðustu ára, Japanir, hefur ár eftir ár náð.10% hagvexti út á svipaða fjárfestingu og við, eða um 28% af þjóðarframleiðslunni.

Við förum þannig illa með fé okkar í samanburði við aðrar þjóðir. Við leyfum ekki fjármagni okkar að leita hagkvæmustu hafna. Við setjum það ekki í þá atvinnuvegi, sem skila mestum arði á stytztum tíma, heldur förum eftir pólitískri forgangsflokkun, sem bindur fjármagnsstraumana í fastar skorður.

Ríkisvaldið skipuleggur forgangsröðun atvinnuveganna að handbæru fjármagni, lánakjörum og vaxtakjörum, svo og að ríkisábyrgðum. Þetta gerir ríkið með því að ná undir sig verulegum hluta af því fjármagni, sem liggur á lausu til fjárfestingar, og veita því í stofnlánasjóði, sem atvinnuvegirnir lífa síðan á.

Ríkisvaldið skipuleggur forgangsröðun atvinnuveganna að styrkjum, uppbótum og niðurgreiðslum. Þetta gerir ríkið með því að ofskatta þjóðina og draga þannig úr því fjármagni, sem annars færi í heilbrigðari fjárfestingu.

Ríkisvaldið skipuleggur almenna dreifingu fjármagns í grýtta jörð með óheftri byggðastefnu. Sú stefna á vissulega rétt á sér, meðan hún er í hófi og tekur mikið tillit til arðsemi. En byggðastefnan getur orðið að frumskógi, sem mergsýgur þjóðina án þess að gefa af sér nægan arð. Segja má, að fjárlög ríkisins stefni smám saman að einni allsherjar byggðastefnu, auk gífurlegrar fjársöfnunar í byggðasjóði, jöfnunarsjóði og aðra slíka sjóði. Enginn virðist gera sér fræðilega grein fyrir, hve langt megi ganga á þessu sviði.

Að öllu þessu samanlögðu er fengin nokkur skýring á sífelldri verðbólgu, eilífri fjárvöntun þjóðarinnar og gremju hennar yfir lífskjörum sínum. Sáðkornið fellur einfaldlega í grýtta jörð.

Jónas Kristjánsson

Vísir