Í áttina en ekki nóg.

Greinar

Ekki næst stjórn á útgjöldum ríkisins, nema “samneyzlu verði hagað í samræmi víð þjóðarframleiðslu, en ráðist ekki af sjálfvirkum útgjaldaákvæðum eldri laga, sem ekkert tillit taka til þjóðarhags”. Þessi einföldu og gullvægu sannindi koma fram í skýringum víð fjárlagafrumvarpið, sem lagt var fram í gær.

Í samræmi við þessa ágætu hugsun hefur ríkisstjórnin ákveðið að ráðast að mikilvægum, sjálfvirkum útgjaldaliðum, meðan fjárlagafrumvarpið er til umræðu á Alþingi. Gerir frumvarpið ráð fyrir, að það takist að knýja fram breytingar á lögum og reglum til sparnaðar á ýmsum sviðum. Þessi stefna var svo sannarlega orðin tímabær.

Ríkisstjórnin leitar með frumvarpinu almennrar lagaheimildar til að lækka lögboðin fjárframlög um 5%. Þá vill hún skera niður útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir um helming, miðað við hámark verðtryggingar og spara þannig 870 milljónir króna. Ennfremur vill hún lækka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum um fjórðung og spara þannig 1425 milljónir króna. Og heilar 2000 milljónir króna vill hún spara í tryggingakerfinu.

Með þessu og ýmsu öðru hyggst ríkisstjórnin skera niður sjálfvirk útgjöld um 4700 milljónir króna. Ef alþingi fellst á þetta, verður unnt að fella niður 12% vörugjaldið og lækka tolla í samræmi við alþjóðasamninga.

Fleiri góðar fréttir fylgja fjárlagafrumvarpinu. Sérstök skrá hefur verið samin yfir starfsmenn ríkisins og hefur hún leitt í ljós, að þeir eru rúmlega 100 fleiri en leyft hefur verið. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til greiðslu á launum fyrir þessi óleyfilegu störf.

Þá er í skýringum frumvarpsins lofað, að lánsfjáráætlun verði lögð fram, meðan fjárlögin eru til meðferðar. Þetta ætti að hafa það í för moð sér, að meira verði að marka fjárlögin. Menn ættu að sjá, til hvaða framkvæmda á að sníkja lánsfé framhjá fjárlögum. Erfiðara verður að koma við óskhyggju á borð við brú yfir Borgarfjörð og nýja flugvél Landhelgisgæzlunnar til viðbótar við þá, sem fyrir er og litið er notuð. Slíkur lúxus er ekki tímabær við núverandi aðstæður í efnahagsmálum.

Hins vegar eru í fjárlögunum þær ömurlegu fréttir, að allar þessar aðgerðir duga ekki til að skera niður hlutfall ríkisútgjalda af þjóðartekjum. Ríkið mun því halda áfram að sliga þjóðarbúið á næsta ári eins og undanfarin ár. Ríkisstjórninni var fyrirgefið slíkt getuleysi í fyrra, þegar hún var nýsetzt að völdum, en nú er ekki unnt að fyrirgefa það.

Fjárlagafrumvarpið er nefnilega enn eins og fyrri daginn byggt upp af margvíslegri óskhyggju ráðuneyta og stofnana, sem að sjálfsögðu gengur langt út fyrir getu þjóðarinnar. Það reynist ekki nóg að skera niður sjálfvirk útgjöld, heldur verður líka að setja þak á fjárlögin í heild og einstaka kafla þeirra, áður en embættismönnunum er sleppt lausum. Þetta sýnir fjárlagafrumvarpið nýja.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið